Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 16:07:30 (1965)

2000-11-20 16:07:30# 126. lþ. 27.5 fundur 197. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (barnabætur) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[16:07]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Vissulega er ánægjuefni að verið er að fjalla um að auka nokkuð barnabætur til heimilanna í landinu og ber að fagna því skrefi sem stigið er í þá átt með því frv. sem er til umræðu. En því ber að halda til haga líka sem rétt er í þessu sambandi, að ríkisstjórnin er nokkuð að bæta fyrir það hvernig hún hefur raunverulega farið með barnabæturnar á þessu og síðasta kjörtímabili eða allt frá árinu 1995. Verið er að uppfylla loforð sem hún gerði í tengslum við kjarasamninga og stjórnarflokkarnir telja sig líka vera að standa við þau kosningaloforð sem þeir lofuðu og fóru fram með fyrir síðustu kosningar.

Það er alveg ljóst ef litið er til kosningaloforða þeirra stjórnarflokka sem standa að þessu frv. að engan veginn er verið að standa við það sem kjósendum var lofað á sínum tíma. Í fyrsta lagi lofaði Framsfl. því að taka upp barnakort fyrir öll börn og það verður að líta svo á að það séu þá börn a.m.k. fram að 16 ára aldri ef ekki 18 ára aldri eftir að sjálfræðisaldrinum er breytt og greiða með hverjum barni upp að vissum aldri 30 þús. kr. en hér er aðeins stigin hálf leiðin vegna þess að einungis er greitt sem svarar ótekjutengdum barnabótum rúmlega 30 þús. kr. fyrir hvert barn upp að sjö ára aldri.

Sjálfstfl. lofaði aftur á móti á landsfundi sínum því að afnema tekjutengingu barnabóta eða að öðrum kosti að taka upp persónuafslátt fyrir hvert barn frá fæðingu til 18 ára aldurs sem foreldrar geta nýtt. Það er alveg ljóst að með þeirri leið sem hér er farin er ekki verið að afnema tekjutengingu barnabóta, aðeins að stíga skref í þá átt að draga úr henni. Að vísu er eignatengingin afnumin en ekki tekjutengingin nema að litlum hluta. Hér er að sjálfsögðu ekki eins og frv. lítur út verið að taka upp sérstakan persónuafslátt fyrir hvert barn frá fæðingu til 18 ára aldurs. Vantar mikið á að Sjálfstfl. standi við það sem hann lofaði í því efni fyrir síðustu kosningar.

Herra forseti. Í raun og veru er ekki verið að stíga mjög stórt skref þegar grannt er skoðað. Hér hefur ríkisstjórnin ákveðið að verja fjármunum sem nema 2 milljörðum á næstu þremur árum til að auka barnabætur þar sem sett verður framlag sem nemur 600--700 millj. á hverju ári næstu þrjú árin. Jafnvel þegar það skref hefur að fullu verið stigið og er komið til framkvæmda þá stöndum við ekki einu sinni í þeim sporum sem barnabótakerfið var í árið 1995 en á þeim tíma, 1995, voru fastar bætur sem öll heimili fengu á árinu miklu stærri hluti í heildarútgjöldum ríkisins vegna barnabóta en þær verða að þremur árum liðnum þegar tillögur ríkisstjórnarinnar verða að fullu komnar til framkvæmda. Á verðlagi í maí voru barnabætur rúmir 5,4 milljarðar, á árinu 1995 en á yfirstandandi ári eru þeir tæplega 3,6 og fjöldi heimila sem fengu barnabætur var um 71 þús. á árinu 1995 en hefur fækkað í 38 þús. á yfirstandandi ári. Ótekjutengdi hlutinn í nýju barnabótakerfi sem ríkisstjórnin boðar með þessu frv. er líka aðeins um þriðjungur þess sem var árið 1995. Af því sést að ekki er verið að stíga mjög stórt skref í að afnema tekjutenginguna á barnabótum. Þannig kostar ótekjutengdi hlutinn í heild ríkissjóð á næsta ári um milljarð kr. en á árinu 1995 kostaði hann 2,8 milljarða kr. eða nærri þrefalt meira, þ.e. ótekjutengdi hlutinn sem allir fá. Á árinu 1995 var ótekjutengdi hlutinn að meðaltali um 40 þús. kr. á ári með öllum börnum að 16 ára aldri en aðeins verða greiddar í nýju kerfi rúmar 33 þús. kr. á ári að sjö ára aldri barns. Hér er verulegur munur á frá þeirri stöðu sem við vorum þó komin með barnabótakerfið í árið 1995 þegar við á árinu á undan höfum búið við miklu verra efnahagsástand en við búum við í dag og á umliðnum árum þegar ríkisstjórnin hefur verið að krafsa svona í barnabótakerfið með þeim afleiðingum sem við höfum séð.

