Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 13:43:49 (1998)

2000-11-21 13:43:49# 126. lþ. 28.4 fundur 214. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (stjórnarmenn o.fl.) frv., KLM
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[13:43]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að blanda mér inn í umræðu um jafnsjálfsagt og gott frv. og hæstv. iðnrh. var að flytja. Það er nú svo oft sem hv. þm. Pétur H. Blöndal kemur hér, sama hvort það er tveggja mínútna andsvar og þarf reyndar stundum ekki nema mínútuandsvar til þess að kalla á viðbrögð vegna þeirra þröngsýnu sjónarmiða sem hann hefur og kom fram í andsvari hans um þessa flutningsjöfnun á semtenti og tók sem dæmi um að öll slík flutningsjöfnun komi niður á einhverju öðru og markaðslögmálin ættu að fá að ráða þessu o.s.frv.

Ég vil taka undir orð hæstv. iðnrh. sem var algerlega ósammála þessum hv. þm. Sjálfstfl. sem hefur tjáð sig um þetta atriði. Ég veit ekki hvort það er klofningur í ríkisstjórninni út af þessari flutningsjöfnun en það er a.m.k. kominn annar vinkill á þetta mál. Það á kannski líka við um það sem kom fram um aðrar jöfnunaraðgerðir sem eiga sér stað. Ég vil nota tækifærið, hæstv. forseti, og spyrja hv. þm. út í það hvort hann sé t.d. á móti jöfnun námskostnaðar á Íslandi. Er hv. þm. á móti því að jafna húshitunarkostnað, ganga aðeins til móts við það að flestallir íbúar landsins búi við svipað í húshitunarkostnaði og íbúar höfuðborgarsvæðisins? Skekkir það markaðslögmálið eitthvað ef húshitunarkostnaður Íslendinga er örlítið jafnaður, ef þeir íbúar á landsbyggðinni sem þurfa að borga kannski 120 þús. kr. á ári í húshitunarkostnað verða kannski settir með aðgerðum stjórnvalda í meðaldýran flokk sem er 60 þúsund?

[13:45]

Er það líka andstætt skoðunum hv. þm. að jafna aðstöðu fólks til að sækja nám í framhaldsskólum? Íbúar höfuðborgarsvæðisins þurfa kannski ekki nema að fara yfir götuna til að ganga í skóla sem ríkið hefur byggt og ríkið rekur en íbúar á landsbyggðinni þurfa að fara um langan veg og leigja sér húsnæði. Skekkir þetta eitthvað markaðshyggjuna eða markaðslögmálin? Ég spyr.

Það má líka halda áfram að spyrja þennan hv. þm. Sjálfstfl. úr kjördæmi Reykjavíkur. Ég geri ráð fyrir að hann svari því játandi en er hann andvígur því að flutningskostnaður á íbúa Reykjavíkur, sem það virkar nú sérstaklega á, sé jafnaður með því að strætisvagnaakstur í Reykjavíkur fær 70% afslátt af þungaskatti. Við landsbyggðarfólkið erum hjartanlega sammála þeirri aðgerð og styðjum að almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu séu niðurgreiddar á þennan hátt. En hv. þm. Reykv., Pétur H. Blöndal, er kannski á móti því líka.

Ég gat ekki annað en komið upp og fjallað aðeins um það sem kom fram, herra forseti, í þessu stutta andsvari hv. þm. um þetta litla mál, sjálfsagða mál sem hæstv. iðnrh. hefur flutt hér. Ég vil bara taka undir það og fagna því sem hún sagði í andsvari sínu gegn því sem kom fram hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal.