Verðbréfaviðskipti

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 15:06:07 (2012)

2000-11-21 15:06:07# 126. lþ. 28.5 fundur 233. mál: #A verðbréfaviðskipti# (útboð og innherjaviðskipti) frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[15:06]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Það hefur ýmislegt komið fram í máli hv. þm. sem er athyglisvert og ástæða til að bregðast við. Almennt tel ég að hv. þm. séu jákvæðir gagnvart frv. og ég met það mikils en ég geri mér grein fyrir að það eru mörg atriði sem hv. þm. vilja fá betri skýringar við og ég efast ekkert um að hv. nefnd mun fjalla gaumgæfilega um málið, enda er það mjög mikilvægt.

Ég vil byrja á að segja að með frv. er verið að koma á almennum hegðunarreglum miklu frekar en að verið sé að koma á boðum og bönnum og það er náttúrlega ekki verið að banna viðskipti því að auðvitað gengur þetta út á að viðskipti geti átt sér stað. Þetta eru fyrst og fremst almennar hegðunarreglur og reynt að leggja sig fram um það eins og kostur er að koma málum þannig fyrir að markaðurinn og viðskiptin á markaðnum verði heilbrigð.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir talaði um að margt væri til bóta og ég lýsi ánægju með það og tel að svo sé. Hún nefndi og gerði athugasemdir við það að hagsmunaaðilar kæmu of mikið að þessu máli og þeim hafi verið falið að útbúa leikreglur sem síðan eiga að vinna eftir reglunum. Það er reyndar þannig að þessar reglur eru alltaf settar og smíðaðar í samvinnu við fjármagnsmarkaðinn og við þá sem eiga að nota þær vegna þess að þar er mikil þekking sem við sem smíðum reglurnar verðum að taka tillit til og verðum að nýta okkur.

Ég trúi því ekki að mér og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, ef við tvær settumst niður án þess að hafa samvinnu við markaðinn, tækist að semja reglur sem væru mjög notagildar á markaðnum. Ég segi þetta af mikilli hreinskilni. Að sjálfsögðu þarf að fá upplýsingar frá markaðnum og frá þeim sem nota síðan þær reglur sem settar eru þó að á hinn bóginn þurfi að varast að láta þá ráða ferð. En sú þekking sem þar er til staðar skiptir miklu máli.

Hv. þm. nefndi einnig að of mikið væri um undanþágur en það er þó þannig að í tilskipun Evrópusambandsins eru þessar undanþágur. Það er því ekki svo að við séum að finna upp eitthvað sem ekki tíðkast almennt.

Síðan var það næsta atriði sem var ákvæði um að óskráð bréf væru veikburða eða eitthvað var það í líkingu við það sem hv. þm. nefndi hér sem aðfinnsluatriði. Markmiðið er að tryggja að verðbréfum sem ekki hafa verið gefin út í almennu útboði sé ekki dreift til almennings. C-liður 6. gr. (ný 27. gr.) er nokkurs konar hegðunarregla og þar er tekið á gráa markaðnum en hins vegar er ekki verið að banna viðskipti eins og ég sagði í upphafi. Fyrirtæki sem eru í verðbréfaþjónustu verða að standa faglega að málum og eins og við höfum oft komið inn á verða þau að skapa traust og auðvitað byggist þetta mikið á því að þau fyrirtæki sem eru á þessum markaði skapi traust og vinni samkvæmt þeim reglum sem settar eru.

Ég ætla aðeins að fara, með leyfi forseta, í þessa grein þar sem stendur:

,,Sala eða milliganga fyrirtækis í verðbréfaþjónustu á verðbréfum til annarra en fagfjárfesta, sem ekki fellur undir reglur um almennt útboð, er háð því að lagt hafi verið mat á faglega þekkingu, fjárhag og reynslu viðskiptavinar. Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu er heimilt að synja um milligöngu með verðbréf sem ekki falla undir almennt útboð ef það telur viðskiptavini ekki búa yfir nægjanlegri þekkingu, reynslu eða fjárhagslegum styrk.``

Næsta atriði sem hv. þm. nefndi varðaði það að versla fyrir eigin reikning. Það er atriði sem hefur þegar verið tekið á í lögum sem sett voru á hv. Alþingi með svokölluðum Kínamúrum.

