Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 17:30:01 (1975)

2000-11-20 17:30:01# 126. lþ. 27.6 fundur 27. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa) frv., Flm. SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[17:30]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, máli nr. 27 á þskj. 27. Meðflutningsmenn mínir að frv. eru þeir hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Össur Skarphéðinsson, Jóhann Ársælsson og Bryndís Hlöðversdóttir.

Í stuttu máli, herra forseti, er hér lagt til að 6. og 8. mgr. 17. gr. laganna um tekju- og eignarskatt falli brott. Þessi greinanúmer, herra forseti, eru að teknu tilliti til þess að 5. mgr. stendur auð sakir þess að lögin, þ.e. málsgreinarnar, hafa ekki verið uppfærðar af hv. efh.- og viðskn. en það er ástæða til þess að nefna þetta hér vegna þess að hæstv. ráðherra hefur uppfært málsgreinarnar í frv. sem hann flytur um hliðstætt efni.

Herra forseti. Í stuttu máli er tilgangur þeirrar breytingar sem hér er lögð til að fella út þau ákvæði skattalaga sem heimila frestun á greiðslu skatts af söluhagnaði hlutabréfa og að hægt sé að komast hjá skattgreiðslu af slíkum söluhagnaði með því að kaupa ný hlutabréf.

Þegar fjármagnstekjuskattur var settur á árið 1996 varð jafnframt sú breyting á lögunum um tekjuskatt og eignarskatt að unnt varð að fara fram á frestun á tekjufærslu söluhagnaðar einstaklinga af sölu hlutabréfa yfir tvenn áramót af fjárhæð umfram 3 milljónir --- það er komið upp í 3,2 núna --- og fyrir hjón, eins og þetta stendur núna, fyrir um 6,4 milljónir. Ef keypt eru önnur hlutabréf í stað hinna seldu frestast skattgreiðsla enn og getur tæknilega varað endalaust.

Árið 1998 kemur inn sú breyting að lögaðilar geti farið fram á að fresta tekjufærslu á söluhagnaði af sölu hlutabréfa einnig og líka um tvenn áramót frá söludegi. Sama regla kemur sem sagt inn tveimur árum síðar fyrir lögaðila.

Ef marka má þá litlu umræðu, herra forseti, sem fram fór um breytinguna þegar hún var gerð á Alþingi vorið 1996 var tilgangurinn sá að stuðla að sparnaði og því að fjármagnið héldist áfram í íslenskum atvinnufyrirtækjum. Afleiðingar þessara breytinga hafa e.t.v. orðið aðrar og víðtækari en reiknað var með. Alvarlegast fyrir íslenskt efnahags- og atvinnulíf er líklega að mikið fjármagn hefur verið losað úr íslensku atvinnulífi með sölu hlutabréfa og verið flutt úr landi.

Í svari hæstv. fjmrh. við fsp. frá hv. þm. Ögmundi Jónassyni um þetta efni lætur hæstv. ráðherra þá skoðun í ljós að vafalaust sé rétt sem haldið er fram, að breytingin hafi ýtt undir að fjárfestar, sérstaklega hinir stærri, hafi leitað á erlendan markað þar sem skattaumhverfið er hagstæðara en hér, t.d. í Lúxemborg. Ráðherrann bendir jafnframt á þá bankaleynd sem þar er en jafnframt, og það skiptir máli, að þessi þróun stríði gegn hinu upphaflega markmiði lagabreytingarinnar frá 1996 og væntanlega þá líka frá 1998. Um þetta hygg ég að allur þingheimur sé sammála, að þarna varð þróun sem menn sáu e.t.v. ekki fyrir. Allt fjármálaumhverfið breyttist svo mjög á þessum árum að menn sáu ekki fyrir hvaða afleiðingar gátu orðið af þessum breytingum.

Þó að upplýsingar um hlutabréfaeign Íslendinga erlendis séu ónákvæmar sýna tölur Seðlabankans að gríðarlega mikið fjármagn hefur flust frá landinu á allra síðustu árum. Frá árslokum 1996 hefur hlutabréfaeign Íslendinga erlendis vaxið úr rúmum 12 milljörðum kr. í 155 milljarða nú um mitt ár. Umræddar skattbreytingar og sá möguleiki að fresta skattgreiðslum með því að fjárfesta áfram í hlutafélögum, ásamt hagstæðu skattaumhverfi erlendis, hefur haft það í för með sér að margir fara þá leið að stofna eigin eignarhaldsfélög erlendis og fjárfesta síðan í þeim.

