Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 18:42:55 (2045)

2000-11-21 18:42:55# 126. lþ. 28.3 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[18:42]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Þetta er orðin nokkuð löng umræða og margt hefur komið fram í henni sem hefði verið ástæða til þess að fara yfir. Ég vil, þrátt fyrir að ýmsir hafi farið yfir þann hluta málsins, nefna það sem ég tel vera aðalatriði þess og byrja á því að vitna í athugasemdir við frv. vegna þess að mér finnst ástæða til þess að fjalla um það sem þar stendur í samhengi við þá tillögu sem kemur fram í frv. um að taka af þessa möguleika til að fresta söluhagnaði hjá einkaaðilum.

Í greinargerðinni eða athugasemdunum stendur að sífellt fleiri virðist telja hagstæðara að ávaxta fé í hlutafélögum sem eru annars staðar en á Íslandi vegna hagstæðari skattareglna og í ýmsum tilvikum í skjóli bankaleyndar og að leiða megi að því líkur að í mörgum tilvikum falli skattlagningin jafnvel niður vegna skorts á upplýsingum.

Þetta tvennt, frestun skattgreiðslna og hagstætt skattaumhverfi, eru án efa helstu ástæður þess að stærri fjárfestar --- ég vek athygli á því --- stærri fjárfestar hafa kosið að stofna eigin hlutafélag erlendis. Og síðan kemur framhaldið sem mér finnst ekki stemma alveg við það sem kemur á undan, með leyfi forseta:

,,Þannig má halda því fram að í gildandi reglum felist ákveðin hvatning fyrir einstaklinga`` --- þarna hætta menn að tala um einstaklinga og félög en fara að tala eingöngu um einstaklinga --- ,,til þess að fjárfesta í félögum erlendis fremur en hér á landi. Íslenskir fjárfestar hafa því getað takmarkað skatta sína með því að greiða sér arð frá hinu erlenda félagi ...``

Svo kemur í framhaldinu, með leyfi hæstv. forseta:

[18:45]

,,Af framansögðu má álykta að gildandi ákvæði um skattalega meðferð á söluhagnaði hafi aðeins að hluta til náð tilgangi sínum um eflingu íslensks atvinnulífs ...`` Niðurstaðan er sú að leggja til að heimild til frestunar á söluhagnaði hlutabréfa verði afnumin hjá einstaklingum. Þá hlýtur maður líka að velta því fyrir sér, það hefur komið fram við umræðuna, að hér sé líkast til um að ræða um 155 milljarða sem flust hafa úr landi eftir að þessar breytingar voru gerðar. Það hefur líka komið fram að lífeyrissjóðirnir muni eiga um 120 af þeim 155 milljörðum. Það séu þá 35 milljarðar sem eftir eru sem skiptast á milli einstaklinga og félaga. Hins vegar hefur hvergi komið fram hvernig þessi skipting er þannig að ómögulegt er að átta sig á því. Ég bið hæstv. ráðherra að upplýsa það fyrir lok umræðunnar hvort hann telji að hann sé með þessari tillögu að ná til stórs hluta af þeim 35 milljörðum sem þarna standa út af og eru ekki í eigu lífeyrissjóðanna, eða til hvers er þetta allt saman?

Það hefur líka komið fram að ekki minni fræðingar á þessu sviði en Magnús Guðmundsson, bankastjóri Kaupþings í Lúxemborg, segir að þessi tillaga muni ekki hafa nein áhrif. Fyrir hverja er þá þessi breyting? Hverju breytir hún? Jú, hún breytir því að þeir sem hafa meiri hagnað til að telja fram en 3,2 millj. eða 6,4 millj. þurfa ekki að borga nema 10% af þessu. Það er breytingin. Er það þá það sem verið er að sækjast eftir eða það sem er sagt að sé raunverulega ástæðan, þ.e. að peningunum verði haldið innan lands og mun það þá takast? Ég er ekki spámaður og get ekki spáð fullkomlega um það. Ég er hins vegar einn af þeim sem vilja taka undir það að ekki er vansalaust að slíkt ójafnræði sé milli aðila hér á landi eins og verður til við ákvörðun skatta. Ekki er viðunandi að uppruni tekna sé skattlagður á eins mismunandi hátt og gert er í dag. Ég tel að horfa eigi yfir allt skattaumhverfið og ég er tilbúinn að velta því fyrir mér hvort eignarskattar eigi að halda áfram. Ég tel hins vegar að með eignatekjur eigi að fara eins og aðrar tekjur. Ég tel að söluhagnaður sé ekkert heilagri en launatekjur. Ég tel að tekjuskattur, fjármagnstekjur og arður af rekstri eigi allt að hafa svipað vægi þegar menn eru að velta því fyrir sér hvaða skatt eigi að leggja á. Ég held að það skekki oft myndina töluvert þegar menn hafa svo mismunandi skattform sem stýra líka fólki í hinu daglega lífi. Menn leita að leiðum til að vera undir þeim skattaákvæðum að skila þeim lægstu álögunum. Auðvitað leita menn eftir því að gera hlutina þannig að þeir þurfi ekki að færa miklar greiðslur til ríkisins.

