Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 16:22:35 (2027)

2000-11-21 16:22:35# 126. lþ. 28.6 fundur 232. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (álagningarstofnar) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[16:22]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Um BIS-reglurnar vil ég segja að það er ekki æskilegt að við Íslendingar séum með sérstakar reglur hér. Við erum í opnu hagkerfi og við erum í Evrópska efnahagssvæðinu. Það er frjálst flæði fjármagns. Ég held að við hljótum að leggja áherslu á að markaðurinn hér sé í fullu samræmi við það sem tíðkast í þeim löndum sem við berum okkur saman við og eigum hvað mest viðskipti við.

Eins og ég lét koma fram þá er fylgst mjög grannt með því sem er að gerast á alþjóðavísu á þessu sviði og við viljum ekki vera eftirbátar annarra. Við viljum standa okkur og hafa okkar reglur í fullu samræmi við það sem almennt tíðkast. Ég held því að við hljótum að geta verið sammála um að við eigum ekki að fara út í það hér að hafa aðrar reglur en almennt tíðkast.

Annað sem hv. þm. nefndi er í sjálfu sér hægt að taka undir. Við erum sammála í þessu máli, heyrist mér, að efla Fjármálaeftirlitið og teljum hlutverk þess mikilvægt og það verður enn mikilvægara eftir því sem markaðurinn eflist. Ég hafði brugðist við þeim spurningum sem hún setti fram í sambandi við þau mál sem eru óútkljáð. Ég get ekki svarað því frekar.