Tekjuskattur og eignarskattur

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 19:01:22 (1990)

2000-11-20 19:01:22# 126. lþ. 27.6 fundur 27. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[19:01]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum frv. hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur um að afnema heimild til að fresta skattlagningu af fjármagnstekjum umfram 3 og 6 millj. kr. mörk, sem reyndar hafa hækkað eilítið.

Til að varpa ljósi á hvernig staðan var áður en fjármagnstekjuskatturinn var settur á vil ég nefna aftur, því ég nefndi það dæmi 1996, mann sem ég hitti og átti lítið verkstæði. Hann var 75 ára gamall og var orðinn afskaplega þreyttur. Hann ætlaði að selja verkstæðið starfsmönnum sínum, ungum strákum, á 8 millj. Framreiknað kostnaðarverð verkstæðisins var eitthvað mjög lítið þannig að þetta var nánast allt saman hagnaður.

Sem betur fer fór gamli maðurinn til endurskoðanda sem tjáði honum að þar sem hámarksjaðarskatturinn væri 47% mundi hann borga nærri því 4 millj. í skatt eftir lífsstarfið. Þessi maður átti lítinn lífeyrissjóð og þegar ég talaði við hann áður en fjármagnstekjuskatturinn var settur á var hann enn þá að baksa í verkstæðinu, báðir ungu mennirnir hættir, búnir að stofna sitt eigið verkstæði væntanlega, og þetta gekk ósköp brösuglega og konan hans kvartaði mikið yfir því hvað þetta væri mikil vinna hjá honum. Ég geri ráð fyrir að hann hafi selt við fyrstu hentugleika eftir að fjármagnstekjuskatturinn var settur á og hafi ekki þurft að borga nema 800 þús. kr. í skatt.

Hvers vegna nefni ég þetta dæmi, herra forseti? Vegna þess að sumir hv. þm. virðast ekki átta sig á því að skattstofninn er háður skattinum, það er þetta fræga dæmi um Laffer-kúrfuna. Ef tekjuskattur á einstaklinga væri 100% mundi enginn vinna og tekjur ríkisins yrðu núll. Það er svo einfalt. Þetta er frægt dæmi og er víða notað. Menn vita að skattstofn er háður skattprósentunni. Og ef menn ætla að fara að skattleggja eitthvað með hárri skattprósentu þá gerist það nefnilega sem hv. þingmenn virðast gleyma, að skattgreiðandinn er svo skynsamur, hann hegðar sér í samræmi við það, hann bara býr ekki til skattstofninn.

Fyrir upptöku fjármagnstekjuskatts þegar söluhagnaður var, eins og ég nefndi í þessu litla dæmi, nærri helmingur af söluverði eða hagnaði við sölu svona lítilla fyrirtækja þá seldi bara enginn maður, hvað þá að stóru aðilarnir seldu eins og t.d. Hagkaup og fleiri. Þær sölur hefðu aldrei átt sér stað. Öll sú bylting sem hefur átt sér stað í atvinnulífinu er vegna þess að skattprósentan er ekki nema 10%. Það er örvandi. Og tekjur ríkissjóðs hafa ekki minnkað vegna þessa, þær eru margfalt meiri.

Spurningin er, herra forseti: Vilja hv. þingmenn ,,réttlátt`` skattkerfi sem gefur ríkissjóði engar tekjur og gagnast velferðarkerfinu ekki neitt, eða vilja þeir fá sanngjarna skatta sem örva atvinnulífið og gefa ríkissjóði miklar tekjur til að standa undir velferðarkerfinu?

Sú hugmynd sem hér er gengið út frá, að hækka skatta á fjármagnstekjur umfram 6 millj. upp í 38% úr 10% þýðir einfaldlega að það verður ekkert selt, ef það fer umfram 6 millj. hjá hjónum. Þá munu menn selja annaðhvort í pörtum, selja fyrirtækin í pörtum, á mörgum, mörgum árum með alls konar óhagkvæmni sem fylgir því, eða þeir selja bara ekki neitt. Þetta verður tómt mengi eins og það var áður.

En sú regla sem tekin var upp á hv. Alþingi 1996 um að setja hámark á fjármagnstekjur eða þann söluhagnað sem var með 10% og allt annað yrði skattað eins og tekjur hefur valdið því að segja má að það sé hámark á fjármagnstekjuskattinum, það er hámark á fjármagnstekjuskattinum, 600 þús. kr. fyrir hjón. Menn bara telja ekki fram hærri skatt. Þeir kaupa sér hlutabréf, setja peningana aftur í atvinnulífið fyrir það sem umfram er, nema náttúrlega einn og einn maður sem nennir ekki að hugsa um þetta og langar til að komast í blöðin. En allir aðrir láta hagnaðinn ekki fara upp fyrir þetta, þeir fresta honum og kaupa hlutabréf, og það er enginn vandi að gera það.

