Atvinnumál landsbyggðar og byggðastefna stjórnvalda

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 15:49:06 (1959)

2000-11-20 15:49:06# 126. lþ. 27.94 fundur 126#B atvinnumál landsbyggðar og byggðastefna stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[15:49]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra hafa ályktað um aðgerðir í skattamálum til jöfnunar lífskjara. Ég leyfi mér, herra forseti, að vitna til þeirrar ályktunar:

,,Stjórn Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi vestra ítrek\-ar ályktun 8. ársþings um byggðamál og skorar á Alþingi og ríkisstjórn að beita aðgerðum í skattamálum til jöfnunar lífskjara, þannig að búseta á landsbyggðinni verði eftirsóknarverð og atvinnustarfsemi njóti þar jafnræðis. Til að ná fram þessum markmiðum bendir stjórnin á eftirfarandi leiðir:

1. Útgjöld vegna ferðalaga milli heimilis og vinnustaða verði frádráttarbær frá skatti.

2. Stuðningur ef nám krefst breyttar búsetu.

3. Lægra afborgunarhlutfall námslána.

4. Þungaskattur af ökutækjum utan 100 km radíuss frá Lækjartorgi lækki um 30%.

5. Fella niður flugmiðaskatt.

6. Atvinnustarfsemi utan 100 km radíuss frá Lækjartorgi verði undanþegin almennu tryggingagjaldi sem núna er 3,99%.

7. Landbúnaður verði undanþeginn atvinnutryggingagjaldi sem nú er 1,15%.``

Herra forseti. Þeir sveitarstjórnarmenn sem þarna álykta þekkja vel hvað við er að fást. Þeir bera ekki svartsýni í brjósti gagnvart umbjóðendum sínum en þeir vita hvar á brennur. Þess vegna senda þeir frá sér þessa tillögu.

Það er svo, herra forseti, að í gegnum skattkerfið á ríkisvaldið möguleika á að jafna lífskjör og búsetuskilyrði fólks og þeim aðgerðum ber að beita. Þetta er gert víða í nágrannalöndum okkar og ætti alveg eins að vera hægt hér. Ég vil ítreka að í gegnum skattkerfið getum við jafnað lífskjör og haft áhrif á þær aðstæður sem fólk býr við.

Ég spyr hæstv. iðnrh.: Er eitthvað á döfinni í þessum efnum? Skattpíningin vegna fasteignaskattsins var jú leiðrétt og lagfærð, sem var lofsvert í sjálfu sér, en eru aðrar aðgerðir og virkari á leiðinni?