Í áðurnefndu svari fjmrh. kom fram að örfáir tugir einstaklinga hafi á undanförnum árum talið fram söluhagnað umfram það sem lögin gera ráð fyrir. Á þessum tíma hafa íslensk fjármálafyrirtæki byggt upp útibú erlendis og sú uppbygging hefur áreiðanlega auðveldað mönnum að nýta sér þessa möguleika, e.t.v. hefur þessi breyting einnig hraðað stofnun og vexti dótturfyrirtækjanna.

Dótturfyrirtæki Kaupþings í Lúxemborg hefur vaxið hratt á þessum árum og um síðustu áramót var það með sem samsvarar 35 milljörðum íslenskra króna í fjárvörslu. Aðrar fjármálastofnanir hafa einnig stofnað dótturfyrirtæki erlendis. Landsbankinn er með starfsemi á eyjunni Guernsey í Ermarsundi og í London. Íslandsbanki er einnig með starfsemi í London og Búnaðarbankinn hefur nú stofnað dótturfyrirtæki í Lúxemborg. Það er ekki fyllilega upp talið, herra forseti, með þessari upptalningu. En þótt fleira en þessi eina skattbreyting hafi áhrif á að íslenskar fjármálastofnanir séu með starfstöðvar erlendis er almennt talið að þessi breyting hafi haft áhrif á þessa þróun. Menn geta auðvitað líka velt fyrir sér áhrifum þessa á vaxandi viðskiptahalla á þessum sömu árum.

Það hefur verið fjallað þó nokkuð um þessar breytingar og afleiðingar þeirra, herra forseti, einkum í Morgunblaðinu. Til að halda því til haga þá er áhugavert að skoða hvernig þessi stofnun eignarhaldsfélaga á sér stað og hvernig þetta virkar síðan. Ég leyfi mér, herra forseti, að vitna hér í grein Morgunblaðsins þar sem Egill Ólafsson blaðamaður fjallar um þessi mál en þar segir:

,,Til að sjá hvernig þetta gerist er einfaldast að taka dæmi af manni sem fyrir einhverjum árum eða áratugum lagði 2 milljónir í hlutafélag og selur nú hlut sinn á 100 milljónir. Maðurinn er því með 98 milljóna króna söluhagnað í höndunum. Samkvæmt ákvæðum skattalaga verður hann og eiginkona hans að borga 10% skatt af 6,4 milljónum og 45% skatt`` --- eða 38% --- ,,af því sem er umfram þetta mark ef hann frestar ekki skattlagningunni. Hann gæti því þurft að greiða 42 milljónir í skatt. Auk þess verður hann að greiða 1,45% eignarskatt af eignum sínum.

Maðurinn, sem hagnaðist um 98 milljónir af hlutabréfasölu, getur hins vegar farið aðra leið. Hann getur tekið þá ákvörðun að stofna eignarhaldsfélag í Lúxemborg og notfært sér ákvæði tekjuskattslaga um frestun á söluhagnaði. Hagstæðast er fyrir hann að stofna félagið með tiltölulega litlu hlutafé, t.d. 2 milljónum. Gengi hlutafjár væri þá 50 sem þýðir að verðmæti félagsins er 100 millj. Ástæðan fyrir því að hlutaféð er haft þetta lágt er sú að eignarskattur á Íslandi er greiddur af nafnvirði og augljóst er að hagstæðara er að greiða eignarskatt af 2 millj. en 100 millj.

Kostnaður við að stofna eignarhaldsfélag í Lúxemborg er um 800 þús. Við stofnun félagsins verður það enn fremur að greiða 1% af heildareign þess í skatt til Lúxemborgar. Eftir það greiðir félagið 0,2% árlegan skatt af nafnvirði hlutafjár, í þessu tilfelli af 2 millj.

Auk þess þarf maðurinn að greiða að lágmarki 300 þús. á ári til fjárvörsluaðila, þ.e. þess aðila sem sér um umsjón með fjárfestingum félagsins. Inni í þeirri upphæð er m.a. þóknun til stjórnarmanna í félaginu. Nauðsynlegt er að stjórnarmenn hafi erlent ríkisfang því að ef stjórnarmenn eru íslenskir líta íslensk skattyfirvöld svo á að félaginu sé stjórnað frá Íslandi og félagið er því skattlagt eftir íslenskum skattareglum.

