Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 18:18:19 (1985)

2000-11-20 18:18:19# 126. lþ. 27.6 fundur 27. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[18:18]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir hv. þm. ekki vera sjálfri sér samkvæm að öllu leyti. Hv. þm. talaði um að gera þyrfti víðtækar breytingar á skattkerfinu og það þyrfti að vera samkeppnishæft og tók undir með mér í því efni. En Samfylkingin hefði náttúrlega ekki í þessu frv. haft allt undir, ekkert frekar en við í ríkisstjórninni eða Framsfl. eða hinir og þessir. Gott og vel.

Vissulega þarf að gera margt fleira í skattkerfinu en þau frv. sem eru á dagskrá í dag ná yfir. Við þurfum að gera margt, margt fleira. Ég er ekki viss um að við munum ná samstöðu um það hér í þessum sal milli allra flokka hvað það er sem þarf að gera þegar kemur að því að lækka skatthlutföll, greiða fyrir atvinnurekstrinum og tryggja það að atvinnureksturinn búi við samkeppnisfær kjör, það mun tíminn leiða í ljós.

En það sem snýr að frv. Samfylkingarinnar sem er þó innlegg hennar hér í dag um þessi mál mun ekki þjóna þessum tilgangi. Það mun þvert á móti hamla framþróun í þessa átt. Það mun færa okkur til baka og á það stig þegar fólk lagði ekki í að selja hlutabréf, lagði ekki í að innleysa söluhagnað og viðskipti voru lítil með slík bréf. Þó að ég efist ekki um góðan vilja þingmannsins til að bæta skattkerfið á breiðum grundvelli, þá tel ég að þessi tillaga eins og hún birtist í frv. gangi í þveröfuga átt. Þess vegna tel ég að hv. þm. sé ekki sjálfri sér samkvæm.