Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 13:39:39 (1994)

2000-11-21 13:39:39# 126. lþ. 28.4 fundur 214. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (stjórnarmenn o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[13:39]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að beina spurningu til hæstv. iðnrh. Valgerðar Sverrisdóttur.

Í fyrsta lagi: Kom til umræðu að fella lögin niður? Allur slíkur flutningsjöfnuður er þjóðhagslega mjög óhagkvæmur og kemur niður á lífskjörum þjóðarinnar. Nýi innflytjandinn á sementi hefði t.d. alveg eins getað haft móttökuhöfn sína á Austurlandi og hefði verið skynsamlegt fyrir hann að hafa hana þar því að það er styttra þaðan til Evrópu og breytir í rauninni engu hvar í landinu hann er staðsettur vegna þess að ríkið borgar mismuninn eða neytandinn með flutningsjöfnun. Slíkt kerfi leiðir því alltaf til mjög óskynsamlegra ráðstafana og það er ein af ástæðunum fyrir því að Sovétríkin liðuðust sundur að menn voru með svona kerfi úti um allt og lífskjörin þar í landi bíða þess ekki bætur enn þá. Þetta skekkir líka samkeppni milli t.d. húsagerða. Það getur vel verið að á Siglufirði og öðrum stöðum langt frá sementsverksmiðjunni borgi sig frekar að byggja timburhús en steinsteypuhús en það er hindrað með því að það kemur ekki fram hver raunverulegur kostnaður þjóðfélagsins er af því að flytja sementið norður í land.