Verðbréfaviðskipti

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 14:25:37 (2010)

2000-11-21 14:25:37# 126. lþ. 28.5 fundur 233. mál: #A verðbréfaviðskipti# (útboð og innherjaviðskipti) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[14:25]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Þegar frv. um verðbréfaviðskipti var til umfjöllunar á síðasta þingi voru skilin eftir ýmis mikilvæg ákvæði að taka á sem snerta innherjaviðskipti og meðferð trúnaðarupplýsinga svo dæmi sé tekið. Við í minni hluta efh.- og viðskn. gagnrýndum það mjög við afgreiðslu þess máls og fluttum brtt. við það frv. um að á því máli yrði tekið, ýmislegt sem snertir þá þætti og útboð á bréfum, bæði skráðum og óskráðum. Niðurstaða meiri hluta nefndarinnar var að vísa því máli aftur til hæstv. viðskrh. þar sem hæstv. ráðherra var falið að ganga frá því máli með betri hætti en gert var á síðasta þingi og koma því aftur til þingsins í frumvarpsformi og er ráðherrann að mæla fyrir afrakstri af því verkefni.

Ég ætla ekkert að draga það í efa að hér er vissulega á ferðinni góð viðleitni hæstv. viðskrh. til að taka betur á leikreglum á verðbréfamarkaðnum heldur en við höfum búið við hingað til. En ákvæði frv., þó margt sé vissulega til bóta og ég vil halda því alveg til haga, finnst mér um margt taka losaralega á ýmsu sem þarf að taka fast á að því er varðar leikreglur á verðbréfamarkaðnum og mér finnst reyndar að sum ákvæði frv. og skýringar í grg. beri þess merki að hagsmunaaðilar hafi komið að samningu frv.

Við sjáum að hæstv. ráðherra hefur skipað tvær nefndir til að fjalla um þessi mál, m.a. um útboð verðbréfa, og í þessum nefndum hafa átt sæti hagsmunaaðilar, raunverulega bæði hagsmuna- og eftirlitsaðilar eins og fulltrúar frá Fjármálaeftirlitinu. Og maður veltir fyrir sér hvort skynsamlega sé haldið á málum að skipa til verka við að útbúa leikreglur á verðbréfamarkaði þá sem við þetta eiga að búa.

Hér eru t.d. skipaðir til verka að vinna að tillögum um útboð á verðbréfum, Finnur Sveinbjörnsson, hjá Sambandi íslenskra viðskiptabanka, eða hann var þar a.m.k. sennilega á þeim tíma og er hér til talinn sem fulltrúi þeirra, það er fulltrúi frá Sparisjóðabanka Íslands, hér er meira að segja að finna fulltrúa frá Kaupþingi sem er sjálft mjög umfangsmikill aðili í viðskiptum með verðbréf fyrir eigin reikning, og síðan fulltrúar frá þeim sem eftirlit eiga að hafa eins og Verðbréfaþingi og Fjármálaeftirlitinu.

Sama er reyndar að segja um skýrslu nefndar um innherja\-viðskipti. Þar er að finna fulltrúa frá Íslandsbanka-FBA og þar er líka að finna fulltrúa hlutafélaganna sem þarna kemur fram ásamt eftirlitsaðilum. Það er þetta sem ég vil vekja athygli á vegna þess að mér finnst ákvæði frv. mörg hver bera þess merki að hagsmunaaðilar hafi komið mikið að því að semja frv. Ég gagnrýni það, herra forseti, að þannig skuli hafa verið haldið á málum. Vissulega átti Alþingi að ljúka þessu verki sjálft á síðasta þingi en ekki vísa málinu aftur til hæstv. ráðherra sem fær síðan hagsmunaaðila til að vinna þetta verk.

Eins og fram kom hjá ráðherra taka ákvæði frv. á meðferð trúnaðarupplýsinga, útboðsmálum og innherjaviðskiptum og þau ákvæði ganga vissulega í rétta átt og eru til þess fallin að styrkja eðlilegar leikreglur á fjármálamarkaðnum. Það er auðvitað grundvallaratriði að við búum við sýnilegan fjármálamarkað þar sem jafnræði og trúverðugleiki eru lykilatriði. Því er afar mikilvægt að vel sé gengið frá öllum efnisreglum sem lúta að útboði og trúnaðarupplýsingum og að girt sé fyrir alla möguleika á innherjasvikum en frv. viðskrh. horfir um margt til betri vegar að því er þá þætti varðar frá því sem nú er. En eins og ég sagði, herra forseti, sýnist mér losaralega frá málum gengið í mörgum þáttum, framkvæmdin of mikið sett í hendur á markaðnum sjálfum eins og í innherjaviðskiptum, of mikið sé um undanþágur frá almennum útboðum á hlutabréfum, meðferð trúnaðarupplýsinga þarf líka að vera strangari. Meiri upplýsingagjöf þarf að liggja fyrir til þess að auka sýnileika markaðarins auk þess sem óbein ákvæði um óskráð bréf eru afar veikburða í frv.

