Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 20:15:53 (2064)

2000-11-21 20:15:53# 126. lþ. 28.3 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv., fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[20:15]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Nú verð ég að segja, að ég er hissa, herra forseti, því að hv. þm. hefur algerlega snúið því við sem ég sagði. Ég sagði einmitt að það væri nákvæmlega ekkert athugavert við það að einyrkjar og aðrir væru að stofna einkahlutafélög. Það eru þvert á móti ýmsir aðrir aðilar hér í pólitíkinni sem hafa verið að gera slíkt tortryggilegt og gera því skóna að með því að stofna slík félög væru menn eingöngu að reyna að koma sér undan sköttum eða vinna nánast einhver myrkraverk þannig að þetta er alveg út í hött, hv. þm.

Að því er varðar síðan fyrstu spurninguna um 13 milljarðana og skatttekjur ríkissjóðs þá veit ég náttúrlega ekkert um það hvort þessir peningar skila sér einhvern tíma seinna til landsins eða sem skattur í ríkissjóð. En lögin eru þannig núna að það er hægt að fresta þessu út í hið óendanlega. Það er vandamálið og við tökum á því með því að skattleggja þetta strax um 10%. Ég segi fyrir mig að ég vil frekar hafa það í hendi heldur en að fá einhvern tíma eitthvert smáræði í skatt af þessum peningum eins og raun ber vitni nú í dag. Ég vil frekar fá 1.300 millj. af þessu strax heldur en þessar 80 sem kerfið gefur af sér núna fyrir hönd ríkissjóðs. Það segi ég fyrir hönd ríkissjóðs.

Síðan er spurningin um þessa 35 milljarða sem hv. þm. nefndi. Ég þekki ekki hvort sú tala er nákvæmlega rétt. Ég hef ekki upplýsingar um hvernig hún skiptist. Lífeyrissjóðirnir hafa verið mjög duglegir við að byggja upp eignir í útlöndum. Þeir nota til þess mjög mikið af gjaldeyri eins og kunnugt er. Það er allt gott og blessað með það. Það hafa líka aðrir getað gert, bæði á grundvelli þessara ákvæða en einnig bara almennt séð. Sú skipting liggur ekki ljós fyrir í mínum höndum en sjálfsagt getur þingmaðurinn og aðrir hér inni aflað sér þeirra upplýsinga með nákvæmari hætti en hægt er að svara við þetta tækifæri.