Ég held að hæstv. fjmrh. ætti líka að leita leiða til þess að gefa skattyfirvöldum betri vopn til að ná til hinna raunverulegu tekna. Greinilegt er að þau vopn eru ekki nægilega góð vegna þess að við sjáum alltaf einhverja spretta upp í þjóðfélaginu sem hafa hagnast mikið á stuttum tíma. Þeir virðast aldrei hafa haft neinar tekjur. Það virðist a.m.k. ekki koma fram sem greiðsla hagnaðar eða tekna mörgum árum á undan. Menn sjá kannski allt í einu einhvern vera orðinn einn af auðmönnum landsins án þess að hann hafi nokkurn tíma komist á skrá eða hans fyrirtæki sem greiðandi skatta til ríkisins. Þarna vantar eitthvað í kerfi okkar.

Ég ætla ekki að hafa það mjög langt sem ég ætla að segja hér. Ég vil hins vegar vekja athygli á því, eða ég gat a.m.k. ekki skilið það öðruvísi í þeirri umræðu sem fór fram á undan um það frv. sem samfylkingarfólk flutti og hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir er 1. flm. að, í umfjöllun um það kom fram, eftir því sem ég skildi, að hæstv. fjmrh. teldi að þar væri lagt til að þakið á þennan skatt yrði tekið af. En það er alls ekki í tillögu Samfylkingarinnar. Í henni er gert ráð fyrir því að hagnaður verði skattlagður áfram með sama hætti þangað til kemur upp fyrir 6,4 millj. hjá hjónum.

Ég vil að lokum segja að ég held að full ástæða sé til þess, og það hefur komið fram hjá fjölmörgum sem hér hafa talað, og ég tel að það sé mjög mikill stuðningur við það meðal hv. þm. á Alþingi, að farið verði yfir þessi mál með samræmingu í huga og það að aðalmarkmiði að einhvers konar jafnræði í skattlagningu komist á. Ég hef þá trú að einhvern tíma í framtíðinni sjáist skattkerfi þar sem grunnurinn að bæði sköttum og bótum og þeim breytingum sem ríkið vill gera til þess að koma til móts við einstaklingana sé í skattkerfinu. Hann verði einfaldaður en komi ekki inn með fjölmörgum skattalegum og bótalegum ákvæðum eins og núna þannig að enginn skilur upp né niður í því hvar hann stendur eða a.m.k. ekki venjulegt fólk í landinu. Ég held að hægt sé að einfalda þetta ákaflega mikið og skattkerfið eigi að spila þar mjög stóra rullu. Það eru líka skattar í gangi hér á landi eins og stimpilgjöld, sem hefur ítrekað verið nefnt í umræðunni, sem hafa ekki raunverulega stoð í neinum skattalegum rökum. Ég tel að ástæða sé til þess að koma þeim skatti af ekki síður en ýmsum öðrum sköttum sem hafa verið lagðir af á undanförnum árum. Ég hvet hæstv. fjmrh. til þess að láta til skarar skríða og fara í allsherjarendurskoðun á þessum skattamálum öllum saman. Ástæða er til að hvetja hann til þess því að ekki er að sjá að neitt slíkt sé á döfinni, a.m.k. hafa ekki verið yfirlýsingar um það.