Ef maðurinn vill nota þá peninga sem hann hefur fjárfest í eignarhaldsfélaginu í Lúxemborg getur hann t.d. gert það með því að greiða sér árlega 10% arð. Á þennan arð er lagður 10% fjármagnstekjuskattur sem rennur til íslenska ríkisins. Óhagstætt er fyrir manninn að láta eignarhaldsfélagið greiða út meira en 10% arð vegna þess að greiða þarf 2% skatt til ríkisins í Lúxemborg af arði sem er umfram 10%.

Sá möguleiki er einnig fyrir hendi fyrir manninn að opna bankareikning á Íslandi eða í Lúxemborg í nafni eignarhaldsfélagsins. Hann getur síðan fengið sér kreditkort og tekið út af reikningnum. Samkvæmt skattalögum verður að líta á alla notkun á kreditkortinu sem arðgreiðslur og ber að skattleggja þær sem slíkar. Möguleikar íslenskra skattyfirvalda til að hafa eftirlit með kreditkortareikning í banka í Lúxemborg eru hins vegar mjög litlir. Eignarhaldsfélög í Lúxemborg starfa samkvæmt sérstökum lögum frá árinu 1929 og samkvæmt þeim eru þau undanþegin upplýsingaskyldu. Einu upplýsingarnar sem skattyfirvöld á Íslandi hafa um þetta eignarhaldsfélag er að hlutafé þess sé 2 milljónir. Sú upphæð breytist ekkert þó að félagið kunni að hafa miklar fjármagnstekjur og að ýmis kostnaður falli á það.``

Herra forseti. Það hefur eðlilega orðið nokkur umræða um þennan þátt. Það þekkja margir þá sem hafa kreditkort og hafa getað notað þau til þess að koma sér haganlega fyrir með ýmsum hætti eða í neyslu sína. Það er afar slæmt meðan við erum að byggja hér upp hlutabréfamarkað að hlutir skuli gerast með þessum hætti, með allri þeirri neikvæðu umræðu sem hefur fylgt. Það er út af fyrir sig alvarlegt vegna þess að við þurfum á öðru halda.

Herra forseti. Síðasta vor vorum við í Samfylkingunni að skoða breytingar á lögunum um stjórn fiskveiða. Við veltum þá vöngum yfir því hvernig eðlilegast væri að mæta þeirri gagnrýni sem hefur verið, ekki bara á að þeir sem fá að nýta auðlindina greiði ekki eðlilegan arð til þjóðarinnar heldur líka vöntun á skattgreiðslum þessara aðila. Þá rákum við okkur fljótlega á ákvæði þessarar 17. gr., þ.e. 6. og 8. mgr., og ákváðum þess vegna að flytja það frv. sem ég mæli fyrir hér í dag. Það vannst ekki tími til að koma því fram sl. vor þannig að það var flutt nú í haust.

Það var gert, herra forseti, vegna þess að á undanförnum árum hefur það sætt verulegri gagnrýni hve mikinn söluhagnað einstaklingar hafa fengið af sölu hlutabréfa í sjávarútvegsfyrirtækjum. Menn kannast við þau uppþot --- ég leyfi mér að nota það orð --- sem orðið hafa þegar einstaklingar hafa selt stóra hluti og ekki greitt af þeim skatta. Markaðsverð aflahlutdeilda fór mjög hækkandi eftir að núgildandi lög voru sett. Einstaklingar sem hafa selt aflahlutdeildir og ekki keypt aðrar í staðinn hafa því oft hagnast verulega, jafnvel þó þeir hafi greitt fullan tekjuskatt af ágóðanum. Þeir sem eru óbeint handhafar aflahlutdeilda, með því að eiga hlutabréf í útgerðarfyrirtækjum, hafa hins vegar komist hjá þessari skattlagningu vegna þessarar lagabreytingar. Þegar þeir selja hlutabréf með hagnaði, sem að einhverju leyti er til kominn vegna hækkaðs verðs á aflahlutdeildum félagsins, geta þeir frestað og þar með komist hjá skattlagningu með því að kaupa hlutabréf í öðrum hlutafélögum eða farið eignarhaldsfélagsleiðina sem ég lýsti hér áðan

