Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 16:27:56 (1966)

2000-11-20 16:27:56# 126. lþ. 27.5 fundur 197. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (barnabætur) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[16:27]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að lýsa ánægju með þau skref sem stigin eru með þessu frv. um tekjuskatt og eignarskatt. Með frv. er dregið úr tekjutengingu barnabóta og tengingin við eignir er afnumin frá ársbyrjun 2001. Jafnframt verða viðmiðunarmörk barnabótakerfisins færð upp á næstu árum samkvæmt lágmarks umsömdum launabreytingum, en það mun hafa í för með sér að samsvarandi skerðing á þessu kerfi og við höfum upplifað á síðustu árum verður ekki. Samkvæmt greinargerð frv. má ætla að þetta muni kosta ríkissjóð allt að tveimur milljörðum á ári þegar þær hækkanir sem gert er ráð fyrir í þessu frv. verða allar komnar til framkvæmda.

Í þessu öllu saman felst svolítil mótsögn þegar menn eru að tala um aukið framlag. Skýringin er sú að það er verið að færa upp samkvæmt verðlagsþróun eða þróun launataxtans og þá verður mönnum að sjálfsögðu ljóst að við erum ekki að tala um raunaukningu sem nemur þessum tveim milljörðum til þessa málaflokks enda gefur það augaleið ef það ætti að færa þá fjóra milljarða eða þar um bil sem varið er til barnabótakerfisins upp samkvæmt verðbólgu, sem nú er einhvers staðar í kringum 4%. Hún er sennilega á milli 4 og 5% nú um stundir. Við skulum gefa okkur að hún sé 4% og framlagið til barnabótakerfisins er um fjórir milljarðar. Hvaða erum við þá að tala um? Við erum að tala um 40 milljónir á hvern milljarð. Við erum að tala um 160 milljónir á ári. Við erum að tala um tæpan hálfan milljarð þegar komið er fram til ársins 2003, en það er viðmiðunarverkið.

[16:30]

Þessu vek ég athygli á til að menn átti sig á að við erum ekki að tala um raunaukningu til barnabótanna sem nemur þeim 2 milljörðum sem ríkisstjórnin gumar af. Hins vegar hefði þurft 2 milljarða raunaukningu til að framlag ríkisins til barnabótanna væri svipað og það var fyrir tíu árum. Ég verð að segja það, herra forseti, að ég sakna þess svolítið að engir framsóknarmenn skuli vera við umræðuna. Það er merkilegt. Ég man ekki betur en þetta væri annað tveggja stóru kosningaloforða Framsfl. fyrir síðustu alþingiskosningar. En hér er verið að leggja fram frv. sem gerir það ekki einu sinni að framlag til barnabóta árið 2003 verði jafnmikið og það var fyrir tíu árum að raunvirði vegna þess að fyrir tíu árum var það að raunvirði 5.867 millj. kr. samkvæmt upplýsingum fjmrn. sem gefnar voru í svari við fyrirspurn sem ég lagði fram hér á Alþingi sl. vor, 5.867 millj. að raunvirði á móti 3.779 millj. á raunvirði árið 1999. Þarna munar rúmlega tveimur milljörðum kr.

En ríkisstjórnin segist ætla að auka framlagið um tæpa tvo milljarða og að hún verði búin að ná því marki árið 2003. Inni í þeirri upphæð er að sjálfsögðu verðlagið þannig að við erum ekki að tala um sömu upphæð að verðgildi.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa um þetta langa umræðu, aðeins örstutt um prinsippin í þessu máli. Ég er því samþykkur að draga úr tekjutengingu kerfisins. Ég er einnig samþykkur því að afnema eignatenginguna. Hún hefur komið illa við margt fólk sem á einhverjar eignir, íbúð, íbúðarhúsnæði. Við munum kannski mörg eftir eftirminnilegri grein sem var skrifuð í Morgunblaðið sl. sumar þar sem einstæð móðir rakti raunir sínar og hvernig sú staðreynd að hún átti íbúð varð til þess að hún missti barnabæturnar. Ég er þessu fylgjandi.

Þó verð ég að segja að þegar bætur, millifærslur í skattkerfinu eða bætur í almannatryggingakerfinu, eru annars vegar finnst mér eðlilegt að sums staðar sé tekjutenging. Mér finnst ekki eðlilegt að hún sé afnumin með öllu. En ég hef áður varpað fram þeirri hugmynd að þessi tekjutenging verði tryggð í gegnum skattkerfið, hún verði tekin í gegnum tekjuskattana og þannig verði einnig um aðrar bætur. Ég vil taka undir það sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir sagði áðan að í reyndinni þurfum við að taka allt skattkerfið til endurskoðunar, ekki einvörðungu barnabæturnar eða almannatryggingarnar. Við verðum að skoða þetta allt í mun stærra samhengi.

En ég vil aðeins að það komi fram að ég tel að einhverjar tekjutengingar eigi rétt á sér. Ég tel t.d. að það verði að vera meiri stuðningur við einstæða foreldra sem eru með börn á framfæri en við aðra. Mér finnst það vera eðlilegt en að öðru leyti vil ég lýsa stuðningi við það meginsjónarmið að dregið verði úr tekjutengingunni og að eignatengingin verði afnumin.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Ég vildi aðeins vekja athygli á því að ríkisstjórnin skyldi varast að skreyta sig miklum fjörðum með þessu frv. Hún er ekki að koma með aukinn stuðning við barnafólk í reynd, hún gengur ekki svo langt að tryggja barnafólki á þremur árum sambærilegan stuðning og það naut fyrir tíu árum en jafnt og þétt hefur verið dregið úr þessum stuðningi. Einnig vil ég vekja athygli á því að þegar fullyrt er að framlag ríkissjóðs verði 2 milljörðum meira á árinu 2003 en það er núna þá er það vissulega svo eða kann að vera svo í krónum talið en ekki að raungildi hins vegar.