Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 13:54:49 (2003)

2000-11-21 13:54:49# 126. lþ. 28.4 fundur 214. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (stjórnarmenn o.fl.) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[13:54]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Talsmaður Sjálfstfl. í þessu máli hefur sett sínar skoðanir fram. Þær eru af því tagi sem við var að búast. Hann er á móti því að sú jöfnun sé viðhöfð sem felst í þessum lögum. Það hefur verið almenn samstaða um þessa flutningsjöfnun fram að þessu. Ég held því ekki fram að allir hafi verið ánægðir með hana en það hefur samt verið samstaða um þessa leið. Ég tel ekki kominn tíma til að breyta henni. Margt mundi breytast við það að taka flutningsjöfnunina af. Við hefðum þannig áhrif, t.d. á byggingu húsa um allt land. Það er ekki spurning um að það gæti haft slík áhrif. Að stærstum hluta eru byggð steinhús hér á Íslandi þó að timburhúsum hafi fjölgað mikið en steinhúsin hafa haft vinninginn fram að þessu.

Ef menn ætluðu sér að breyta þessu og hætta þessari flutningsjöfnun þyrfti að fara yfir margt annað. Það segir sína sögu hvað fyrirtæki sem kom inn í sementssölu á Íslandi ákvað að gera þegar það kom til landsins. Það ákvað ekki að setja starfsemi sína niður á Austurlandi þó að flutningsjöfnun væri til staðar. Flutningsjöfnunin mun ekki klára það dæmi alfarið, að einu gildi hvar maður setur niður starfsemina. Það er betra að vera nálægt markaðnum þar sem hann er stærstur og það vissu þeir hjá AB Portland þegar þeir settu niður starfsemi sína hér.

Hins vegar er þetta frv. eðlilegt og ekkert við því að segja. Það er óeðlilegt að einhver einn aðili sem selur sement eigi fulltrúa í þessari stjórn en svo sé ekki með aðra sem komnir er á markaðinn.

Hv. þm. Pétur Blöndal sagði áðan að menn byggðu ekki timburhús af því að verðið á steinhúsum --- ég skildi það þannig --- væri ekki rétt. Ég held að það sé ekki endilega jákvætt eða þjóðhagslega hagkvæmt að menn byggi timburhús á Íslandi. Aðrir hlutir geta legið því til grundvallar hvort menn telja að byggja eigi timburhús eða steinhús en verðlagið á markaðnum. Ég tel að þegar talað er um þjóðhagslega hagkvæmni þá megi menn ekki fara svo einfaldar leiðir að tala um það eingöngu út frá því hvað hlutirnir kosta frá degi til dags.

Ég held að það sé ekki hægt að halda því fram með fullum rökum að t.d. stuðningur við samgöngur í landinu, sem hér voru nefndar áðan, sé þjóðhagslega óhagkvæmur. Það er a.m.k. alveg full ástæða til að ætla að það sé ekki þjóðhagslega hagkvæmt að við keyrum um hér ein í bíl um landið eins og við gerum. Sú bílamenning sem við höfum komið okkur upp er örugglega ekki þjóðhagslega hagkvæm miðað við þann umferðarmáta sem aðrir stunda víða í kringum okkur. Það kann að vera full ástæða til að velta því fyrir sér hvort ekki þurfi að reyna að hafa áhrif á þá umferðarmenningu með opinberum aðgerðum. Að vísu reynist þar erfitt að benda á leiðir sem menn getað orðið sammála um.

Hv. þm. grípur gjarnan til þess, þegar um er að ræða hugmyndir félaga hans í Sjálfstfl. eða ríkisstjórn sem hann er ekki ánægður með, að líkja ríkjandi ástandi við Sovétríkin gömlu. Þetta er farin að verða skemmtileg líking sem hv. þm. grípur til, nánast ævinlega þegar hann kemur með þessa líkingu er hann að lýsa skoðunum sínum á einhverju sem félagar hans í ríkisstjórnarflokkunum vilja hafa áfram. Það er greinilega ýmislegt í stjórnkerfinu á Íslandi að mati hv. þm. sem líkja má við þetta gamla, ónýta kerfi sem menn notuðust við í Sovétríkjunum og hrundi fyrir margt löngu. Þeir hafa reyndar ekki getað risið upp úr þeim rústum enn þó þeir hafi nú höndlað frjálshyggjuna að einhverju leyti í því volaða landi.

Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu meira. Ég ætlaði fyrst og fremst að segja að ég tel ekki kominn tíma til að afleggja þennan flutningsjöfnunarsjóð. Ég held hins vegar að það sé af því góða að fara yfir það mál, hvernig eigi að beita honum og hve langt eigi að ganga í slíkri flutningsjöfnun. Eins og málin standa núna væri það andstætt yfirlýstum markmiðum allra stjórnmálaflokka sem eiga aðild að Alþingi. Markmiðið er að reyna að viðhalda byggð í landinu. Það mundi auka enn á kostnað við byggingar og framkvæmdir á landsbyggðinni ef menn tækju þetta flutningsjöfnunargjald af núna. Ég er þess vegna á móti því.