Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 20:00:06 (2055)

2000-11-21 20:00:06# 126. lþ. 28.3 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[20:00]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Áðan reyndi hæstv. fjmrh. að gera okkur grein fyrir þeim mun sem væri í þessum efnum á lögaðila og einstaklingum hvað varðaði frestun á skattgreiðslum. Munurinn var sá að með því að leyfa lögaðilum að hafa þennan rétt væri verið að gefa þeim svigrúm til breytinga án þess að til skatts kæmi, eins og hann orðaði það, að fjárfesta á nýjan leik.

Herra forseti. Er það ekki nákvæmlega það sem einstaklingunum hefur verið gert heimilt að gera? Er nokkur munur þarna á nema einstaklingarnir þurfa að fjárfesta í öðrum hlutabréfum nú eða félögum auðvitað? Ég sé ekki muninn og hæstv. ráðherra þarf að útskýra hann mun betur til þess að það sé skiljanlegt af hverju hann kýs að afnema þessa reglu eingöngu fyrir einstaklinga en ekki fyrir lögaðila. Helst var á honum að skilja að einstaklingar gætu komist upp með það vegna þessarar frestunar að nýta það fjármagn sem þeir greiddu ekki skatta af til neyslu eða til annarrar ráðstöfunar en það er ekki samkvæmt lögunum eins og hæstv. ráðherra veit, menn verða að fjárfesta aftur.

Af því að hann segir að núgildandi regla hlunnfari ríkissjóð væri líka áhugavert að fá fram hjá honum viðhorf gagnvart því sem ég vitnaði í hér áðan þar sem hv. þm. Vilhjálmur Egilsson bendir á í viðtali við Morgunblaðið sl. laugardag að einstaklingar muni stofna eignarhaldsfélög, þeir sem hafi einhverja peninga fram að leggja muni stofna eignarhaldsfélög og undir þeim hatti endurfjárfesta síðan annaðhvort hér eða þá aðallega erlendis, vill þingmaðurinn meina, vegna eignarskattanna. Telur hæstv. fjmrh. að ekkert sé með þessa skoðun hv. þm. að gera eða er hv. þm. að hans mati á villigötum hvað þetta varðar?