Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 16:49:46 (1969)

2000-11-20 16:49:46# 126. lþ. 27.5 fundur 197. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (barnabætur) frv., RG
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[16:49]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. fjmrh. finnist notaleg tilbreyting að koma í þennan sal og mæla fyrir þingmáli þar sem verið er að taka á málum til bóta og heyra ákveðið tekið undir það mál af hálfu stjórnarandstöðunnar. Auðvitað styðjum við öll skref þó við séum ósátt við stærðina í þessu skrefi og teljum jafnvel að leita eigi nýrra leiða til að koma til móts við barnafjölskyldur en hér er farið.

Það er ekki mjög oft sem við upplifum það að ríkisstjórnin sé að koma með þingmál sem eru úrbætur í málefnum fjölskyldunnar og reynt að líta á þau sem slík frá sjónarhóli fjölskyldunnar. Hér er að vísu bara lítið skref og bara verið að skoða fjölskyldur með börn innan sjö ára eins og ég mun koma að síðar. En það tók u.þ.b. þrjú ár frá ársbyrjun 1995 og fram á árið 1997 að þrýsta á ríkisstjórnina að koma fram á Alþingi með þáltill. um mótun opinberrar fjölskyldustefnu og þar með aðgerðir til að styrkja stöðu fjölskyldunnar. En þar kom að sú tillaga sá dagsins ljós, var lögð hér fram og samþykkt með fullum stuðningi stjórnarandstöðunnar, þó hún hafi látið í ljós vantrú á það sem koma átti í kjölfarið, nefnilega lagasetning á ólíkum sviðum, lagasetning um úrbætur í málefnum fjölskyldunnar, að það væri ákveðin vantrú á því að sú lagasetning mundi fylgja í kjölfarið á samþykkt Alþingis og ályktun þar um.

Þá hefur það því miður gengið eftir að lítið hefur verið um að ríkisstjórnin hafi borið hingað inn í þingsalinn mál þar sem verið er að setja lög um úrbætur í málum fjölskyldunnar. Þvert á móti er algengast að við séum að ræða um það hvernig ríkisstjórnin er að taka ákvarðanir sem skerða kjör hefðbundinnar fjölskyldu og einstæðra foreldra og annarra sem kallast í dag eða hinsegin fjölskyldur, eins og stundum er sagt.

Meginforsenda þeirrar fjölskyldustefnu sem ríkisstjórnin bar hér inn og samþykkt var, var að hún skyldi efla fjölskylduna í nútímaþjóðfélagi og spannaði því nánast öll viðfangsefni hinnar opinberu stjórnsýslu. Það er fróðlegt með tilliti til þessa, herra forseti, að drepa örlítið á hvað fólst í boðskap Alþingis til ríkisstjórnarinnar, nefnilega að skapa skilyrði til að ná jafnvægi milli fjölskyldulífs og atvinnu og leggja áherslu á jafna ábyrgð beggja foreldra í heimilishaldi og við umönnum og uppeldi barna sinna. Hefur ríkisstjórnin gert þetta? Hefur ríkisstjórnin beitt sér t.d. í því að mjög mikill mismunur er á launum karla og kvenna, að kvennalaunin dragast sífellt niður í samanburði? Ónei, ekki hefur hún gert það. Hér starfaði um árabil nefnd um starfsmat og laust fyrir kosningar rausnaðist félmrh. til að kippa málinu út úr nefndinni með þeim afleiðingum að fulltrúar fjmrn. lýstu því yfir að þeir teldu sig í engu bundna af niðurstöðu þessarar nefndar. Gífurlegar vonir höfðu verið bundnar við störf nefndarinnar, sem hafði starfað frá 8. mars 1995, 8. mars að sjálfsögu af því það var kvennadagur.

Nei, ekki hefur ríkisstjórnin verið að setja lög um þessi mál, hún horfir í hina áttina og veit lítið hvað er að gerast úti í þjóðfélaginu í miðju góðærinu.

