Verkfall framhaldsskólakennara

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 15:05:59 (1943)

2000-11-20 15:05:59# 126. lþ. 27.91 fundur 123#B verkfall framhaldsskólakennara# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[15:05]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil taka undir með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni. Ríkisstjórnin sýnir ótrúlegt andvaraleysi vegna kennaraverkfallsins og það er stóralvarlegt mál ef ríkisstjórnin leitar ekki raunverulegra leiða til þess að leysa þessa deilu. Um 1.400 kennarar eru í verkfalli. Tæplega 20 þúsundum nemenda er haldið utan skólanna vegna þvergirðingsháttar ríkisstjórnarinnar. Það er stóralvarlegt mál ef hún sýnir áfram það andvaraleysi sem hún hefur sýnt í þessu máli.

Það er staðreynd að á liðnum árum hefur verið erfitt að manna skólana og því valda án efa bágborin launakjör. Það er síðan í hrópandi ósamræmi við þær yfirlýsingar sem ríkisstjórnin hefur gefið. Íslensk ungmenni eiga að sigla þöndum vængjum inn í framtíðina en án þess að nokkuð sé gert til að efla og bæta skólastarfið. Af hálfu fjmrn. og ríkisstjórnarinnar er hjakkað í saman farinu og talað um breytingar á launakerfum. En það eru ekki ný launakerfi sem þurfa að koma til sögunnar. Það er meira fjármagn sem þarf að koma til ef leysa á þessa deilu.

Auðvitað á Alþingi kröfu á því að fá núna upplýsingar frá hæstv. fjmrh. og hæstv. menntmrh. um hvað stendur til að gera til að leysa þessa deilu. Hvaða áform eru uppi? Á að bíða dag eftir dag og viku eftir viku? Á að bíða fram á næsta ár? Á að halda þúsundum nemenda utan skólanna? Á að halda 1.400 kennurum í verkfalli? (Gripið fram í: Hvað vill þingmaðurinn gera?) Ég vil fá svör. Ég vil viðbótarfjármagn inn í skólakerfið til að leysa þessa deilu.