Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 20:09:15 (2060)

2000-11-21 20:09:15# 126. lþ. 28.3 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[20:09]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. vék að ýmsu í andsvari sínu. Ég er ekki viss um að ég muni öll þau atriði en við erum greinilega ekki sammála um skýringarnar eða ástæðurnar fyrir greinarmuninum sem er gerður á lögaðilum og einstaklingum. Látum það kyrrt liggja.

Það var mjög athyglisvert að fram kom hjá hv. þm. að hann er þá einn þeirra sem hafa talað um þessi mál í dag og eru andvígir ýmsum umbótum sem mönnum hefur orðið tíðrætt um að því er varðar skattalegt umhverfi fyrirtækja. Hann er andvígur því að lækka eignarskattinn, lækka stimpilgjöldin og ýmislegt fleira. Það er gott að það komi fram. Ég er ekki að gera lítið úr skoðun hans en miðað við þann samhljóm sem hefur verið í ræðumönnum, sérstaklega frá Samfylkingunni, um þessi atriði í dag stingur þetta óneitanlega nokkuð í stúf.

Að því er varðar síðan viðleitni fyrirtækja, banka og annarra til að koma sér upp starfsstöðvum í útlöndum og keppa á þeim alþjóðlega markaði sem er ríkjandi þá sé ég í grundvallaratriðum ekkert athugavert við það, ekki neitt. Bankarnir og fjármálafyrirtækin hafa verið að koma sér upp skrifstofum og útibúum og aðstöðu bæði austan hafs og vestan. Ég tel að það sé bara eðlileg þróun og mjög jákvæð að opna þessa glugga út á við, hvað sem má síðan segja um alþjóðleg skattaskjól sem starfrækt hafa verið að öðru leyti. Ég er ekki talsmaður slíkra fyrirbæra eða slíkra lögsagnarumdæma sem starfa eingöngu í skjóli þess að geta laðað til sín peninga á grundvelli lágra skatta. En það er allt annað mál en við erum að tala um hér.