Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 17:27:22 (1974)

2000-11-20 17:27:22# 126. lþ. 27.5 fundur 197. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (barnabætur) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[17:27]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Svör hæstv. ráðherra voru vissulega skýr og ég þakka fyrir þau. En þau valda mér á ýmsan hátt vonbrigðum. Í fyrsta lagi telur hæstv. ráðherra enga ástæðu til þess að barnabætur séu greiddar til 18 ára aldurs líkt og gerist í mörgum löndum. Rökin sem hæstv. ráðherra ber fyrir sig eru algjörlega út úr kortinu. Ráðherrann ber fyrir sig að hér afli 16--18 ára unglingar sér tekna. Við skulum bara skoða framfærslubyrði heimilanna samanborið við t.d. á hinum Norðurlöndunum þar sem eru ótekjutengdar barnabætur og í sumum tilfellum greitt til 17 og 18 ára aldurs. Hér eru menntunarkröfur orðnar mjög miklar og unga fólkið býr lengur í foreldrahúsum þannig að engin rök eru fyrir öðru en að skoða það að greiða barnabætur til 18 ára aldurs.

Síðan fannst mér á hæstv. ráðherra að hér væri bara allvel gert og nóg raunverulega að gert að því er varðar ótekjutengda hluta barnabótanna. Ég vil minna hæstv. ráðherra á að árinu 1995, þegar efnahagsástandið var mun verra en er núna, var ótekjutengdi hlutinn að meðaltali um 40 þús. kr. á ári með öllum börnum að 16 ára aldri. Nú er hann einungis 33 þús. með börnum að sjö ára aldri. Ráðherrann minnti á mína ráðherratíð, að þá hefði þetta verið til sjö ára aldurs og bæturnar tekjutengdar. En það er bara ólíku saman að jafna, stöðunni í efnahagsmálum þá og nú. Það munar tugum milljarða á ári hverju sem ríkissjóður hefur úr meiru að spila en þá.

Síðan finnst mér mjög athyglisvert að ekkert virðist að marka samþykktir Sjálfstfl. sem vill afnema tekjutengingu barnabóta, sem hæstv. fjmrh. er ósammála. Það er athyglisvert að fá það staðfest hér úr ræðustól að hæstv. ráðherra er ósammála síðustu landsfundarsamþykkt Sjálfstfl. Það finnst mér vera athyglisvert í þessari umræðu.