Menn hafa einnig rætt þetta mál í tengslum við skuldir sjávarútvegsins sem eru giska miklar, menn tala um að þær séu í kringum 160--170 milljarðar og hafi aukist um tugi milljarða á undanförnum árum. Þetta gerist þrátt fyrir að nýfjárfestingar í sjávarútvegi hafi ekki verið miklar á þessum tíma og afkoma í greininni verið viðunandi. Ástæður þessarar miklu skuldaaukingar eru því af ýmsum taldar stafa af því að kvóti og fyrirtæki hafi verið seld fyrir fé sem ekki var varið til endurfjárfestingar í sjávarútvegi.

Herra forseti. Reglan um frestun skattlagningar nær auðvitað til hlutabréfaeigenda í öllum atvinnugreinum en hagnaður af viðskiptum með hluti í sjávarútvegsfyrirtækjum hafa stungið mest í augu almennings, e.t.v. vegna þess að margir þeirra sem farið hafa með mikla peninga út úr greininni og komist hjá skattlagninu vegna framangreindra ákvæða hafa heldur ekki greitt fyrir þau afnot sem þeir fengu af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.

Eins og ég gat um var meintur tilgangur þessara breytinga að styrkja íslenskt atvinnulíf, að hleypa lífi í hlutabréfamarkaðinn með því að örva hreyfanleika á því fé sem varið er til hlutabréfakaupa. Aðstæður breyttust hins vegar --- ófyrirséð, getum við sagt og þingmenn geta velt því fyrir sér hvað breytingar gerast orðið hratt --- og niðurstaðan er sú að fé hefur streymt úr landi þar sem keyptir hafa verið hlutir í erlendum félögum eða eignarhaldsfélög stofnuð. Samkvæmt upplýsingum frá hæstv. fjmrh. hafa sárafáir greitt tekjuskatt af söluhagnaði hlutabréfa síðan þetta ákvæði kom inn.

Tillaga okkar, þ.e. frv. sem ég mæli fyrir, gengur út á að afnema þessar tvær greinar og færa lögin hvað þetta varðar til fyrra horfs, bæði hvað varðar einstaklinga og lögaðila. Það er nokkuð ljóst, herra forseti, að ef einungis verður afnuminn möguleiki einstaklinga til að fresta greiðslu skatta af söluhagnaði hlutabréfa þá er verið að beina þeim í ákveðinn farveg eins og þann að stofna þá eignarhaldsfélög um hlutabréfaeign sína og komast þannig undir þak lögaðila og eiga þar með áfram möguleikann á frestun.

[17:45]

Við vildum á þennan hátt setja þetta mál með afgerandi hætti á dagskrá en í raun, herra forseti, þarf að endurskoða lögin heildstætt með tilliti til þeirra breytinga sem orðið hafa á fjármálamarkaði og vegna opnunar til útlanda. Það er augljóst að til að auka samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs hvað varðar fjárfestingar þá þarf að skoða fleiri þætti.

Þeir sem hafa verið að tjá sig um þessi mál, herra forseti, hafa m.a. bent á að á sama tíma og þessar breytingar eru gerðar á lögunum þá sé gerð sú breyting að erlendum eignarhaldsfélögum sé gert að greiða 20% skatt af söluhagnaði og stuðli það ákvæði m.a. að því að þau fjárfesti þá ekki hér á Íslandi. Sömuleiðis hefur margítrekað verið bent á þá staðreynd að við séum að verða ein eftir með eignarskatta.

Það er augljóslega orðið brýnt að menn velti því alvarlega fyrir sér hvort ekki sé rétt að skoða betur samspil eignarskatta og skattlagningu þeirra tekna sem menn hafa af viðkomandi eignum.

Herra forseti. Ég sagði að við hefðum viljað setja málið með afgerandi hætti á dagskrá og það má segja að það sé komið með afgerandi hætti á dagskrá Alþingis. Á dagskrá þingsins í dag er tillaga fjmrh. sem gengur út á það að fella út 8. gr. sem hann uppfærir og nefnir 7. eingöngu, þ.e. það sem snýr að einstaklingum og breyta skattprósentunni þá þannig að þeir greiði 10% af öllum söluhagnaði. Í tillögu fjmrh. hæstv. er hins vegar ekki hreyft við lögaðilum.