Síðan var það að koma á öðrum skipulögðum tilboðsmarkaði. Það tel ég ekki vera atriði sem stjórnvöld eiga að standa að heldur eiga stjórnvöld, og það er hlutverk þeirra, að búa til rammann og annarra að starfa samkvæmt því. (Gripið fram í.) Ég held að það væri gott, ég væri hlynnt því að komið væri á öðrum skipulögðum tilboðsmarkaði.

Síðan eru það fruminnherjarnir, en hv. þm. vitnaði til ákvæðis í a-lið 7. gr. (30. gr.):

,,Ákvæði þessa kafla taka til viðskipta með verðbréf sem skráð hafa verið eða óskað hefur verið eftir að verði skráð í kauphöll eða á skipulegum tilboðsmarkaði sem fengið hefur starfsleyfi hér á landi.``

Í c-lið (32. gr.) kemur eftirfarandi fram:

,,Fruminnherjar skulu forðast að eiga viðskipti með verðbréf félagsins þegar ætla má að fyrir liggi trúnaðarupplýsingar hjá útgefanda, svo sem skömmu fyrir birtingu ársreiknings eða milliuppgjörs eða skömmu fyrir tilkynningu um mikilvægar ákvarðanir eða atvik sem varða útgefanda verðbréfanna.``

Ég veit að hv. þm. á eftir að tala aftur og mun þá eflaust kvarta ef henni líkar ekki eða að ég hafi ekki brugðist við öllu því sem hún kom hér fram með.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon talaði um innherjaskrárnar og taldi að staða fjármálastofnana væri ekki skilgreind nægilega vel. Ég tek undir að hér er ekki tæmandi listi heldur er miklu frekar verið að reyna að búa til ramma umhverfis þessi viðskipti, eins og ég hef áður komið inn á. Til að bregðast við því dæmi sem hv. þm. nefndi tel ég að í slíku tilfelli sé bankinn sjálfur ekki innherji heldur verði það að metast hverju sinni hvort starfsmenn bankans teljast vera það. Þetta er alveg í samræmi við þær reglur sem settar hafa verið á öðrum Norðurlöndum og það þarf að skilgreina, og reynt er að gera það, hvað eru trúnaðarupplýsingar. Það getur líka verið mismunandi milli fyrirtækja hverjir hafa yfir að ráða þeim upplýsingum sem teljast trúnaðarupplýsingar. Það er því ekki þannig að hægt sé að setja niður á blað einhverja nákvæma útfærslu á öllum tilvikum sem kunna að koma upp í þessum viðskiptum heldur þarf einungis að fjalla um þetta á breiðum grundvelli og síðan er það fyrirtækjanna að standa sig á þessu sviði til þess að þau skapi sér traust og viðskipti.

[15:15]

Varðandi dæmi sem hv. þm. nefndi þá vil ég vitna til bls. 69 í frv., í grg. þar sem stendur með leyfi forseta:

,,Stjórnarmenn, forstjóri, framkvæmdastjórar, forstöðumenn, deildarstjórar og starfsmenn deilda, sem hafa beinan aðgang að trúnaðarupplýsingum, svo sem upplýsingum um fjárhagsstöðu og mikilvægum upplýsingum um rekstur og rekstraráætlanir og meiri háttar samningsgerð á vegum félagsins, ritarar stjórnar, forstjóra og framkvæmdastjóra, framkvæmdastjórar dótturfélaga, félagið sjálft, verðbréfafyrirtæki sem annast markaðssetningu á viðskiptabréfum félagsins, bankar, ráðgjafar, endurskoðendur, lögmenn, rekstrarráðgjafar og aðrir sem stöðu sinnar vegna geta haft aðgang að trúnaðarupplýsingum.``

Þetta er nú engin smáupptalning. Eins og ég hef komið að áður þá geta allir þessir aðilar búið yfir trúnaðarupplýsingum. Það fer eftir hverju tilviki um sig hvort svo reynist vera eða ekki.

Ég ætla ekki að segja meira að sinni en hugsa mér að bregðast síðar við fleiru sem fram kom í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur.