Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 17:07:59 (1970)

2000-11-20 17:07:59# 126. lþ. 27.5 fundur 197. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (barnabætur) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[17:07]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Til mín hefur verið beint nokkrum spurningum við þessa umræðu sem ég hyggst leitast við að svara. Ég mun þá í leiðinni láta í ljós skoðanir mínar á nokkrum þeim þáttum sem hér hafa borist í tal.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði að því hvaðan viðmiðunin við sjö ár væri komin, hvaðan sú regla væri komin í gildandi lögum og hvaðan hún væri komin inn í það frv. sem hér er til umræðu. Þar birtist sjö ára viðmiðunin í því að hinar ótekjutengdu barnabætur takmarkast við börn upp að sjö ára aldri.

Það liggur fyrir að þessi viðmiðum við sjö ár er ekki byggð á neinum sérstökum vísindalegum grunni. Ég man vel eftir því þegar hún var bundin í lög varðandi sérstakar viðbótargreiðslur fyrir börn yngri en sjö ára. Það gerðist árið 1983 þegar mynduð var ríkisstjórn og ákveðið að gera tilteknar breytingar á barnabótakerfinu. Þá var dregin þessi lína við sjö ára aldurinn með þeim röksemdum að fólk með yngstu börnin hefði óhjákvæmilegan upphafskostnað af þeim og því væri ekki út í hött að draga línuna þarna. Sennilega hefur nú einhverju ráðið í dæminu að á þeim tíma hafi fjármunir ekki hrokkið lengra heldur en sem nam því að draga mörkin fyrir viðbótargreiðslur barnabóta við sjö ár.

Hvað sem því líður þá hefur þessi regla verið í lögum núna í 17 ár, þar á meðal öll þau ár sem Alþfl. sat í ríkisstjórn og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var ráðherra. Þá voru ekki gerðar neinar sérstakar athugasemdir við þetta. Ég held að öllum hafi verið ljóst að þessi sjö ára regla, eins og hún var í þeim lögum og er enn, byggir ekki á neinum sérstökum vísindalegum forsendum.

Þá er spurt: Af hverju er tekin upp sjö ára regla núna að því er varðar hinar ótekjutengdu bætur? Um það má líka segja að þar er engin sérstök vísindaleg niðurstaða. Það er ekki til fjármagn til að aftengja allar barnabætur tekjum. Einhvers staðar verður að draga mörkin og það kemur ekki illa út að nota sömu viðmiðun og fyrir er í lögunum, þ.e. við sjö ára aldurinn.

Næsta spurning þingmannsins var hvort bæturnar væru ekki í raun eign barnsins og því greiddar óháð tekjum foreldra. Ég er ekki viss um að hægt sé að leggja málið þannig fyrir. Ég tók eftir því að hv. þm. Ögmundur Jónasson var ekki sammála þessu sjónarmiði þingmannsins. Ég hygg að ég sé meira sammála honum heldur en hv. þm. sem bar fram spurninguna. Ég tel ekki eðlilegt að hátekjufólk njóti endilega sömu barnabóta og einstæð móðir með litlar tekjur. Ég hygg reyndar að það hafi ráðið töluverðu í afstöðu forvera míns í þessu starfi þegar honum fóru að berast barnabætur á meðan hluti kerfisins var alveg ótengdur tekjum.

Ég held að með þeirri útfærslu sem hér er fundin sé komin tiltölulega ásættanleg málamiðlun gagnvart því grundvallaratriði hvort barnabætur eigi yfir höfuð að vera tekjutengdar. Hér er gerð ákveðin málamiðlun --- hluti bótanna er ótekjutengdur, annar hluti er það ekki --- sem ég tel að geti verið grundvöllur málamiðlunar gagnvart þessu grundvallarsjónarmiði, þ.e. spurningunni um hvort barnabætur eigi yfirleitt að vera tekjutengdar.

Við skulum rifja upp hvernig þetta var hér á árum áður. Ef ég man þetta rétt þá voru til barnabætur alveg ótengdar tekjum allt þar til árið 1984 eða 1985. Þá var í tengslum við kjarasamninga ákveðið að taka upp svokallaðan barnabótaauka sem var tekjutengdur. Þá þótti flestum mjög gott að það skyldi vera svigrúm til að taka upp barnabótaauka fyrir þá sem höfðu lægri tekjur, tekjutengdan barnabótaauka. Þannig var kerfið um nokkurt árabil, sennilega í ein tólf eða þrettán ár, þar til að segja má að öllum barnabótunum hafi verið steypt yfir í barnabótaauka, hinn tekjutengda. Það sjónarmið varð ofan á árið 1997 að óþarfi væri að borga hinum hærra launuðu sérstakar bætur úr ríkissjóði í þessu formi. Nú er sem sagt horfið til baka á nýjan leik að hluta til og fallist á að rétt sé að upp að sjö ára aldri séu barnabæturnar ótengdar tekjum.

En auðvitað er engin ein niðurstaða rétt í þessu. Þetta hefur gengið dálítið fram og til baka eins og harmonikka, hvaða afstaða hefur orðið ofan á í þessu, eins og svo mörgum málum sem við fáumst við. Menn finna ekki neina eina niðurstöðu sem er rétt vegna þess að hún er náttúrlega ekki til. Það er matskennt og huglægt hvað mönnum finnst rétt í þessu efni.

[17:15]

Ég held því fram að það sem lagt er fyrir í þessu frv. sé ásættanleg málamiðlun milli sjónarmiða þeirra sem annars vegar vilja tekjutengja bæturnar að fullu og hins vegar þeirra sem vilja alls enga tekjutengingu, vilja að allir fá jafnar bætur úr ríkissjóði vegna barna sinna, óháð þeirra eigin tekjum.