Annað atriði er að grundvallaröryggi fjölskyldunnar sé efnahagslega tryggt ásamt rétti hennar til öryggis í húsnæðismálum. Aldrei hafa verið aðrir eins biðlistar hjá Reykjavíkurborg þrátt fyrir árlegt átak frá því að lögin um félagslegt húsnæði voru afnumin. Yfir 100 íbúðir byggðar á ári og nú á að hækka vextina af lánum til byggingar leiguíbúða. Það er aðgerð hæstv. ríkisstjórnar sem varðar grundvallaröryggi fjölskyldunnar í öryggi húsnæðismálum.

Ef við grípum niður í annan punkt, að gildi hjónabandsins sem hins traustasta hornsteins fjölskyldunnar verði varðveitt og þess vegna verði þess gætt við setningu skattareglna að þeir sem ganga í hjónaband standi ekki verr að vígi en aðrir í skattalegu tilliti.

Þá má kannski segja að ríkisstjórnin hafi svolítið haldið við þetta ákvæði, bara ekki á þann hátt sem við ræddum það á sínum tíma vegna þess að bæði hjón og einstæðir foreldrar hafa verið að missa barnabæturnar og meira að segja afleiðingar rangrar húsnæðisstefnu sem birtist í stórhækkuðu mati á húsnæði sem fólk hafði ekki verið að kaupa heldur bjóða í með óbreyttar tekjur, urðu til þess að fólk missti bæði barnabætur og vaxtabætur.

Öldruðum átti að gera kleift að taka þátt í samfélaginu svo lengi sem auðið væri og fjölskyldur fatlaðra, sjúkra og annarra hópa njóta stuðnings í ljósi aðstæðna og grundvallarréttur þeirra til fjölskyldustofnunar, heimilis og virkrar þátttöku í samfélaginu virtur. Það sem hefur gerst er að ríkisstjórnin hefur verið rýra greiðslur til þeirra sem byggja á greiðslum Tryggingastofnunar ríkisins, það á við bæði um aldraða og fatlaða og hefur þar með skert kjör. Frægt er bréfið um hvað kostaði fatlaðan einstakling að ganga í hjónaband og hefur komið í hólfið til okkar alþingismanna ekki bara einu sinni, heldur tvisvar.

Ef ég lít svo á einn punkt enn þá, að vernd gagnvart ofbeldi verði efld jafnt innan fjölskyldu sem utan, þá fer ég að hugsa um Barnahúsið. Þetta stórkostlega mál sem við sameinuðumst öll um og bárum fram og hrósuðum félmrh. fyrir að að þetta yrði málið sem yrði rósin í hnappagati hans þegar hann liti um farinn veg. Hvað gerðist þá? Auðvitað kom ríkisstjórnin með nýtt frv. og setti ný lög um að það ætti að yfirheyra börn í sérstöku húsnæði og við vorum svo barnaleg að halda að það væri Barnahúsið, en það var þá bara dómshúsið. Nú er svo komið að dómararnir í dómshúsinu eru að yfirheyra lítil börn út af máli sem verður e.t.v. aldrei dómsmál og yrði ábyggilega frægt langt út fyrir landsteinana ef útlendingar mundu kynna sér þá umræðu sem hér fer fram.

En stærsta málið, herra forseti, að mínu mati og það mikilvægasta sem féll út þegar verið var að samþykkja þessa tillögu um aðgerðir í málefnum fjölskyldunnar, var að ríkisstjórnin felldi það brott að setja skyldi á laggir sjóð sem veitt yrði úr til að rannsaka hvernig stjórnvaldsaðgerðir bitna á ákveðnum og ólíkum hópum. Þetta vildi ríkisstjórnin, sem nú situr, alls ekki hafa. Ríkisstjórnin, sem nú situr, vildi ekki sjóð þar sem hægt væri að veita úr til að skoða hvernig stjórnvaldsaðgerðir bitna á ákveðnum hópum. Ríkisstjórnin, sem nú situr, vill nefnilega alls ekki vita hvernig aðgerðir hennar hitta hópa fyrir. Þess vegna hefur ríkisstjórnin, sem nú situr, alls ekki skoðað hvaða afleiðingar það hefur fyrir fjölskyldur sem eru með börn yfir sjö ára aldri að fá ekki barnabætur eins og var þó búið að lofa aftur og aftur.