[14:30]

Í meðförum efh.- og viðskn. þarf m.a. að svara spurningunni um hvort ákvæði frv. nái því að koma í veg fyrir að óskráðum bréfum sé dreift til almennings. Ég dreg það í efa og vil spyrja hæstv. ráðherra um það: Telur hún að nægjanlega vel frá málum gengið til að koma í veg fyrir að óskráðum verðbréfum sé dreift til almennings? Þegar verið er að herða allar leikreglur með skráningu hlutabréfa, sem er eðlilegt, eykur það hættuna á að hluti gráa markaðarins aukist eða óskráðum bréfum fjölgi. Ég teldi það mjög varhugavert. Hér eru engin bein ákvæði varðandi óskráðu bréfin en settar strangari reglur um skráðu bréfin og útboðin. Felur það í sér hættu á því að sá hluti sem snýr að óskráðu bréfunum aukist frá því sem er?

Eins vil ég nefna að í þessu frv. er ekkert gert til að koma í veg fyrir eða takmarka að verðbréfafyrirtækin sjálf versli með hlutabréf fyrir eigin reikning. Í því er vissulega fólgin sú hætta að verðbréfafyrirtækin sjálf haldi uppi of háu gengi á bréfunum og stýri í raun gengi bréfanna. Ég veit að hæstv. ráðherra mun benda á Kínamúrana svokölluðu og að þeir eigi að duga en ég held að full ástæða sé til að hugleiða hvort nægjanlega vel sé frá málum gengið þegar verðbréfafyrirtækjunum er treyst fyrir ávöxtun á eignasöfnum viðskiptavinanna á sama tíma og þau stunda sjálf viðskipti fyrir eigin reikning. Þarna kom meira að segja að verki fulltrúi Kaupþings, að því að semja frv., sem er stór aðili í þessum umsvifum. Mér sýnist einmitt, þegar verðbréfafyrirtækin eru svona umsvifamikil sjálf í viðskiptum með eigin reikning, að það geti komið upp allalvarlegir hagsmunaárekstrar fyrir utan það að hætta er á að þau haldi uppi óeðlilegu gengi á bréfunum.

Ég vil aðeins fara í einstök atriði þessa frv. Í því eru mörg ákvæði til bóta. Ákvæðið um útboð virðist gert víðtækara og skilgreind ábyrgð verðbréfafyrirtækja. Það er t.d. mikilvægt að fastsett er í b-lið 6. gr. frv. að almennt útboð verðbréfa hvort heldur er í upphaflegri sölu eða síðari sölu sé háð því að útboðslýsing hafi verið gefin út í samræmi við ákvæði laganna. Ég tel líka til verulegra bóta að Fjármálaeftirlitið fari yfir útboðin og hafi umsjón með athugun á útboðslýsingu.

Mér finnst aftur á móti ákvæði c-liðar 6. gr. vafasamt og verulegt álitamál hvort of mikið sé opnað fyrir að verðbréfafyrirtækin sjálf geti metið hvort hafi óskráð bréf til sölu án útboðs til almennings. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Sala eða milliganga fyrirtækis í verðbréfaþjónustu á verðbréfum til annarra en fagfjárfesta, sem ekki fellur undir reglur um almennt útboð, er háð því að lagt hafi verið mat á faglega þekkingu, fjárhag og reynslu viðskiptavinar. Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu er heimilt að synja um milligöngu með verðbréf sem ekki falla undir almennt útboð ef það telur viðskiptavini ekki búa yfir nægjanlegri þekkingu, reynslu eða fjárhagslegum styrk.``

Það er sett í vald markaðarins sjálfs og verðbréfafyrirtækjanna hvort þau versli með þessi bréf án þess að þau fari í útboð. Verðbréfafyrirtækin þurfa sem sagt sjálf að leggja mat á faglega þekkingu, fjárhag og reynslu viðskiptavinar. Þarna er opnað fyrir að verðbréfafyrirtækin geti dreift óskráðum bréfum til almennings, sem eru ótraust og veruleg áhættufjárfesting, án þess að kaupandi bréfanna geri sér nægjanlega grein fyrir því. Þar kemur að vísu til ábyrgð fjármálafyrirtækjanna og bótaskylda gagnvart viðskiptavinunum, en er hún nægjanleg? Er með þessu ákvæði í c-lið 6. gr. of mikið opnað fyrir útgáfu á óskráðum bréfum sem ekki fara í útboð?