Það hefur einmitt verið keppikefli að ég hélt flestra stjórnmálaflokka að vinna sig þannig út úr tekjutengingunni á barnabótakerfinu. Við vorum komin töluvert langt með það árið 1995 þegar ótekjutengdi hlutinn var nálægt þrisvar sinnum meiri en hann er í dag og nærri þrisvar sinnum meira fjármagni varið til ótekjutengda hlutans en verður að þremur árum liðnum þegar þetta frv. er að fullu komið til framkvæmda. Það sem meira er, ótekjutengdi hlutinn nær bara til barna að sjö ára aldri en ekki til 16 ára aldurs eða raunverulega 18 ára aldurs sem það ætti að gera eftir að sjálfræðisaldrinum var breytt.

Ég spyr hæstv. ráðherra um rökin fyrir því af hverju staðnæmst er við sjö ára aldur barns. Ég held að við vitum það og flestir geta tekið undir það sem hafa alið upp börn að framfærslubyrði með börnum er raunverulega miklu meiri þegar börn stálpast og eru komin á unglingsaldurinn en þau eru að sjö ára aldri. Raunverulega er það svo með þeim þjóðfélagsbreytingum sem hafa orðið og með auknum menntunarkröfum að það leiðir til þess að börn dveljast lengur í foreldrahúsum en áður og þurfa lengur á framfærslu foreldra sinna að halda. Í könnun sem Félag einstæðra foreldra hefur gert kom fram einmitt að framfærslukostnaður vegna 16 ára barna er miklu meiri en vegna yngri barna. Á árinu 1991 var hann áætlaður hvorki meira né minna en 500 þús. kr. árlega. Það er mjög skrýtið að staðnæmast við þennan aldur, ekki síst þegar mér sýnist að við séum raunverulega að fjalla um það sem ríkisstjórnin ætlar að gera það sem eftir lifir kjörtímabilsins að því er þessar barnabætur varðar. Marka ég það af orðum hæstv. utanrrh. og formanns Framsfl. þegar hann var spurður um það frv. sem við erum að fjalla um að þá var ekki hægt að skilja annað á orðum hans en að ekki yrði meira gert í þessum málum á kjörtímabilinu. Ljóst er að Framsfl. gengur til næstu kosninga með þessu sviknu loforð á bakinu að hafa ekki uppfyllt stærsta loforð sitt sem var að koma á barnakortum fyrir öll börn að 16 ára aldri sem nemur 30 þús. kr. á hvert barn.

[16:15]

Það er líka ástæða til þess að nefna það að barnabætur eru ekki tekjutengdar nema í örfáum löndum innan OECD og flestöll lönd utan Ástralíu, Grikklands, Ítalíu, Kanada, Portúgals og Spánar auk Íslands eru með ótekjutengdar barnabætur. Í skýrslu sem ASÍ hefur gert um skattkerfið segir einmitt, með leyfi forseta:

,,Flest ríki OECD líta á barnabætur sem tæki til skattajöfnunar milli fólks með sömu tekjur eftir því hvort það hefur börn á framfæri sínu eða ekki. Barnabætur eru þá greiddar sem fastur framfærslustyrkur óháður tekjum og hefur þróunin síðustu ár í flestum OECD-ríkjum verið í þessa átt. Hér á landi er þessu öfugt farið. Þróunin hér hefur verið frá því að nota barnabætur til skattajöfnunar til að nota þær sem tæki til félagslegrar aðstoðar við tekju- og eignaminni barnafjölskyldur.``

Það er einmitt þannig sem þetta hefur þróast í vaxandi mæli.