Ef ekki væri svona dapurlegt að sjá efndir ríkisstjórnarinnar á þessari þál. sem mörg okkar bundum svo miklar vonir við væri næstum því hægt að grínast með þetta og hafa gaman af og nota þetta til að hlæja að og jafnvel nota það bara þegar maður fer einhvers staðar í boð og segja: Eigum við að segja ykkur hvernig þessi ríkisstjórn er? Og svo mundu allir hlæja. Það gerum við auðvitað ekki vegna þess að þetta er grafalvarlegt mál.

Þessir flokkar koma og álykta. Sjálfstfl. ályktar til ríkisstjórnar sinnar um það hvernig Sjálfstfl. vill að ríkisstjórnin haldi á málum. Landsfundur Sjálfstfl. ályktar og skorar á ríkisstjórnina á alveg réttum tímum. Landsfundur Sjálfstfl. skorar á ríkisstjórnina rétt fyrir kosningar að afnema tekjutengingu barnabóta, eða að taka upp persónuafslátt fyrir hvert barn frá fæðingu til 18 ára aldurs. Sjálfstfl. er ekkert að skora á ríkisstjórn í svona málum núna, ekki eftir kosningar, nei. Sjálfstfl. mun ábyggilega ekkert skipta sér af því þó að þessi ótekjutengdi hluti barnabótanna muni bara vera greiddur til barna að sjö ára aldri af því nú eru ekki kosningar. Í raun og veru er Sjálfstfl. alveg sama hvernig ríkisstjórnin heldur á málum á meðan hún er í þessi fjögur ár að skalta og valta með fjölskyldurnar í landinu.

[17:00]

Það er svolítið verra með Framsókn. Það verður að segjast eins og er, að í þessari óþægilegu umræðu eru þingmenn Sjálfstfl. a.m.k. einstöku sinnum viðstaddir, en ekki þingmenn Framsfl. sem lofaði fyrir kosningar að koma á barnakorti. Þeir endurtaka enn að þeir ætli að standa við kosningaloforðið og hér verði sett á barnakort þar sem föst ótekjutengd greiðsla nái til allra barna að sextán ára aldri. Það er ekki gott fyrir þá að vera í salnum núna og vera spurðir að því hvenær eigi að framkvæma þetta loforð. Ég skil það vel og vorkenni Framsfl. Það er orðið svo augljóst að hann fer halloka út úr þessu samstarfi, þó hann beri sig vel.

Hið alvarlega er að við, í barnalandinu, erum ekki með barnvænt samfélag, alls ekki. Í öllum samanburði förum við halloka. Og í samanburði við sjálf okkur förum við halloka. Þessi ríkisstjórn fer halloka í samanburði við sjálfa sig, a.m.k. hvað Sjálfstfl. varðar. Ef Sjálfstfl. ber sig saman við sjálfan sig milli áranna 1995 og 2000 þá fer hann halloka. Það er merkilegt. Eins og fram hefur komið við þessa umræðu voru barnabætur 5.419 millj. á árinu 1995, en á þessu ári 3.595 millj. Þessir 2 milljarðar hafa verið teknir beint úr vasanum á fólki sem stendur í basli, sem baslar við verðbólgu, við skertar barnabætur og við skertar vaxtabætur. En hver skyldi hafa áhyggjur af því? Ekki þessir stjórnarflokkar af því þeir eru nefnilega ekki með fjölskyldupólitík. Þeir setja nefnilega slíkt í þingsályktun og samþykkja hana en lögin sem koma í kjölfarið eru yfirleitt um skerðingu tekna fjölskyldunnar. Ég þarf víst ekki að endurtaka það að ótekjutengdi hlutinn í nýja barnabótakerfinu er bara þriðjungur þess sem var 1995.

