Ábyrgðarmenn

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 17:19:50 (2035)

2000-11-21 17:19:50# 126. lþ. 28.7 fundur 160. mál: #A ábyrgðarmenn# frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[17:19]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Péturs H. Blöndals um það að þetta mál verði afgreitt fyrir áramót og að efh.- og viðskn. fjalli fljótt og vel um málið. Ég á sæti í efh.- og viðskn. og mun sannarlega reyna að stuðla að því að svo verði.

Ég held að tölurnar, sem segja okkur að allt að 90.000 einstaklingar yfir 18 ára aldri séu í ábyrgð fyrir fjárskuldbindingum þriðja aðila, segi okkur allt sem segja þarf um nauðsyn þess að þetta frv. verði samþykkt. Það væri nokkuð fróðlegt að vita, ég spyr því hv. 1. flm. sem á allar þakkir skildar fyrir að hafa forustu í þessu máli á sl. fjórum árum, hvort til séu einhverjar tölur um hve oft ábyrgðir hafa fallið á þriðja aðila. Það er ekki ofsögum sagt þegar hv. þm. Pétur Blöndal segir að á bak við ábyrgðir sem hafa fallið er í fjölda tilvika um mannlega harmleiki að ræða. Ég hugsa að flestir hér inni geti sagt sögur af því að ábyrgðir hafi fallið á fólk sem ekkert hefur til unnið nema skrifa upp á ábyrgð fyrir fjölskyldumeðlim, vin eða kunningja, og standa svo uppi sem öreigi á eftir. Sumir hafa misst allt ævistarf sitt með þessari undirskrift. Það er auðvitað réttlætis- og sanngirnismál að þingið taki á þessu máli, þó fyrr hefði verið. Ég hygg að við séum hér að fjalla um eitt af stærstu réttlætismálum sem þetta þing fjallar um nú.

Ég verð að segja, herra forseti, að orð hæstv. viðskrh. áðan ollu mér nokkrum vonbrigðum. Ég hafði satt að segja vænst þess að þegar um er að ræða mál sem flutt er af þingmönnum úr öllum flokkum, undir forustu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar, þá hefði náðst breið samstaða í þinginu. Það lægi í loftinu að þetta þingmál yrði samþykkt hér á næstu vikum. Orð hæstv. viðskrh. vöktu ekki þær vonir í mínu brjósti þegar hún kvaddi sér hér hljóðs.

En ég ætla ekki að hafa stór orð um það. Ég vil að við náum sáttum í þessu máli og að viðskrh. beiti sér eins og við öll til þess að þessi löggjöf verði sett. Ég mun stuðla að því í þeirri vinnu sem fram fer í efh.- og viðskn. um þetta mál.

Hæstv. ráðherra sagði raunverulega allt sem segja þarf um þetta mál, fyrir utan þær tölulegu upplýsingar sem hér hafa verið bornar fram, að viðleitni hæstv. fyrrv. viðskrh. hefði mistekist. Mistekist hefði að ná samkomulagi við bankana í samráði við Neytendasamtökin um að koma skikk á þessi mál. Þetta hefur allt verið í skötulíki og bankarnir hafa fyrst og fremst hugsað um eigin hag. Þeir hafa hugsað um hvernig þeir geta tryggt hag sinn með því að láta ábyrgðarmenn skrifa upp á en eru ekki að velta fyrir sér greiðslugetu þeirra sem taka lánin. Það er auðvitað eftir öðru að í öllum þeim jákvæðu umsögnum sem fram hafa komið í þessu máli skuli viðskiptabankarnir sem draga lappirnar, þrjóskast við og mótmæla lögfestingu á þeim reglum sem hér eru lagðar til.

Það er auðvitað grundvallaratriði í þessu frv. að ekki verði gerð aðför í fasteign sem ábyrgðarmaður býr í. Það er grundvallaratriði að ekki sé hægt að ganga að fasteign hjá ábyrgðarmanni eins og þetta frv. kveður á um.

Fyrir nokkrum árum flutti ég þáltill. um aðgerðir til að bæta stöðu skuldara. Hún var í sex liðum. Einn liður þar var að settar yrðu reglur sem tryggðu betur réttarstöðu ábyrgðarmanna. Þar var einmitt tekið fram, sem ég held að sé alveg örugglega rétt þó vera megi að það hafi breyst á síðustu missirum, að dómskerfið hafi í auknum mæli færst í þá átt að þjóna hagsmunum kröfuhafa. Þess vegna er það auðvitað skylda þingsins, skylda Alþingis, að standa vörð um hagsmuni ábyrgðarmanna.

