Greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 16:24:22 (2028)

2000-11-21 16:24:22# 126. lþ. 28.6 fundur 232. mál: #A greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi# (álagningarstofnar) frv., JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[16:24]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Við erum ekki alveg sammála um allt sem lýtur að því sem hér eru gerðar athugasemdir við af hálfu Fjármálaeftirlitsins. Ég tek undir og deili áhyggjum með Fjármálaeftirlitinu af eiginfjárhlutfalli og stöðu einstakra fjármálastofnana sem hæstv. ráðherra virðist ekki gera. Hæstv. ráðherra virðist frekar vilja horfa á þau sjónarmið að reglur okkar um eiginfjárhlutfall séu í samræmi við það sem gerist í alþjóðlegu umhverfi og á erlendum vettvangi, frekar en að horfa á áhættuna og þá öryggi viðskiptavinanna varðandi það að eiginfjárhlutfall sé innan þeirra marka sem eðlilegt er miðað við áhættu. Það er einmitt áhættustýringin sem Fjármálaeftirlitið hefur verið að skoða. Þeir hafa því greinilega áhyggjur af stöðu ýmissa fjármálastofnana og að staða eiginfjár þessara stofnana sé ekki sem skyldi. Ef við, vegna aðstæðna á okkar markaði, þurfum að hafa annað eiginfjárhlutfall eða jafnvel mismunandi eftir stofnunum eins og mig minnir að Fjármálaeftirlitið hafi lagt til, þá eigum við að fara eftir því.

Fjármálaeftirlitið er sjálfstæð stofnun og hæstv. ráðherra er ávallt að undirstrika það. Fjármálaeftirlitið kallar á að þessu eiginfjárhlutfalli verði breytt og mér finnst að hæstv. ráðherrann eigi þá að virða sjálfstæði þessarar stofnunar og taka undir með henni ef það þarf að breyta eiginfjárhlutfallinu.

Hæstv. ráðherra segir að hún vilji ekki blanda sér í starfsemi stofnunarinnar þegar verið er að tala um meint brot á ákvæðum um innherjaviðskipti. Ég skil það vel. En mér finnst að hæstv. ráðherra eigi a.m.k. að fylgjast með starfi eftirlitsins þó hún blandi sér ekki í starfsemina sem ég er alveg sammála um að hún á ekki að gera.