Það eru fleiri viðhorf uppi í málinu því hér virðist varla vera um stjfrv. að ræða þar sem Framsfl. er ekki búinn að samþykkja nálgun fjmrh. að málinu. Og nú er spurning hvort nokkur framsóknarmaður er í salnum til að gera betur grein fyrir þeirra viðhorfum. En svo virðist því miður ekki vera.

Samkvæmt frétt Morgunblaðsins sl. laugardag hefur þingflokkur Framsfl. afgreitt frv. með fyrirvara. Þeir horfa til þess að verið sé að lækka skattprósentuna hjá einstaklingum úr 38% í 10% á því sem er umfram 3,2 eða 6,4 millj., eftir því hvort um er að ræða einstakling eða hjón og það telja þeir vafasamt. Þeir eru sem sé frekar á línu Samfylkingarinnar hvað þetta varðar en línu fjmrh. En þeir nefna hins vegar ekki lögaðilana þannig að segja má að Framsókn keyri hér þriðju stefnuna í málinu.

,,Við þurfum að skoða hvort það er ekki nægjanlegt að afnema frestunarmöguleikann eða hvort önnur viðbrögð komi til greina.``

Þetta sagði Kristinn H. Gunnarsson þingflokksformaður Framsfl., og ef ég man rétt, fulltrúi flokksins í efh.- og viðskn., í viðtali við blaðið.

Herra forseti. Mér sýnist ljóst að Framsfl. ætlar að hafa algjörlega frjálsar hendur í þessu máli og hann ætlar að skoða málið í nefnd en er ekki aðili að máli eða nálgun hæstv. fjmrh.

Formaður efh.- og viðskn., hv. þm. Vihjálmur Egilsson, segist í sömu Morgunblaðsfrétt ekki vera ýkja hrifinn af þessari breytingu. Hann telur að ef menn séu með einhverjar upphæðir, þ.e. stóru fjármagnseigendurnir, þá reyni þeir örugglega að fjárfesta í gegnum eignarhaldsfélög hérlendis og þó líklega mest erlendis. Og hann bendir auðvitað á að skattfrestunarmöguleikinn verði áfram hjá lögaðilum.

Herra forseti. Magnús Guðmundsson, bankastjóri hjá Kaupthing Bank í Lúxemborg, segist ekki telja að þær breytingar sem frv. hæstv. fjmrh. gerir ráð fyrir breyti neinu varðandi fjárfestingar Íslendinga erlendis.

Það er því ljóst að álitaefnin eru mörg og efh.- og viðskn. á mikið starf fyrir höndum áður en niðurstaða fæst í það hvaða leið verður farin eða hversu víðtækar breytingarnar verða þegar upp er staðið.

Herra forseti. Ég bendi á að í frv. okkar er að finna yfirlit sem tekið var saman af Árna Harðarsyni, forstöðumanni skatta og lögfræðisviðs Deloitte & Touche, þar sem farið er yfir meðferð þessara mála, skattlagningar söluhagnaðar, í nokkrum þeirra landa sem við helst berum okkur saman við. Og það er vissulega athyglisvert, herra forseti, að sjá hvaða prósentur menn eru að nota við skattlagningu á söluhagnaði þar af því við erum jafnan að vísa til þess að við þurfum að passa upp á samkeppnishæfni Íslands. Sannarlega vil ég taka undir það og vinna að því. Og þá er auðvitað rétt að við lítum til þess hvernig aðrir eru að gera hlutina. En við þurfum auðvitað líka alltaf að horfa til þess að íslenskur markaður er lítill og þess vegna að sumu leyti erfiðari eða óaðgengilegri af ýmsum ástæðum en aðrir.

Herra forseti. Ég sagði það áðan að það þarf að endurskoða lögin heildstætt hvað þetta varðar. Það er alveg augljóst. Það hafa svo mörg álitaefni komið upp í tengslum við umfjöllun þessa máls að ef menn ætla að passa upp á stöðu okkar þá verður að taka frekara tillit til þeirra breytinga sem orðið hafa á fjármálamarkaði og vegna þeirra samskipta við útlönd, vegna þess frelsis í flutningum fjármagns sem nú er.