Því miður þegar menn fara að hugsa svona þá fara þeir líka að hugsa um fleira eins og t.d. um eignarskattana. Og það hefur valdið því að fjármagnið streymir úr landi og það voru mistök. Það voru mistök að setja þau mörk, það voru mistök sem nú er verið að leiðrétta og taka til baka.

Hér hefur nokkuð verið rætt um samanburð við tekjuskatt. Að meðaltali er tekjuskattur 20% vegna frítekjumarksins og vegna sjómannafsláttar og vaxtabóta og annars slíks, þannig að það mætti hafa tekjuskattinn 20%. Og þegar maður tekur inn í dæmið, eins og ég nefndi áðan í andsvari, að vextir eru að meginhluta núna verðbætur og að raunvextir séu væntanlega að meðaltali núll sem stendur í bankakerfinu, þá er eðlilegt að miða við helminginn af meðalskatti á tekjur. Og ef maður tekur inn í dæmið áhættuna sem felst í því að fjárfesta í hlutabréfum --- ég geri ráð fyrir að einhverjir hv. þingmenn hafi fjárfest í hlutabréfum og tapað þeim --- þá er eðlilegt að skattur á arð og söluhagnað sé líka helmingurinn af því sem er á tekjur. Sömuleiðis með leigu að ef maður mætti draga frá kostnað við leiguhúsnæðið mundi sá skattur líka lækka, en það má ekki.

Allt er þetta rökstutt með þeim rökum að fjármagnstekjuskatturinn eigi að vera 10% en ekki 20% eins og hann er á tekjur.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson, sem er stjórnarmaður í LSR og þekkir því verðbréfamarkaðinn afskaplega vel, tók sem dæmi mann sem fjárfesti fyrir 2 millj. og fékk 100 millj. eftir stuttan tíma. Afskaplega góð fjárfesting, afskaplega góð. En hann virðist ganga út frá þessu sem reglu. Mér þætti gaman að sjá niðurstöðuna hjá LSR ef hann fjárfesti alltaf þannig að hann fimmtugfaldaði fjármagnið á stuttum tíma. Þá hefði ríkissjóður ekki þurft að borga 15 milljarða inn í þann sjóð og þá væri nú gaman að lifa.

Það er nefnilega þannig að þegar menn kaupa hlutabréf fyrir 2 millj., t.d. í fyrirtæki eins og deCode, þá vill það stundum lækka og menn tapa hreinlega. Það nefndi hv. þm. ekki að þegar þessi maður sem keypti hlutabréf fyrir 2 millj. lagði fram sína peninga þá hefði hann getað tapað. Og mjög margir ætla sér að græða en tapa samt. Það er þessi áhætta sem menn eru alltaf að taka og þess vegna er ekki eðlilegt að skattleggja svona hagnað að fullu vegna þess að maðurinn átti þetta ekkert víst. Ef hann hefur átt það víst að fá fimmtugfalt til baka þá væri nú ekki amalegt að lifa og þá mundi ég t.d. vera fús að borga venjulegan tekjuskatt af því, ef þetta væri víst, ef ríkissjóður mundi tryggja mér að ég fengi fimmtugfalt til baka þá væri ekkert vandamál að borga tekjuskatt af því, ekki aldeilis.

Þetta er dæmið. Það er nefnilega nauðsynlegt í atvinnulífinu að einhver sé fús að taka áhættu. Það sem er verið að gera er að hvetja menn til þess að taka áhættu með því að hafa fjármagnstekjuskattinn ekki meiri en þetta, 10%, þannig að maður sem myndar 98 millj. kr. hagnað borgar þá ekki, eftir þessari nýju reglu, ,,nema`` tæpar 10 milljónir í skatt. Og ríkissjóður stendur betur eftir en áður, það er ekki spurning, vegna þess að tekjur ríkissjóðs af þessum skatti hafa stórhækkað þrátt fyrir að prósentan hafi verið lækkuð úr 47% eins og hún var, þ.e. 42% tekjuskattur plús hátekjuskattur 5%, í 10%, þá hafa nefnilega tekjur ríkissjóðs engu að síður hækkað. Þetta er það sem hv. þingmenn virðast alltaf gleyma, að tekjur ríkissjóðs eru háðar skattprósentunni og að skattstofninn, þ.e. söluhagnaðurinn, er líka háður skattprósentunni. Ef þetta er skattað of mikið, þá bara myndast enginn skattstofn og engar tekjur ríkissjóðs.