Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 20:11:25 (2061)

2000-11-21 20:11:25# 126. lþ. 28.3 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[20:11]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ekkert annað mál. Við erum að tala um áherslur íslensku ríkisstjórnarinnar í skattamálum. Við vitum hverjar þær hafa verið á umliðnum árum. Þær hafa gengið út á að hygla fjármagnseigendum og stórfyrirtækjum á kostnað almennings. Á sama tíma og verið er að fella niður skatta á fyrirtæki og fjármagnseigendur eða draga stórlega úr þeim eru auknar skattaálögur á almenning, ekki bara útsvarið heldur margvísleg notendagjöld, inni í skólakerfinu, inni í heilbrigðiskerfinu, og dregið úr stuðningi við aldraða og öryrkja. Ég er að segja að það er ekki forgangsverkefni á Íslandi að draga enn úr skattbyrði fyrirtækja og fjármagnseigenda. Forgangsverkefni á Íslandi er að styrkja stöðu almenns launafólks og styrkja stoðir velferðarþjónustunnar í landinu.