Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 13:34:09 (1993)

2000-11-21 13:34:09# 126. lþ. 28.4 fundur 214. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (stjórnarmenn o.fl.) frv., viðskrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[13:34]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 62/1973, um jöfnun flutningskostnaðar á sementi, með síðari breytingum, sem er 214. mál þingsins á þskj. 225.

Með frv. þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um jöfnun flutningskostnaðar á sementi sem hafa þann tilgang að jafna samkeppnisstöðu þeirra sem starfa á sementsmarkaðnum.

Lög nr. 62/1973, um jöfnun flutningskostnaðar á sementi, eru að stofni til frá árinu 1973. Þegar lögin voru sett voru í gildi lög nr. 35 frá 1. apríl 1948, um sementsverksmiðju, en Sementsverksmiðja ríkisins starfaði á grundvelli þeirra laga. Með lögum nr. 28 frá 13. apríl 1993 yfirtók hlutafélagið Sementsverksmiðjan hf. Sementsverksmiðju ríkisins 1. jan. 1994. Þegar lög nr. 62 frá 30. apríl 1973, um jöfnun flutningskostnaðar á sementi, voru sett var einungis einn starfandi seljandi á sementi á markaðinum, þ.e. Sementsverksmiðja ríkisins. Þótti því eðlilegt að mæla svo fyrir í 5. gr. laganna að Sementsverksmiðja ríkisins tilnefndi einn mann í flutningsjöfnunarsjóð sements. Eftir að Sementsverksmiðja ríkisins var gerð að hlutafélagi 1. jan. 1994 og fleiri en einn aðili starfar nú á sementsmarkaðnum er ekki eðlilegt að Sementsverksmiðjan hf. tilnefni mann í stjórn flutningsjöfnunarsjóðs sements.

Í ljósi þess samþykkti stjórn flutningsjöfnunarsjóðs sements á fundi sínum 30. maí 2000 að koma með eftirfarandi ábendingu um stjórnarsetu í sjóðnum til viðskiptaráðherra og var hún samþykkt samhljóða: ,,Stjórn Flutningsjöfnunarsjóðs sements beinir því til viðskiptaráðherra að kannað verði hvort nauðsynlegt sé að endurskoða lög um jöfnun flutningskostnaðar á sementi þar með talið skipun stjórnar sjóðsins í ljósi þess að fleiri en einn söluaðili er nú starfandi á sementsmarkaðnum.``

Hæstv. forseti. Ég mun nú gera grein fyrir helstu breytingum sem felast í frv.

Í fyrsta lagi er lagt til að viðskrh. skipi í stjórn flutningsjöfnunarsjóðs sements án tilnefningar, þar með talið formann stjórnar. Að öðru leyti er gert ráð fyrir því að stjórnin skipti sjálf með sér verkum. Samkvæmt gildandi lögum tilnefnir Sementsverksmiðja ríkisins einn stjórnarmann í flutningsjöfnunarsjóð sements. Eftir að hlutafélagið Sementsverksmiðjan hf. yfirtók Sementsverksmiðju ríkisins hefur Sementsverksmiðjan hf. tilnefnt mann í stjórnina. Þar sem fleiri en einn aðili starfa nú á sementsmarkaðnum er eðlilegast að ráðherra skipi stjórn flutningsjöfnunarsjóðs sements án tilnefningar. Eru því lagðar til breytingar á 5. gr. laganna til að koma til móts við þær breytingar sem orðið hafa á sementsmarkaðnum.

Í öðru lagi skal nefna jöfnun á samkeppnisstöðu innlendra framleiðenda og þeirra sem flytja inn sement. Í gildandi lögum er gert ráð fyrir að Sementsverksmiðjan hf. greiði flutningsjöfnunargjald af sölu sements til viðskrn. sem sér um endurgreiðslu á flutningskostnaði sements. Í frv. er lagt til að greiðslan fari nú beint til flutningsjöfnunarsjóðs sements sem sér um endurgreiðslu á flutningskostnaði. Einnig er nauðsynlegt vegna tilkomu innflutnings á sementi til endursölu að jafna samkeppnisstöðu innlendra framleiðenda og þeirra sem flytja inn sement.

Með breytingum á 2. gr. laganna er greiðslufrestur á flutningsjöfnunargjaldi með lögum færður til þess horfs sem hann hefur verið í framkvæmd.

Í þriðja og síðasta lagi skal nefna breytingar sem miða að því að greiða flutningskostnað jafnt frá framleiðslustað og aðaltollhöfn. Með tilkomu innflutnings á sementi er nauðsynlegt að jafna flutningskostnað, ekki einungis frá framleiðslustað sements innan lands heldur frá aðaltollhöfn til tiltekinna verslunarstaða. Þess vegna er lögð til sú breyting á 1. mgr. 6. gr. laganna að stjórn flutningsjöfnunarsjóðs sements sé m.a. heimilt að ákveða að jöfnun flutningskostnaðar milli tiltekinna verslunarstaða, þar á meðal framleiðslustaðar eða aðaltollhafnar og annarra verslunarstaða, skuli takmörkuð við kostnað af þeim flutningsháttum sem ódýrastir eru á hverjum tíma og skemmstu flutningsleið.

Hæstv. forseti. Það verður að leggja áherslu á mikilvægi þess að lög um jöfnun flutningskostnaðar af sementi verði löguð að breyttum aðstæðum þannig að virk samkeppni ríki á sementsmarkaðnum. Vegna þeirra breytinga á aðstæðum hér á landi sem áður hefur verið lýst er afar mikilvægt að þær breytingar sem gert er ráð fyrir í frv. nái sem fyrst fram að ganga.

Að lokinni umræðunni legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og til hv. efh.- og viðskn.