Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 16:44:36 (1968)

2000-11-20 16:44:36# 126. lþ. 27.5 fundur 197. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (barnabætur) frv., GAK
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[16:44]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Hér erum við að ræða mjög þarft mál. Þó hér sé gengið mun skemmra en ríkisstjórnarflokkarnir boðuðu í kosningabaráttu þá er þetta skref sem við í Frjálslynda flokknum munum styðja og teljum til bóta.

[16:45]

Því ber að fagna að í þessu frv. skuli vera lagt til að afnema algjörlega tengingar við eignir fólks. Ég get alveg tekið undir það með þeim hv. þm. sem hér hafa talað að ég hefði viljað sjá meira aðhafst í því að afnema tekjutengingar almennt í barnabótum.

Af þeim töflum sem birtast með í þessu frv. má ráða að þeir sem lægstar hafa tekjurnar, reyndar kemur ekki nákvæmlega fram við hve lágar tekjur er verið að miða, hvorki varðandi einstæða foreldra né hjón og sambýlisfólk. Af frv. má ráða að það séu þó a.m.k. tekjur sem hjá þeim sem mest fá út úr þessari breytingu eru einhvers staðar á bilinu 600--700 þúsund hjá einstæðu foreldri og um 1.200--1.300 þúsund hjá hjónum og sambýlisfólki. Þar kemur fram að þeir sem lægstar hafa tekjurnar fá í raun og veru mesta hækkun og það er sjónarmið sem vissulega ber að taka undir.

Hins vegar ber að segjast alveg eins og er að það er margt annað sem menn hefðu viljað skoða í sambandi við skatta sem tengjast börnum og fjölskyldufólki. Eitt af því sem var nefnt í þessari umræðu er ónýttur persónuafsláttur barna. Það er auðvitað þannig að persónuafsláttur barna nýtist mjög misjafnlega hjá fjölskyldufólki og er rétt að fara um það nokkrum orðum.

Þær fjölskyldur eða þeir einstaklingar sem eru í sjálfstæðum atvinnurekstri hafa oft og tíðum tök á því að fullnýta persónuafslátt hjá börnum vegna þess að það er annaðhvort hægt að hafa börnin í vinnu eða þá að skrá tekjur á börnin. Vonandi er það svo að þau vinni þá fyrir þeim en örugglega má færa fyrir því rök að ekki er jafnræði milli sjálfstæðra atvinnurekenda annars vegar og launþega hins vegar hvað það varðar að nýta ónýttan persónuafslátt barna. Það væri auðvitað verðugt verkefni að það yrði skoðað og reynt að átta sig á því hvaða fjölskyldur á Íslandi það eru og hvaða fjölskyldugerð það er sem geta að mestu leyti nýtt persónuafslátt barna. Ég hygg að það sé eins og ég hef nefnt að verulegur munur sé á milli þeirra sem tengjast atvinnurekstri annars vegar og hinna sem ekki tengjast atvinnurekstri.

Ekki er hægt að draga þá ályktun af orðum mínum að ég sé beinlínis að væna fólk þar um skattsvik heldur er það einfaldlega auðveldara hjá fólki sem er með atvinnurekstur að sjá til þess að börn þeirra geti unnið fyrir tekjum en hjá hinum. Allir hljóta að sjá í hendi sér hvernig má koma því við, bæði með að hafa börn í hlutastarfi eða að öðru leyti þar sem menn fá því ráðið.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu vegna þess að ég held að það sé mjög þarft að skoða hvernig fólk hér á landi nýtir persónuafslátt barna.

Að öðru leyti vil ég lýsa því yfir enn á ný að við munum styðja þetta frv. og teljum það til bóta þó við hefðum vissulega viljað sjá að lengra væri gengið.