Þingmaðurinn spurði í þriðja lagi: Er ekki rétt að greiða barnabætur til 18 ára aldurs? Ég tel ekki að við höfum efni á því. Við getum ekki látið það eftir okkur þó að einhver einstök lönd sem hægt er að nefna geti það. Það er líka rétt að hafa í huga að það er miklu algengara hér á landi að börn eða unglingar á aldrinum 16--18 aldri afli sér eigin tekna og það er minni þörf fyrir slíkar bætur hér á landi, að ég tel, út frá þeim forsendum heldur en sums staðar annars staðar þar sem börn hafa kannski ekki dýft hendi í kalt vatn fyrr en einhvern tímann þegar þau komast á þrítugsaldurinn.

Síðan er spurningin um ónýttan persónuafslátt barna. Þetta er ein hugmynd sem menn hafa verið að velta fyrir sér í gegnum árin. En það er bara aðferð til þess að koma peningum til fólks, að segja sem svo: Getur ekki þessi eða hinn fengið að nota ónýttan persónuafslátt annaðhvort unglinga eða jafnvel barna sem yrði þá úthlutað sérstökum persónuafslætti? Það er alveg hægt að fara einhverjar beinni leiðir að því og við erum að gera það hér með því að auka barnabætur almennt. Þetta er bara mismunandi nafn á hlutunum. Það er bara verið að tala um aðra aðferð til þess að koma bótum til fólks. Eins og staðan er núna teljum við ekki að það sé svigrúm til að ganga lengra í þessu efni, hvort heldur það væri með því að gefa því nafnið ónýttur persónuafsláttur barna eða unglinga eða eitthvað annað.

Hefur þessi pakki verið borinn undir fjölskylduráð? spurði þingmaðurinn. Svarið er nei. Við höfum alla vega ekki gert það í fjmrn. og mér er ekki kunnugt um að það hafi verið gert af öðrum. En ég tel eðlilegt að þingnefndin geri það og leiti álits þess ráðs.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir spurði um nokkur atriði. Ég tel mig hafa svarað því að hluta til. Hvenær komumst við út úr tekjutengingunum? Miðað við frv. komumst við ekkert út úr þeim því þetta frv. er hugsað sem tiltölulega varanlegur grunnur þar sem er, eins og ég sagði áðan, gerð ákveðin málamiðlun milli sjónarmiðanna um engar tekjutengingar eða fullar tekjutengingar. Ég held að okkar barnabótakerfi sé ekki galið kerfi og að það þurfi ekki einhverjar aðrar leiðir eins og þingmaðurinn nefndi til þess að koma stuðningi til fólks sem þarf á honum að halda.

Auðvitað geta menn alltaf, eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson sagði, látið í ljósi óskir um að meira fjármagn sé sett inn í svona bótakerfi. Við erum að hækka fjárhæðirnar í bótunum umfram þær hækkanir sem fyrirsjáanlegar eru að því er varðar verðlagið. Við erum sem sagt að hækka raunverðgildi bótanna. Staðreyndin er sú, eins og kemur fram í fylgigögnum með þessu frv., að þessar bætur munu koma þeim sérstaklega til góða sem lægstar hafa tekjurnar og það sést greinilega á þeim myndum sem birtar eru í greinargerðinni, en þar eru sýndir tekjuhópar annars vegar einstæðra foreldra og hins vegar hjóna og sambýlisfólks, skipt upp eftir tíundum. Annars vegar eru þeir hópar lengst til vinstri sem hafa lægstar tekjurnar, sá tíundi hluti alls hópsins, og svo lengst til hægri eru þeir hópar sem hæstar hafa tekjurnar innan þessa hóps, allt eftir tíundum. Og þá sést mjög greinilega hvernig þeim sem hafa minnstar tekjur, bæði í hópi einstæðra foreldra og hjóna, er liðsinnt meira en hinum með þessum breytingum. Og það hélt ég að gæti verið sameiginlegt áhugamál og markmið okkar hér í salnum að standa að.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur vitnað, bæði við þessa umræðu og við önnur tækifæri, í svokölluð kosningaloforð stjórnarflokkanna fyrir síðustu kosningar. Ég vil láta þess getið að Sjálfstfl. gaf engin kosningaloforð, hvorki um þetta efni né nánast nokkur önnur, nema um það að treysta og tryggja efnahags- og atvinnulífið þannig að við gætum látið gott af okkur leiða, t.d. í því formi sem við erum að gera hér. Aðrir flokkar svara fyrir sín fyrirheit. Við gáfum ekki nein slík fyrirheit í okkar kosningayfirlýsingu, nema ef vera skyldi um að afnema hið óréttláta kerfi fasteignaskatta úti á landi og það erum við að gera með öðru frv. sem hér hefur verið lagt fram.

Hins vegar er þetta frv. alveg í takt við stefnu okkar að því er varðar skattkerfið, barnabætur og fjölskyldustefnu yfirleitt. En við ákváðum fyrir síðustu kosningar að leggja ekki fyrir þjóðina ákveðin kosningaloforð í þeim efnum. Við erum hins vegar að láta stefnu okkar koma fram í þessu frv. eins og í mörgum öðrum frv. og höfum ekki þurft að gera það á grundvelli neinna sérstakra kosningaloforða.

Að öðru leyfi vil ég þakka fólki hér fyrir málefnalega umræðu um þetta mál og ágætan stuðning sem ég tel að það hafi.