Ábyrgðarmenn

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 16:57:46 (2031)

2000-11-21 16:57:46# 126. lþ. 28.7 fundur 160. mál: #A ábyrgðarmenn# frv., Flm. LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[16:57]

Flm. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. fyrir athugasemdir sínar, en vil þó nefna í fyrsta lagi að þær reglur sem hæstv. viðskrh. vísaði til eru á engan hátt bindandi, þ.e. sá samningur sem gerður var, og einn af þeim aðilum sem gerði þann samning voru Neytendasamtökin og þau hafa lagst eindregið á þá sveif að nauðsynlegt sé að lögfesta reglur.

Í öðru lagi vil ég líka benda á af því að hæstv. ráðherra vísaði til Norðurlandanna, að það ástand sem hér er þekkist hvergi, hvergi nokkurs staðar á byggðu bóli. Og í þeirri skýrslu sem unnin var í viðskrn. fyrir nokkrum árum kemur fram að sú þjóð sem er kannski næst á eftir okkur er með sjöunda part af sjálfskuldarábyrgð miðað við það sem við erum með. Það er því mjög erfitt að bera okkur saman við þessar þjóðir. En það breytir ekki því að nú nýverið, á vordögum lögfestu Norðmenn þær reglur að banna sjálfskuldarábyrgðir þrátt fyrir að ástandið þar væri ekki í neinu samræmi við það sem hér tíðkast.

Ég verð því að segja að það veldur mér a.m.k. fyrst um sinn talsverðum vonbrigðum að hæstv. viðskrh. hafi lýst því yfir að hún sé ekki tilbúin til þess á þessari stundu að lýsa því yfir að hún styðji það að frv. verði að lögum, en tók þó hins vegar fram að ef umsagnir og annað slíkt eru á þann veg að mælt sé með því að frv. verði að lögum, þá sé hún tilbúin að endurskoða afstöðu sína og ég a.m.k. held í þá von á meðan hún er enn við lýði.