Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 16:01:05 (1964)

2000-11-20 16:01:05# 126. lþ. 27.5 fundur 197. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (barnabætur) frv., fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[16:01]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 75/1981, hinum almennu lögum um tekjuskatt og eignarskatt, nánar tiltekið þeim ákvæðum er fjalla um barnabætur.

Í frv. þessu eru lagðar til breytingar á a-lið 69. gr. laganna er fjallar um barnabætur en breytingarnar byggjast á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar svo og yfirlýsingu hennar frá því í marsmánuði sl. í tengslum við kjarasamninga en þó þannig að frávik eru nokkur í ívilnunarátt frá því sem þar var tiltekið.

Helstu atriði frv. lúta að upptöku ótekjutengdra barnabóta, afnámi eignaskerðingar barnabóta, hækkun á bótafjárhæðum, hækkun á skerðingarmörkum tekna og lækkun á skerðingarhlutföllum vegna tekna.

Meginmarkmið breytinganna er að draga úr tekjutengingum barnabótakerfisins með upptöku ótekjutengdra barnabóta og nálægt þriðjungslækkun á tekjuskerðingarhlutföllum en miðað er við að þessar breytingar komi til framkvæmda í þremur áföngum á árunum 2001, 2002 og 2003. Nánar tiltekið felast breytingarnar á frv. í eftirfarandi atriðum.

Í fyrsta lagi er lagt til í frv. að þegar á næsta ári verði teknar upp ótekjutengdar barnabætur fyrir börn undir sjö ára aldri að fjárhæð 33.470 kr. á ári en þessar bætur voru áður tekjutengdar. Markmiðið með breytingunni er eins og áður segir að draga úr tekjutengingu barnabótakerfisins. Þessi fjárhæð mun síðan hækka um 3% 1. janúar 2002 og um 2,75% 1. janúar 2003 í samræmi við hækkun annarra bótafjárhæða.

Í öðru lagi er lagt til í frv. að afnema eignatengingu barnabótakerfisins strax á næsta ári. Þá er lögð til sú breyting að bótafjárhæðir hækki í takt við almennar umsamdar launahækkanir á árunum 2001--2003. Í því felst að fjárhæðirnar hækki um 3% 1. janúar 2001, 3% 1. janúar 2002 og 2,75% 1. janúar 2003 til viðbótar við þau 2,5% sem áður höfðu verið samþykkt. Heildarhækkun bótafjárhæðar á næstu þremur árum nemur því 11,7%.

Þessar breytingar á fjárhæðum barnabótanna eru í samræmi við samþykktar breytingar á fjárhæðum persónuafsláttar sem breytt var sl. vor með þeirri undantekningu að barnabæturnar hækka um 2,75% árið 2003 í staðinn fyrir 2,25%. Í frv. er einnig gert ráð fyrir að skerðingarmörk tekna hækki nokkru meira en bótafjárhæðirnar. Þannig er lagt til að skerðingarmörkin hækki um 5% 1. janúar 2001, 5% 1. janúar 2002 og 4% 1. janúar 2003. Auk þess hækka skerðingarmörkin um 2,5% við álagningu næsta árs samkvæmt gildandi lögum. Heildarhækkun á skerðingarmörkum barnabóta á næstu þremur árum nemur því 17,5%. Síðast en ekki síst er gerð sú tillaga að skerðingarhlutföll tekna lækki um 2 prósentustig í tveimur áföngum eða um 1% hvort ár, 2002 og 2003, þ.e. úr 5 í 3% með einu barni, úr 9 í 7% með tveimur börnum og úr 11 í 9% með þremur börnum eða fleiri. Þetta jafngildir um þriðjungslækkun á skerðingarhlutföllum tekna.

Áætlað er að kostnaðarauki ríkissjóðs vegna þessara breytinga nemi rúmlega 2 milljörðum kr. árlega þegar breytingarnar verða að fullu komnar til framkvæmda á árunum 2003.

Eins og ég gat um í upphafi, herra forseti, eru þessar breytingar til komnar m.a. vegna góðs samstarfs sem efnt var til af hálfu ríkisstjórnarinnar við þá aðila sem gerðu kjarasamninga á hinum almenna vinnumarkaði fyrr á þessu ári. Út úr því samstarfi hefur komið, að því er ég tel, mjög vænleg niðurstaða sem gagnast mun öllum barnafjölskyldum í landinu, ekki síst þeim sem minni hafa tekjurnar eða hafa miðlungstekjur og þaðan af minna. Þetta er nánar útskýrt í greinargerð frv. og sést það glöggt á skýringarmyndum sem birtar eru með þeim texta. Ég tel að þó að niðurstaðan í þessu máli kosti meira en ráð var fyrir gert í upphafi -- en þá var talað um kostnaðarauka fyrir ríkissjóð á bilinu 1.300--1.500 millj. kr. að þremur árum liðnum en frv. gerir ráð fyrir 2.000 millj. kr. kostnaði -- tel ég að þrátt fyrir þennan kostnaðarauka sé um að ræða mál sem er sjálfsagt að flytja í þessum búningi. Hér er komið til móts við fjölmörg sjónarmið sem hafa verið uppi að því er varðar barnabótakerfið. Að sjálfsögðu er ekki komið til móts við öll sjónarmið sem uppi hafa verið eða allar kröfur sem fram hafa verið bornar en ég held að náðst hafi mjög affarasæl niðurstaða þar sem komið er til móts við flest þau sjónarmið sem máli skipta í þessu efni.

Ég leyfi mér að leggja til, herra forseti, að máli þessu verði að umræðu lokinni vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.