Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 17:22:12 (1971)

2000-11-20 17:22:12# 126. lþ. 27.5 fundur 197. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (barnabætur) frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[17:22]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra nefndi að þessi sjö ár væru ekki byggð á vísindalegum grunni. Hins vegar leiddi hann að því líkur að það lægi í því að yngstu börnin hefðu mest útgjöld í för með sér. Ég vil því spyrja ráðherrann hvort það sé mat hans að börn á þessum aldri, frá fæðingu til sjö ára, séu dýrari í rekstri en þau sem eru eldri en sjö ára, sjö til 16 eða sjö til 17--18 ára.

Ráðherrann nefndi það líka að þessi sjö ára regla hefði verið notuð í 17 ár og dró þar með inn að þessu hefði ekki verið breytt þegar Jóhanna Sigurðardóttir alþingismaður var ráðherra, reyndar félmrh. Hafði það eitthvað að segja fyrir Sjálfstfl. sem lagði til á landsfundi sínum, þrátt fyrir að þessi sjö ára regla hefði staðið í 17 ár og líka meðan Jóhanna Sigurðardóttir var ráðherra, að greitt yrði með börnum frá fæðingu til 18 ára aldurs?

Ég er sammála hæstv. ráðherra um að engin ein niðurstaða sé endilega sú rétta. Það er hægt að fara margar leiðir til þess að jafna útgjöld og kjör. Aðalmálið er og mikilvægast að þær aðgerðir sem eru valdar nái tilgangi sínum, þ.e. að jafna kjör barnafólks. Því langar mig að spyrja, af því að Sjálfstfl. gaf náttúrlega ekki út kosningaplagg. Hann passaði sig á því. En við hin höldum að það sé eitthvað að marka sem landsfundurinn ályktar og landsfundurinn skoraði á sína ríkisstjórn að afnema tekjutengingu barnabóta, annars að fara í persónuafslátt fyrir hvert barn frá fæðingu til 18 ára. Var þá sagt á landsfundinum að ekki þætti æskilegt að fara upp fyrir sjö ár eins og ráðherrann gerir hér? Er landsfundurinn dálítið ómark hjá Sjálfstfl.?