Ég nefni líka það sem sagt er um c-lið í grg. með frv. sjálfu. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Tilgangurinn er sá að tryggja að viðskiptavinum sé gerð grein fyrir þeim mun sem er á skráðum og óskráðum verðbréfum og lagt sé mat á einstaklingsbundnar forsendur þeirra til að taka þátt í slíkum verðbréfaviðskiptum.``

Síðan kemur þessi setning, herra forseti:

,,Eftir atvikum er fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu rétt að synja um slík viðskipti ef niðurstaða af slíku mati er á þá leið að viðskiptavinurinn hafi hvorki faglega þekkingu, reynslu eða fjárhagslegan styrk til þess að eiga viðskipti með óskráð verðbréf.``

Það þarf ekki annað en hlýða, herra forseti, á hvernig þetta hljómar. Það er algerlega á valdi verðbréfafyrirtækjanna sjálfra hvort þau eiga viðskipti með óskráð bréf án þess að þau fari í útboð. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hvað er vitað um umfang viðskipta með óskráð bréf? Enginn virðist vita nokkurn skapaðan hlut um umfang þess sem hér er á ferðinni. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur verið reynt að komast að því hvert umfang óskráðra bréfa er? Hlutabréfaviðskipti fara sívaxandi í þjóðfélagi okkar og á fjármálamarkaðnum en um þau er ekki vitað, nema viðskipti með skráð verðbréf sem hafa vaxið gífurlega og eru sennilega á markaðsvirði, skráð á Verðbréfaþingi, sennilega nálægt 500 millj. kr.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Telur hún ekki ástæðu til að kanna umfang þessa gráa markaðar? Ég býst við að í hlutabréfasjóðunum sem almenningur nýtir sér sé töluvert af óskráðum bréfum. Verður almenningi gerð nægilega ljós áhættan sem tekin er með fjárfestingum í þessum bréfum? Er t.d. ástæða --- ég spyr hæstv. ráðherra --- til að setja rammaákvæði í þessa löggjöf sem við erum hér að fjalla um sem skilgreini fjárfestingarstefnu hlutabréfasjóða? Nú virðast þeir geta fjárfest í hverju sem er. Við höfum sett ákveðnar reglur um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða og verðbréfasjóða en af hverju ekki líka um hlutabréfasjóði? Þrátt fyrir viðleitnina í þessu frv. verður enn opið ákvæði í c-lið 6. gr. þar sem sett er í mat fyrirtækjanna sjálfra hvort þau bjóði almenningi bréf án útboðs. Því væri það mikið öryggisatriði ef sett yrðu rammaákvæði varðandi fjárfestingarstefnu hlutabréfasjóðanna. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort ekki væri eðlilegt að gera það.

Ég spyr líka hæstv. ráðherra hvort ekki væri ástæða til að koma hér upp skipulegum tilboðsmarkaði eins og heimilt er og mér skilst að Verðbréfaþing hafi starfsleyfi fyrir. Sum smærri fyrirtæki telja sig kannski ekki eiga erindi sem skráðir aðilar í kauphöll þar sem skilyrði eru um fjölda hluthafa og eigið fé en vildu gjarnan gerast aðilar að skipulegum tilboðsmarkaði þar sem kröfur eru vægari. Ég held að slík leið, þ.e. skipulegur tilboðsmarkaður, væri vel til þess fallin að auka traust á verðbréfamarkaðnum og öryggi kaupenda hlutabréfa.

Ég tel einnig ástæðu fyrir efh.- og viðskn. að skoða vel e-lið 6. gr. um allar undanþágur sem þar eru gefnar frá útboði. Þær eru ansi margar. Þessi ákvæði um verðbréf sem boðin eru fagfjárfestum hafa flest, utan eitt, verið í reglugerð og hefur greinilega ekki verið gerð tilraun til að fækka þeim. Ég tel að það þurfi að skoða rækilega. Er ástæða til að halda öllum þessum undanþágum frá útboði inni, herra forseti? Þær spurningar vakna þegar maður les þetta frv. Það ákvæði hefur sannarlega verið nýtt að fagfjárfestar geti tekið þátt í lokuðu útboði svo framarlega sem í hópnum séu ekki fleiri en 25 aðilar en síðan hafa þeir selt bréfin í almennum útboðum.

