Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 18:00:35 (1980)

2000-11-20 18:00:35# 126. lþ. 27.6 fundur 27. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa) frv., RG (um fundarstjórn)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[18:00]

Rannveig Guðmundsdóttir (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þannig háttar að við vorum hér fyrir stundu að ræða stjfrv. um barnabætur sem tengdist mjög stærsta kosningamáli Framsfl. Hér var Framsfl. ekki til staðar í þingsal. Við gátum á engan hátt rætt við Framsfl. um hvernig unnið væri að útfærslu á þessu kosningamáli.

Hér erum við núna að ræða tvö mál af sama toga með ólíkri nálgun, sem varða skattlagningu söluhagnaðar. Það liggur alveg ljóst fyrir, herra forseti, að annar stjórnarflokkurinn, Framsfl., hefur sett alvarlegan fyrirvara við stjfrv. Það er hins vegar óviðunandi fyrir okkur að ræða þessi mál við ríkisstjórnina án þess að hinn stjórnarflokkurinn sé við. Þess vegna spyr ég hæstv. forseta hvort þannig hátti til að einhver framsóknarþingmaður sé hér í húsinu. Getum við fengið Framsfl. til að vera viðstaddan þessa umræðu? Ég ætla bara að bíða svars hæstv. forseta hér í ræðustól. Leyfist það, herra forseti, að bíða svars hæstv. forseta?

(Forseti (ÁSJ): Forseti hefur hlustað á hv. þm. Það eru framsóknarmenn í þinghúsinu og e.t.v. mæta þeir til umræðu.)

Herra forseti. Ég óska eftir því að þeir þingmenn Framsfl., væntanlega þeir þingmenn sem átt hafa að fylgja eftir umræðunni sem fer fram hér í dag, mæti í þingsalinn þannig að okkur auðnist að fá fram sjónarmið beggja stjórnarflokkanna til stjfrv. sem hér verður rætt í kjölfar þess þingmannafrv. sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir flutti framsögu um og lýsti þar sjónarmiðum Samfylkingarinnar.