Það var auðvitað sök sér á þeim árum þegar við gengum í gegnum mikla kreppu í efnahags- og atvinnulífinu að farið var út í nokkra tekjutengingu á barnabótum. En þegar vel hefur árað eins og á umliðnum árum þá áttu menn auðvitað að nota tækifærið til þess að fara algjörlega út úr þessari tekjutengingu á barnabótum.

Ég spyr hæstv. ráðherra, auk þess sem ég spyr hann um þetta viðmið um sjö ára aldurinn, af hverju staðnæmst er þar, hvort hann telji ekki eðlilegra að búa þannig um hnútana varðandi skattkerfið að litið sé á barnabæturnar raunverulega sem lið í fjölskyldustefnu þannig að allir fái barnabætur óháð tekjum sem litið er á raunverulega þá sem eign barnsins. Síðan ef menn vilja jafna skattbyrðina með einhverjum hætti þá sé það gert gegnum mismunandi skattþrep, t.d. í tekjuskatti, en að litið sé á þetta eins og öll þau lönd sem við berum okkur saman við gera, þ.e. að þetta sé óháð tekjum. Ég hefði haldið að við hefðum átt að nálgast málið út frá þeim sjónarhóli.

Ég tel að þó að hægt sé að vísa til þess að sérstök viðmiðun við sjö ára aldur hafi gilt nokkuð langt aftur í tímann --- mér skilst raunverulega að hún hafi gilt allar götur síðan 1983 --- þá sé nú breytt umhverfi sem við eigum að skoða. Það eru allt aðrar aðstæður en voru í þjóðfélaginu þá og við eigum að skoða málið út frá því en ekki festa okkur í einhverju sem var fyrir 20 árum eða svo varðandi þetta viðmið.

Herra forseti. Ég lít líka svo á, og mun auðvitað skoða þann þáttinn alveg sérstaklega í efh.- og viðskn. þar sem ég á sæti, að skoða þurfi það sem ríkisstjórnin hefur sett fram um hverju þetta skilar að því er varðar auknar ráðstöfunartekjur, sérstaklega til tekjulágra heimila og einstæðra foreldra. Hvernig sem ég reikna og hef látið skoða sérstaklega fyrir mig þá fæ ég ekki það sama út úr því hverju þetta skilar í auknum ráðstöfunartekjum til fólks eins og ríkisstjórnin kynnti á blaðamannafundi 28. okt. þegar hún kynnti þessa fyrirætlun sína að hækka barnabætur. Þar kemur fram að samanlagðar ráðstöfunartekjur einstæðra foreldra sem hafa lægstar tekjurnar hækki úr ríflega 8% á meðan hækkunin nemur 3,7% í hópi tekjulægstu hjóna og sambýlisfólks. Hvoruga þessara talna fæ ég til þess að ganga upp og hef út af fyrir sig líka reynt að kalla eftir því í fjmrn. að fá útreikningana á bak við þessar töflur sem settar eru fram með frv. en hef ekki fengið og mun því kalla eftir því í meðförum málsins í efh.- og viðskn.

Ég sé ekki betur en að barnabætur til tekjulágra hjóna með tvö börn, ef við tökum tvö börn, annað yngra en sjö ára, sem fengu óskertar bætur samkvæmt gildandi kerfi, hækki aðeins um 2.600 kr. á mánuði eftir þrjú ár þegar breyting á barnabótunum er að fullu komin til framkvæmda. Skýringin er m.a. sú að í nýju kerfi fellur niður á móti tæplega 32 þús. kr. viðbótargreiðsla sem hjónin fengu áður vegna yngra barnsins. Bótafjárhæðirnar og skerðingarmörkin í gildandi barnabótakerfi hafa ekki heldur haldið í við verðlag frá árinu 1995, en barnabætur væru annars 9% hærri í dag. Þær eiga að hækka í rúm 5,5% á næsta ári, síðan um 3% 2002 og 2,75% á árinu 2003. Miðað við verðbólguspár munu bótafjárhæðirnar sennilega ekki ná því að raungildi á árinu 2003 sem þær ættu að vera í dag hefðu bótafjárhæðirnar haldið í við verðlag frá árinu 1995.