Það hefur verið bent á, eins og ég gat um áðan, að erlendum eignarhaldsfélögum sé gert að greiða 20% skatt af söluhagnaði og það leiði m.a. til þess að þau fjárfesti ekki hér. Sömuleiðis spilar eignarskatturinn orðið inn í þegar tekin er ákvörðun um hvar skuli fjárfest. Það er augljóslega orðið brýnt að því sé velt alvarlega upp hvort ekki sé rétt að skoða þetta samspil eignarskatta og skattlagningu þeirra tekna sem menn hafa af viðkomandi eignum.

Herra forseti. Það er orðið brýnt að menn velti því einfaldlega fyrir sér hvort ekki sé rétt að beita sömu reglu á allar tekjur án tillits til þess hvort um er að ræða fjármagnstekjur, skatt af launatekjum eða tekjur af eignum, hvort ekki sé rétt að menn samræmi þessa skatta en séu ekki að mismuna eftir því hvernig tekjurnar eru fengnar. Þegar hér var fjallað um fjármagnstekjuskattinn á sínum tíma þá var það skoðun okkar sem stöndum að Samfylkingunni að það væri óeðlilegt að skattar af fjármagni væru mun lægri í prósentu en þeir skattar sem fólk þarf að greiða af launatekjum. Sú skoðun stendur enn og menn hljóta að velta því fyrir sér hvort þarna þurfi ekki að samræma og þá í leiðinni, herra forseti, þær tekjur sem menn hafa af eignum. Og um leið að skoða hvort ekki sé eðlilegt að taka þá eignarskattinn af. Þannig gætu menn væntanlega lækkað tekjuskattsprósentuna hjá einstaklingum vegna launatekna.

Ég held líka að það væri mjög gott að menn skoðuðu hvort það væri ekki til framdráttar fyrir samkeppnishæfni Íslands að þetta væri samræmt hjá okkur --- það væri einfalt --- og að á þetta væri litið sem spor í áttina til þess að gera okkar skattkerfi gegnsærra og réttlátara.

Það er alveg ljóst að á undanförnum árum hafa verið að koma upp ýmsir möguleikar sem aðilar hafa verið að notfæra sér. Ég er ekki að tala um að neinn hafi verið að gera neitt sem ,,krímínelt`` getur kallast. Þetta hafa einfaldlega verið möguleikar sem menn hafa nýtt sér, sem gera það að verkum að menn greiða mjög mismunandi skatta eða eru mjög mismunandi settir skattalega eftir því hvort þeir greiða skatta beint af launatekjum sínum, hvort þeir fá tekjur sínar af fjármagni, af eignum eða eftir öðrum leiðum, hvort þeir eiga aðild að atvinnurekstri o.s.frv.

Það er að okkar mati orðið nauðsynlegt að þetta verði skoðað í samhengi og ekki óeðlilegt að það sé gert á sama tíma og menn skoða skattlagningu söluhagnaðar. Er ekki er rétt að þetta verði samræmt, en að athugað verði þá á móti að fara niður með eignarskattinn og líta til þess hvernig aðrar þjóðir haga slíkum málum, þær þjóðir sem við berum okkur saman við og þykjumst vera að keppa við með ýmsum hætti?

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan sýnist mér að efh.- og viðskn. bíði þó nokkurt starf miðað við það hvernig þessi mál eru lögð upp. Það liggja fyrir a.m.k. þrjár skoðanir á þessu máli. Í fyrsta lagi sú skoðun sem ég mæli fyrir um að það beri að fella niður þennan möguleika bæði fyrir einstaklinga og lögaðila. Í öðru lagi sú skoðun hæstv. fjmrh. að það beri að fella niður þetta ákvæði varðandi einstaklinga en að breyta skattprósentunni á móti þannig að 10% skattur sé greiddur af öllu. Og í þriðja lagi er fyrirvari og þá væntanlega skoðun Framsfl. sem er ekki tilbúinn að samþykkja það að færa skattprósentuna niður um 28%, og vilji þeirra til þess að skoða málið í nefnd og að mér sýnist þá algerlega með frjálsar hendur.

Þetta er mjög athyglisvert, herra forseti, og mun óhjákvæmilega leiða til þess að yfirferð nefndarinnar í þessu máli hlýtur að verða ítarlegri en ef hér hefði verið um að ræða stjfrv. sem menn hefðu klappað fyrir í báðum þingflokksherbergjunum.

Herra forseti. Að lokinni þessari umræðu þá legg ég til að þessu máli verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.