Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 20:13:42 (2063)

2000-11-21 20:13:42# 126. lþ. 28.3 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[20:13]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. fjmrh. talaði áðan um þá 13 milljarða sem hefði verið frestað eins og ríkissjóður hefði þar með misst gjörsamlega af þeim 10% sem þarna væru á ferðinni. Í staðinn hefði gróði ríkissjóðs verið fólginn í því ef þessi breyting hefði orðið að ná þá þessum 10% inn í ríkissjóð. Ég spyr: Er það virkilega skoðun hæstv. ráðherra að þessir peningar séu glataðir? Þó að menn hafi frestað því samkvæmt lögum að telja þetta fram að þá sé það bara glatað fé? Hvernig stendur þá á því, hvaða útskýring er á því að ekki er hægt að ná þessum fjármunum inn?

Síðan langaði mig til að ítreka spurningu sem ég bar fram fyrr í dag: Hve stór hluti af þeim 35 milljörðum, sem taldir eru vera erlendis samanlagt í eigu fyrirtækja og einstaklinga, er eign einstaklinga? Hvað telja menn að þeir séu að hafa upp úr krafsinu með því að gera þær breytingar sem hér er verið að leggja til? Eða vita menn nákvæmlega ekki neitt um það?

[20:15]

Síðan vil ég mótmæla því sem hæstv. ráðherra talaði um í sambandi við fyrirtækjastofnanir. Hann talaði um það að menn stofnuðu til fyrirtækja, einhvers konar einkahlutafélaga, með óeðlilegum hætti. Ég tel að það sé engin ástæða til þess að tala um stofnun hlutafélaga á þennan hátt. Það er viðurkennt að menn geta rekið hlutafélög þó að starfsemin sé lítil og að um sé að ræða hin smæstu fyrirtæki. Ég tel það bara vera atvinnurekstur ef menn eru að velta miklum fjármunum, hvort sem það heitir í hlutabréfum eða einhverjum öðrum eignum. Það er ekkert athugavert við það þó að menn stofni félag um slíkt. Þeir geta ætlað sér enn þá stærri hlut í framtíðinni og við því er ekkert að segja og menn munu heldur ekkert geta við því gert.