Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 20:02:16 (2056)

2000-11-21 20:02:16# 126. lþ. 28.3 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[20:02]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson er ekki á neinum villigötum í sjálfu sér. Hann vill ganga lengra en svigrúm er til í augnablikinu til að koma til móts við þarfir og óskir atvinnulífsins og fyrirtækjanna. Hann er efins um að sú breyting sem ég hef lagt til gangi nógu langt í þeim efnum. Ég efast hins vegar um að hann væri samþykkur tillögu Samfylkingarinnar um að láta þetta ná líka yfir lögaðilana en annars er best að hann svari því sjálfur þegar kemur að störfum í þingnefndinni.

Að því er varðar lögaðilana mega menn heldur ekki gleyma því að lögaðilar borga ekki fjármagnstekjuskatt eins og einstaklingar, þeir borga bara sinn venjulega tekjuskatt sem er núna 30% og þarf reyndar að lækka ef við ætlum að halda áfram að vera með samkeppnishæft atvinnulíf og skattumhverfi. Það er eitt af því sem þarf að breyta en það er ekki sami munurinn þar á fjármagnstekjuskatti og almennum tekjuskatti vegna þess að það er sama prósentan. Þar er því ekki um að ræða sams konar áhrif og verið hafa gagnvart einstaklingum sem hafa verið að flýja háu skattprósentuna og koma sér ekki bara niður í 10% heldur niður í núll sem er það sem hefur gerst. Það er eðlilegt að fyrirtækin geti hagnýtt sér þetta. Hvort einstaklingar muni síðan fara að búa sér til einhver fyrirtæki óeðlilega get ég ekkert fullyrt um. En ef sú verður raunin þurfum við að skoða það sérstaklega, er það ekki?