Mér finnst mikilvægt að skoða hvort hérna sé um að ræða einhverja verulega hækkun á ráðstöfunartekjum einstæðra foreldra sem lægstar hafa tekjurnar eða tekjulágra hjóna og sambýlisfólks eins og verið er að gefa í skyn að þessi breyting skili.

Ég veit að það þýðir ekki mikið að vera að ræða þá talnalegu hluti hér í ræðustólnum en þetta er atriði sem ég vil skoða í nefndinni og dreg sem sagt verulega í efa það töfluverk sem sýnt er með þessu lagafrv.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji enga ástæðu til þess þegar við erum að líta til barnabótakerfisins sem svo miklu skiptir fyrir heimilin í landinu, að miða barnabætur við sjálfræðisaldurinn. Það eru tvö, þrjú ár síðan fórum í að breyta og hækka sjálfræðisaldurinn og ættu ekki barnabætur þá að fylgja þeirri breytingu þar sem við höfum miðað við að sjálfræðisaldurinn sé 18 ár?

Í svari sem ég fékk frá hæstv. fjmrh. fyrir sennilega tveim árum var farið yfir hvernig þetta er í hinum ýmsu löndum. Sérstaklega var spurt um Norðurlöndin og þar eru barnabætur alls staðar ótekjutengdar. Þær eru greiddar t.d. í Danmörku til 18 ára aldurs barns. Þær eru bæði algjörlega ótekjutengdar og greiddar til 18 ára aldurs. Í Noregi er því öðruvísi farið. Þar er greitt til 16 ára aldurs og í Finnlandi er greitt til 17 ára aldurs barns. Ég vil því spyrja hvort afstaða hafi verið tekin til þess hjá fjmrh. eða í ríkisstjórninni hvort það eigi ekki að fara út í einhverjar breytingar að því er varðar sjálfræðisaldurinn sem ég tel fulla ástæðu til að við skoðum.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra hvort það hafi verið hugleitt og hvort nokkuð sé á döfinni að heimila tekjulágum fjölskyldum og einstæðum foreldrum að nýta ónýttan persónuafslátt barna sinna því að á landsfundi Sjálfstfl. sem ég vitnaði til áðan var það einmitt áskorun landsfundarins að taka upp persónuafslátt fyrir hvert barn frá fæðingu til 18 ára aldurs sem foreldrar geti nýtt. Þetta er mál sem Samfylkingin hefur lengi talað fyrir að sé réttlætismál og ætti að skoða. Síðast þegar ég skoðaði það mál var ónýttur persónuafsláttur vegna barna að 16 ára aldri um tveir og hálfur milljarður. Það hefði sennilega kostað töluverða fjármuni að heimila foreldrum að nýta ónýttan persónuafslátt barna sinna, sjálfsagt ekki undir milljarði kr. En mér finnst ástæða til þess að skoða það ekki síst þar sem við vorum nú að fara líka í breytingar á því að heimila hjónum og sambúðarfólki að nýta að fullu ónýttan persónuafslátt þess maka sem ekki nýtir hann að fullu.

Eins hefði ég talið ástæðu til að skoða skattkerfið almennt í heild, hvernig það virkar sem það jöfnunartæki sem við höfum oft talið að skattkerfið ætti að vera. Ég hef t.d. talið að það ætti að skoða það varðandi barnabætur að heimila t.d. fastan frádrátt frá tekjum fólks fyrir hvert barn áður en kemur að skattlagningu tekna og síðan þá að ná jöfnuninni inn í kerfið með því t.d. að taka upp skattþrep eins og t.d. ASÍ hefur talað fyrir. Ég tel að það mál eigi að skoða í því ljósi.

Herra forseti. Ég sé að tíma mínum er að verða lokið. Enn einni spurningu í viðbót vil ég beina til hæstv. ráðherra undir þessari umræðu vegna þess að við höfum samþykkt opinbera stefnu í málefnum fjölskyldunnar og hér er starfandi fjölskylduráð sem á að veita stjórnvöldum ráðgjöf í fjölskyldumálum, t.d. vegna áforma um stjórnvaldsaðgerðir. Þetta er einmitt mál sem slíkt fjölskylduráð hefði átt að fjalla um og spyr ég hvort það hafi fengið þetta mál til skoðunar.