Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 18:16:10 (1984)

2000-11-20 18:16:10# 126. lþ. 27.6 fundur 27. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa) frv., Flm. SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[18:16]

Flm. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg sammála hæstv. fjmrh. um að skattkerfi okkar þarf að standast samkeppni. En það er ekki um það að ræða hér að við höfum áhuga á því að skattkerfi okkar standist ekki samkeppni, vegna þess að ég taldi að ég hefði farið yfir það í ræðu minni að við erum tilbúin til að horfast í augu við að e.t.v. þurfi að gera mun víðtækari breytingar. Ég spáði því reyndar að gera þyrfti mun víðtækari breytingar á lögunum um tekju- og eignarskatt heldur en lagt er til í frv. okkar, heldur en lagt er til í frv. hæstv. fjmrh. og lagt er til af hálfu Framsfl. í þeim hugleiðingum sem fram hafa komið varðandi fyrirvara þeirra.

Ég er nokkuð viss um, herra forseti, að menn þurfa að skoða þetta mun víðar en lagt er til í hverri þessari hugmynda eða frv. fyrir sig. Við ætlum okkur ekki þá dul að við séum búin að leysa þetta mál með frv. okkar sem hér liggur fyrir. Það er langt í frá vegna þess að málið er orðið mun stærra og það hefur orðið það á undanförnum árum. Ég er nokkuð viss um það, herra forseti, að þó að hæstv. ráðherra sé að reyna að spá fram í tímann um hvernig hlutir muni verða ef þetta eða hitt verði með þessum eða hinum hættinum, þá sér hann ekki lengra fram í tímann nú en menn sáu fyrir nokkrum árum síðan.

Menn þurfa að skoða hvernig verið er að gera hlutina annars staðar, menn þurfa að skoða hvernig hægt er að gera þá með samræmdum hætti hér og ef þeim er annt um hlutabréfamarkaðinn, eins og mér heyrðist hæstv. ráðherra vera, þá þurfa menn líka að passa upp á að reglurnar séu þannig að menn hafi trú á því að þar fari fram viðskipti sem séu byggð á heiðarleika, að allir eigi þar einhverja möguleika og jafna möguleika, en ekki að búa þurfi til einhverja sérstaka farvegi fyrir menn til þess þeir geti átt þar einhverja möguleika.