Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 18:37:56 (2042)

2000-11-21 18:37:56# 126. lþ. 28.3 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[18:37]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég vildi gjarnan koma inn á tvö atriði í ræðu hv. þm. Það gladdi mig töluvert mikið að heyra hann taka undir sjónarmið um flatan tekjuskatt. Ég hef lagt í tvígang fram frv. á Alþingi um 20% flatan tekjuskatt sem ég held að yrði mjög til bóta þar sem margt einfaldaðist mjög, t.d. yrði ekkert framtal lengur. Það þyrfti ekki og þjóðin sparaði sér tvo daga á ári og gæti farið að sinna börnunum sínum eða eitthvað slíkt í staðinn.

Hv. þm. kom aftur inn á það sem var aftur og aftur rætt í umræðunni fyrir fjórum árum, þ.e. að stofna hlutafélag til að losna við skatta. Við skulum segja að einhver maður hafi 100 kr. í tekjur og hann stofni hlutafélag sem er þá með 100 kr. hagnað. Hlutafélagið borgar 30 kr. í skatt af hagnaðinum. Þá er 30 kall farinn. Síðan borgar maðurinn sér 70 kr. út sem arð og þá er 10% skattur af því sjö kr. 37% greiðir hann þá með þeirri aðferð í staðinn fyrir 38. Ég held að það borgi sig ekki ef maður lítur til endurskoðunarkostnaðar og alls slíks. Það sem aftur á móti ruglar dæmið eru alls konar tekjutengdar bætur eins og barnabætur sem minnka ekki --- ef maðurinn á þrjú börn þá minnka þær ella um 11%, vaxtabætur 6,% --- og þvílík atriði gera það að verkum að þetta geti verið snjallt. Svo ætla ég að vona að hv. þm. sé ekki að tala um að menn stundi skattsvik með því að láta fyrirtækið borga ísskápinn heima hjá þeim.