Í þáltill. sem ég flutti á sínum tíma segir að gera verði þær kröfur að þeir sem lána fé í ágóðaskyni beri nokkra ábyrgð á þeirri ákvörðun sinni og tryggja verði með lögum vernd fyrir ábyrgðarmenn þar sem kveðið verður á um ríka upplýsingaskyldu lánveitenda um gildi ábyrgðar og um efni samnings. Það hefur bara alls ekki verið gert og það er örugglega rétt sem hér kemur fram, að minni áhersla hafi verið lögð á að lánveitandi láti fara fram faglegt mat á greiðslugetu lántakanda, eins og skýrslan sem gerð var um þetta efni bar vitni um.

Í áðurnefndri þáltill. voru tekin raunveruleg dæmi úr hinu daglega lífi, m.a. um eina litla kröfu sem féll á ábyrgðarmann, þar sem einungis var um að ræða eins árs gömul vanskil. Höfuðstólinn var ekki nema 40.000 en hafði á þessum tíma hækkað um 166% með öllum lögfræðikostnaði, innheimtutilraunum og öðru sem því máli fylgdi. Við getum ímyndað okkur hvað það þýðir ef um stærri fjárhæðir er að ræða eins og iðulega er þegar ábyrgðarmenn skrifa undir slíkar skuldbindingar.

Ég vil taka undir það sem komið hefur fram hjá flm. og fylgir í grg. með þessu frv., að samfélagsleg vandamál vegna sundraðra heimila vega þyngra en hagsmunir einstakra kröfuhafa af því að geta leitað efnda á kröfu með því að selja hús ofan af skuldurum. Undir það hljóta allir að geta tekið heils hugar.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að fjalla nánar um þetta mál vegna þess að þeir sem hér hafa talað, ekki síst 1. flm. þessa máls, hafa gert þessu máli rækileg skil og farið yfir rökin fyrir því. Rökin eru svo augljós í því efni að Alþingi ætti að sameinast um að samþykkja loks þetta frv. til laga um ábyrgðarmenn.

Undir lokin vil ég bara segja að ég vona sannarlega að þetta frv. nái fram að ganga og efh.- og viðskn. gefi sér tíma til að fjalla um þetta mál. Allar umsagnir liggja fyrir í þessu máli og mikil vinna hefur verið lögð í málið, bæði af hálfu flm. og nefndarinnar sem um þetta mál hefur fjallað á undanförnum þingum. Þannig ætti ekki neitt að vera því til fyrirstöðu að samþykkja það.

Ég vil líka geta þess, herra forseti, að ég mundi vilja sjá tvö önnur mál verða að lögum hér á næstu missirum. Það er frv. sem ég hef lengi barist fyrir, frv. um greiðsluaðlögum. Þar er um að ræða úrræði sem skuldugum einstaklingum stendur til boða þegar þeir lenda í miklum vanskilum og ekki sést fram úr vandanum nema með slíkri leið, þ.e. greiðsluaðlögun. Sú leið var farin í Noregi og hefur reynst mjög vel en rökin með þessu úrræði, greiðsluaðlögun, eru þau að tryggð verði greiðsla til kröfuhafa meðan enn eru til verðmæti svo að koma megi í veg fyrir þjóðfélagslegt tjón sem leiðir af fjöldagjaldþrotum einstaklinga. Um þetta hefur legið fyrir frv. í nokkur ár og ég veit að stjórnarandstaðan er sammála þeim leiðum sem þar eru lagðar til. Þegar allar leiðir hafa verið reyndar varðandi heimili sem eru mjög skuldug þá hefur þessi greiðsluaðlögun reynst þannig þar sem henni hefur verið komið á, að hún hefur bjargað heimilum frá gjaldþroti. Ég tel að það sé meiri hluti fyrir því máli hér á þingi, enda fór Framsfl. með það mál inn í þarsíðustu kosningar.

[17:30]

Ég vil líka nefna annað mál, þ.e. opinbera réttaraðstoð. Ég tel að kanna þurfi hvort koma eigi á fót opinberri réttaraðstoð til að veita almenningi ráðgjöf á sviði lögfræði til að tryggja að réttindi einstaklinga glatist ekki sökum lítilla efna. Þetta er mál sem annað slagið hefur komið til umræðu hér á þingi en ekki náðst samstaða um. Eftir að við höfum samþykkt það mikilvæga frv. sem hér liggur fyrir þá finnst mér að þingið eigi að vinda sér í að skoða þau tvö mál sem ég hef nefnt hér, þ.e. frv. um greiðsluaðlögun fyrir skuldug heimili og frv. um opinbera réttaraðstoð, sem tryggi þeim lögfræðilega ráðgjöf sem búa við lítil efni.

Herra forseti. Ég treysti því að þingið beri gæfu til þess að samþykkja það frv. sem við fjöllum hér um, að hv. efh.- og viðskn. taki myndarlega á þessu máli og afgreiði það hratt og vel fyrir jólaleyfi þingmanna.