Verkfall framhaldsskólakennara

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 15:16:32 (1948)

2000-11-20 15:16:32# 126. lþ. 27.91 fundur 123#B verkfall framhaldsskólakennara# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[15:16]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Viðbrögð ríkisstjórnarinnar eru alveg dæmalaus. Hér eru 20 þúsund nemendur utan skóla. Þeir hafa flosnað upp. Sumir eru farnir að vinna, aðrir eru komnir á næturrölt. Þeir sem vinna með félagsleg vandamál hafa lýst því yfir að þeir hafi miklar áhyggjur af því hvað gerist. Í hádegisfréttum var fjallað um hverjar afleiðingar verkfallið 1995 og niðurstaðan þá hafði á það hverjir flosnuðu upp úr skóla.

Svo koma ráðherrarnir hér meðan við erum með áhyggjur af 20 þúsund nemendum og tala um þingskapaumræður og hengja sig í form eða því undir hvaða formi við séum að ræða þetta alvarlega vandamál og segja svo: 70% kjarakröfur, mundi Samfylkingin ganga að því?

Við sitjum ekki við þetta borð. Við höfum ekki aðgang að þessu samningsborði. Við komum hér og spyrjum: Er önnin töpuð? Er enn þá hægt að bjarga? Munu nemendur flosna upp úr skóla? Ætlar ríkisstjórnin að axla ábyrgð og bregðast við? Þetta er spurningar okkar af því að foreldrar eru áhyggjufullir og hafa samband við þingmenn, væntanlega líka þingmenn stjórnarliðsins.

Herra forseti. Það hefur verið langur aðdragandi að því að þessi deila er núna í hnút og á það bentum við í utandagskrárumræðu fyrr í haust, langur aðdragandi meðan ríkisstjórnin gerði ekkert og flaut að feigðarósi með þeim hætti sem nú blasir við. Ekki koma og spyrja: Hvað ætlið þið að gera? Nefnilega vegna þess að þessi ríkisstjórn, ríkisstjórn valdsins, er með þetta á ábyrgð sinni. Það er hún sem leysir deiluna, ekki stjórnarandstaðan.

En stjórnarandstaðan kemur hér óháð öllu formi og spyr óþægilegu spurninganna sem er ekki hægt að svara.