Þetta er umhugsunarefni fyrir þá sem taka þátt í þessari umræðu. Sérstaklega er þetta umhugsunarefni í samanburði við Norðurlöndin. Það þýðir ekkert hjá okkur að bera okkur saman við Norðurlöndin í launum, fólk á Íslandi hefur miklu lægri laun. Það þýðir heldur ekkert að bera saman tryggingagreiðslur til aldraðra og fatlaðra. Þær hanga ekki einu sinni í laununum í okkar landi, hvað þá að þær væri hægt að bera saman við það hvernig haldið er á málum þeirra hópa í löndunum í kringum okkur.

Ef við skoðum bara tölur byggðar á upplýsingum frá Hagstofu Íslands og bæklingnum Social tryghed i de nordiske lande þá kemur fram að árið 1998 höfum við langhæst hlutfall barna miðað við þjóðir Norðurlandanna. Hjá okkur eru 28% þjóðarinnar börn 0--17 ára, á meðan hin Norðurlöndin eru með 21 og 22 og 23 og 24% hlutfall barna. Það næsta á eftir okkur er með 24% barna.

En ef við skoðum útgjöld til félags- og heilbrigðismála sem renna til fjölskyldna og barna, t.d. fyrir árin 1993--1998, þá erum við með langlægst hlutfall. Þá eru hin löndin með hlutfallið 4 en við bara með 2. Við erum svo mikið svoleiðis, við erum alltaf langneðst af því við rekum ekki fjölskyldupólitík, a.m.k. ekki þeir sem ráða og halda um ríkiskassann. Þeir tala bara um góðærið og mikinn tekjuafgang og þeir sækja peninginn í tekjuafganginn í vasana sem hin demókratísku löndin á Norðurlöndunum eru alltaf að reyna að rétta aðeins við, setja meira í vasana hjá þeim sem hafa minnst til að reyna að skapa eins konar jöfnuð.

Ef við skyldum nú skoða útgjöld til félags- og heilbrigðismála á Norðurlöndum í jafnvirðisgildum á íbúa, sem á að vera alveg sérstakur samanburður því þá er búið að taka allt með og vigta allt inn í og þessar upphæðir eru í evrum, þá erum við niðri í svona 480, en hin löndin frá um 700 upp í 800 og 835. Svona er samanburður okkar við velferðarþjóðfélögin. Við segjum alltaf: Okkar aðalsamstarf er við Norðurlöndin, við berum okkur saman við Norðurlöndin og Norðurlöndin byggja á sérstöku þjóðfélagi, þau eru með sósíaldemókratískt þjóðfélag. Við Íslendingar erum svo líkir hinum Norðurlandaþjóðunum, þangað til við förum að skoða tölur þá erum við ekki eins. Þá erum við, herra forseti, allt öðruvísi. Allt öðruvísi.

Við í Samfylkingunni höfum verið að skoða, herra forseti, hvort ekki eigi að fara aðrar leiðir til að koma á einhverjum jöfnuði og reyna að rétta hlut barnafólksins í landinu. Hjá okkur er ákveðin vinna í gangi varðandi það. Við teljum að það eigi ekki að binda sig við gamla hugsun um ótekjutengdan hluta barnabóta og tekjutengdan hluta barnabóta og hreyfa þetta upp og niður eftir geðþótta ríkisstjórnarinnar.

Ég er viss um að hæstv. fjmrh. hefur ákveðinn metnað til að standast samanburð við hin Norðurlöndin, jafnmikið og hann hefur starfað þar og metur mikils þær leiðir sem eru farnar þar. Því spyr ég hann hvort hann hafi skoðað aðrar leiðir til að reyna að búa til jöfnuð fyrir barnafólk og ég spyr hvort það liggi fyrir einhverjar áætlanir um að afnema alveg tekjutengda hlutann.

Ef svo er, hvaða áætlanir eru það? Á hvaða tímabili á að fikra sig upp eftir aldri barnanna frá sjö ára og upp? Enn stend ég í þeirri trú að einhver áform séu um það. Jafnframt vil ég spyrja hvenær menn ætli að hætta tekjutengingunni, ef einhver áform eru um það.

Þetta eru spurningar mínar, herra forseti.