Atvinnumál landsbyggðar og byggðastefna stjórnvalda

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 15:38:04 (1954)

2000-11-20 15:38:04# 126. lþ. 27.94 fundur 126#B atvinnumál landsbyggðar og byggðastefna stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[15:38]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að vitna í grein eða úttekt sem Morgunblaðið gerði fimmtudaginn 2. nóvember 2000 og vitnar í Viðskiptablaðið. Þar kemur fram að eftirspurn eftir vinnuafli á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki í annan tíma mælst meiri á þessum tíma árs samkvæmt könnun Þjóðhagsstofnunar á atvinnuástandi í september. Eftirspurnin er nú 1,6% af vinnuaflinu eða rúmlega eitt þúsund manns. Þetta hefur komið fram áður. Mest er eftirspurnin í byggingarstarfsemi eða um 5,4% samkvæmt könnuninni og mun eftirspurn haldast mikil áfram á höfuðborgarsvæðinu.

Á landsbyggðinni eru aðstæðurnar aðrar en þar hefur eftirspurn ekki áður verið minni. Þó dró enn úr eftirspurn eftir vinnuafli og er vilji til að fækka þar um 1,1% eða 390 manns. Þetta á þó ekki við um Suðurland, Suðurnes og Akureyri.

Vandi landsbyggðarinnar, virðulegi forseti, er fyrst og fremst stefnuleysi stjórnvalda í innanríkismálum. Hér er ekkert sem kemur á óvart. Það hefur komið fram í þjóðhagsspám og þjóðhagsúttektum að stöðugt er dælt inn fjármunum í framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu og afleiðingin er sem raun ber vitni. Einkavæðingin hefur líka dregið úr þjónustu á landsbyggðinni án þess að nokkrar mótvægisaðgerðir hafi komið til og ekkert gengur að færa störf út á land eins og góð áform hafa verið um. Þess vegna er við hæfi að spyrja hæstv. iðnrh.:

Hverjar eru mótvægisaðgerðir stjórnvalda vegna einkavæðingar og hagræðingar hjá opinberum fyrirtækjum, en þar hefur störfum fækkað mest úti á landsbyggðinni?

Hvernig gengur að færa opinber störf út á land eins og margoft er rætt um á hátíðastundum á hinu háa Alþingi?