Mér finnst líka ástæða til, herra forseti, að fara yfir fleiri greinar í þessu frv. Þar staldra ég við b-lið 7. gr. (ný 31. gr.). Þar er ákvæði um að innherjum sé óheimilt að nýta sér trúnaðarupplýsingar en síðan kemur setning sem mér finnst alveg furðuleg, í c-lið 7. gr. (ný 32. gr.) sem er um meðferð trúnaðarupplýsinga. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Fruminnherjar skulu forðast að eiga viðskipti með verðbréf félagsins þegar ætla má að fyrir liggi trúnaðarupplýsingar hjá útgefanda, svo sem skömmu fyrir birtingu ársreiknings eða milliuppgjörs eða skömmu fyrir tilkynningu um mikilvægar ákvarðanir eða atvik sem varða útgefanda verðbréfanna.``

Herra forseti. Fruminnherjar skulu foraðst að eiga viðskipti undir þeim kringumstæðum. Það er ekki sterkar tekið til orða en þetta, þeir eigi að foraðst það. Það er ekki tekið á því að banna slík viðskipti. Þegar hæstv. ráðherra settist í stól viðskrh. var hún mjög hörð á því að það yrði að taka mjög á þessum innherjaviðskiptum. Hæstv. ráðherra nefndi að skoða ætti það alvarlega að setja ákvæði um að í tiltekinn tíma áður en útboð fer fram, fyrir og eftir útboðið, megi ekki eiga sér stað nein viðskipti þar sem innherjar koma nálægt. Nú fáum við ákvæði frá hæstv. ráðherra, sem hann ætlast til að þingið samþykki, sem felur aðeins í sér að fruminnherjar eigi að forðast að eiga viðskipti með verðbréf félagsins undir slíkum kringumstæðum. Þetta ákvæði sýnir okkur að mikill losarabragur er á ýmsum ákvæðunum og frv. ber þess merki að hagsmunaaðilar hafa komið að samningu þess.

Hér er sagt um 7. gr., varðandi innherjaviðskipti:

,,Á það skal minnt að ákvæðum um innherjaviðskipti er fyrst og fremst ætlað að vernda fjárfesta á skipulegum verðbréfamörkuðum og skapa þeim mörkuðum nauðsynlegt traust og gagnsæi í viðskiptum.``

Síðar segir:

,,Í eðlilegu samhengi við þessi sjónarmið er lagt til að ákvæðin taki einnig til viðskipta með verðbréf sem óskað hefur verið eftir skráningu á í kauphöll eða skipulegum tilboðsmarkaði.

Eðli máls samkvæmt eiga framangreind sjónarmið því ekki við um skipulag utan skipulegra verðbréfamarkaða. Í viðskiptum með óskráð verðbréf er ógjörningur að framfylgja eftirliti með viðskiptum með sambærilegum hætti og gerist með skráð verðbréf, m.a. vegna þess að ekki er hægt að opinbera upplýsingar á einfaldan hátt eins og þegar um skráð verðbréf er að ræða.``

Síðan er vísað til þess að ef slík viðskipti eigi sér stað með óskráð verðbréf þá geti þeir sem telji sig hlunnfarna borið fyrir sig ákvæði almennra hegningarlaga. Þetta er raunverulega það sem sagt er um þessi óskráðu verðbréf sem ég hef hér gert að umræðuefni. Viðskipti starfsmanna með óskráð verðbréf hafa einmitt verið gagnrýnd og þátttaka þeirra í útboðum sem fyrirtæki sem þeir vinna hjá hefur umsjón með.

Ég spyr, af því að ég hef ekki getað séð það í þessu umfangsmikla frv. og grg. sem því fylgir: Er starfsmönnum, innherjum, bannað að eiga viðskipti með óskráð bréf? Mér finnst ekki tekið á því í þessu frv. en það hefur einmitt gerst á verðbréfamarkaðinum, að innherjar hafa notfært sér aðstöðu sína og m.a. fjárfest í óskráðum bréfum. Því spyr ég hæstv. ráðherra: Mega innherjar fjárfesta í óskráðum verðbréfum?

Ég vil líka vitna til f-liðar 7. gr. (ný 35. gr.), herra forseti, en þar er ákvæði um að birta eigi skrá yfir innherja sem gerð er opinber með þeim hætti sem Fjármálaeftirlitið ákveður. Ég tel að þetta ákvæði sé mjög til bóta, herra forseti, en ég vísa aftur til c-liðar 7. gr. (32. gr.) sem er mjög losaralegur. Þar er ekki lagt bann við að innherjar eigi viðskipti á ákveðnum tímabilum þegar líklegt er að trúnaðarupplýsingar séu fyrirliggjandi hjá útgefendum verðbréfa. Það er þó gert í Danmörku og ég minnist þess að hæstv. ráðherra vitnaði einmitt til þess að í Danmörku er sett bann á slík innherjaviðskipti sex vikum fyrir birtingu slíkra upplýsinga. Í Noregi er um að ræða tvo mánuði.

Ég tel ástæðu, herra forseti, til þess að fara líka yfir h-lið 7. gr. (37. gr.) frv. og reyndar nokkrar greinar í viðbót, ásamt því að fara yfir leiðbeiningarreglur sem setja á um þessi mál og snerta innherjaviðskipti. Ég sé að tími minn er að verða búinn. Ég verð að biðja um að fara aftur á mælendaskrá til að geta lokið máli mínu.