Tilnefning Eyjabakka sem votlendissvæðis á skrá Ramsar-samningsins

Fimmtudaginn 16. nóvember 2000, kl. 18:32:42 (1934)

2000-11-16 18:32:42# 126. lþ. 26.8 fundur 9. mál: #A tilnefning Eyjabakka sem votlendissvæðis á skrá Ramsar-samningsins# þál., umhvrh.
[prenta uppsett í dálka] 26. fundur, 126. lþ.

[18:32]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Hér hefur verið rætt ágætlega um mikilvægi votlendis af framsögumönnum og þeim sem hafa hér stigið í pontu. Það er rétt sem hér hefur komið fram að það hefur verið gengið allt of langt í því að ræsa fram votlendi. Menn sjá það núna þegar þeir líta til baka og þess hefur verið freistað að endurheimta það. Nefnd er með þau mál til sérstakrar skoðunar á vegum landbrn. og hún hefur náð einhverjum árangri og m.a. dreift bæklingi mjög víða um land þar sem mönnum er bent á að koma með hugmyndir um hvar sé hægt að endurheimta votlendi, að senda inn sem sagt upplýsingar um það. Ég tel að það sé mjög góð leið til þess að fá upplýsingar og fá gögn til að setja inn í gagnagrunn um hvar sé votlendi sem hægt er að endurheimta.

Þess ber einnig að geta hér að í umhverfismati er þess oft getið, í því ferli, hvernig eigi að endurheimta votlendi á móti þeirri framkvæmd sem menn ætla í. Það eru sett inn skilyrði um endurheimt votlendis oft og tíðum ef verið er að taka votlendi undir einhverja framkvæmd.

Ramsar-svæðin hér á landi eru þrjú eins og hefur komið fram, þ.e. Mývatn og Laxársvæðið, Þjórsárver og Grunnifjörður. Hér er gerð tillaga um fjórða svæðið, Eyjabakka. Þar hefur Landsvirkjun hins vegar leyfi til virkjunar, sem þeir eru reyndar ekki með áform um að nýta sér núna í augnablikinu. En þetta leyfi er eigi að síður til staðar.

Mál hafa farið í annað ferli eins og hér hefur verið dregið fram. Menn eru núna með Kárahnjúkavirkjun í umhverfismati. Meðan því er ekki lokið sé ég ekki svigrúm til þess að samþykkja þessa tillögu vegna þess að hún afnemur ekkert leyfi Landsvirkjunar. Það er eftir sem áður fyrir hendi. Þannig að ég býst við því að réttasta leiðin væri, vilji menn ná þessu máli fram, að leggja til að sú heimild verði felld úr gildi.

Stjórnvöld hafa haft til skoðunar annað svæði sem fjórða Ramsar-svæðið. Það er reyndar ekki búið að taka neinar ákvarðanir um það, en það hefur verið aðeins til skoðunar og það er Breiðafjarðarsvæðið. Samkvæmt Ramsar-samningnum mega svæði allt niður á, að mig minnir, sex metra dýpt útnefnast sem Ramsar-svæði, virðulegur forseti, miðað við stórstraumsfjörumörk, þannig að í Breiðafirði eru umfangsmikil svæði sem gætu fallið undir skilgreiningu samningsins. Þessi mál hafa verið til skoðunar, en niðurstaða þeirrar athugunar liggur ekki fyrir og algjörlega óljóst um hvort Breiðafjörðurinn verði Ramsar-svæði. En það er vel hugsanlegt í framtíðinni.

Hér hefur líka verið komið inn á þá ákvörðun ríkisstjórnarinnar sem var tekin fyrir skömmu síðan að gera Vatnajökul að þjóðgarði. Þar voru nefndar hugmyndir um stækkun á þeim þjóðgarði. Ég tel að sá þjóðgarður muni stækka í framtíðinni. Hins vegar var tekin sú ákvörðun núna í kjölfar nefndarstarfs að miða mörk þjóðgarðsins við jökulröndina, að það væri fyrsta skrefið, það væri samstaða um það og við mundum vinna að málinu með þeim mörkum. Ýmsar ástæður voru tíndar til um það hvers vegna ætti að skilgreina mörkin þar en ekki víðar, svo sem eignarhald á landi. Það er því verið er að stíga stórt skref með því að stofna Vatnajökulsþjóðgarð. En ég tel algjörlega einsýnt að hann muni stækka í framtíðinni. Það er alveg ljóst. Það eru svæði þarna í kring sem brýnt er að hafa innan væntanlegs þjóðgarðs. Eða þá hugsanlega að stofna nýjan þjóðgarð sem yrði upp af Vatnajökulsþjóðgarði. Menn hafa nefnt hugmyndir eins og t.d. um eldfjallaþjóðgarð sem mér þykir góð hugmynd. Það er gott að útskýra fyrir fólki hvað í slíkum þjóðgarði er og svæðið norður af Vatnajökli gæti líka verið slíkur þjóðgarður.