Verkfall framhaldsskólakennara

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 15:08:14 (1944)

2000-11-20 15:08:14# 126. lþ. 27.91 fundur 123#B verkfall framhaldsskólakennara# (aths. um störf þingsins), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[15:08]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Staða þessa máls er svo grafalvarleg að ekki verður undan því vikist að taka það upp hér á Alþingi. Það eru ekki góð skilaboð sem berast frá samninganefnd kennara sem í þessari alvarlegu stöðu hefur nánast ekki fengið neitt tilboð af hálfu ríkisstjórnarinnar nema um kjaraskerðingu, þ.e. að afsláttur af kennslu sem kennurum var veittur í samningum 1997 vegna lengingar kennslutíma og þrengingar prófatíma verði tekinn af. Þetta hafa þeir gerst svo djarfir að kalla nauðsynlegar breytingar á vinnutíma sem mundi færa kennurum launabætur. Þvílíkur blekkingaleikur.

Það hlýtur að fara að hvarfla að þeim sem bera skólastarf í íslenskum framhaldsskólum fyrir brjósti að fyrir Sjálfstfl. vaki að nota þetta tækifæri til að slá pólitískar keilur með því að lítillækka framhaldsskólakennara, hvað sem þeir halda svo að þeir geti fengið upp úr því.

Hæstv. menntmrh. hlýtur að gera sér ljóst að það verður enginn framhaldsskóli rekinn án kennara, jafnvel þó allir fái fistölvu. En það er þó gert opinbert í grein, sem hv. talsmaður Framsfl. í þessu máli skrifar í DV í dag, að Framsfl. er einhuga í að styðja grunnskólakennara í þessu máli. Það liggur því fyrir að ríkisstjórnin er klofin í málinu ef marka má orð hv. þm. Það virðist ekki vera málinu til framdráttar nema síður væri og er þá illa komið fyrir garminum honum Katli.

Sem gamall samningamaður get ég sagt að það er ekki gert með annarri hendinni á nokkrum dögum að breyta vinnutímafyrirkomulagi og reisa nýja kjarasamninga á þeim grunni. Hlýtur ekki í þessari stöðu, hæstv. forseti, að þurfa að reyna að gera aðlögunar- og framgangssamning til skamms tíma og nota síðan þann tíma til þess að fara í vinnutímann?