Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 20:17:55 (2065)

2000-11-21 20:17:55# 126. lþ. 28.3 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[20:17]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra talaði neikvætt um það í sinni ræðu, ég heyrði ekki betur, að það væri ekki gott ef menn stofnuðu til fyrirtækja með óeðlilegum hætti. Ég hef þá misskilið hann og ef svo er þá verð ég bara að taka því.

Hæstv. ráðherra segist ekkert vita í raun og veru eftir hverju hann er að seilast hvað varðar fjármuni sem hafa flust úr landi og það er náttúrlega ekki gott heldur vegna þess að hann hefði kannski aldrei haft þetta frv. svona ef hann hefði vitað eftir hverju hann var að sækjast.

Ég tel reyndar að þessi 10% hljóti að skila sér smám saman inn samkvæmt þeim ákvæðum sem eru í lögunum þó að menn geti frestað 10% á hverju ári og að ekki sé ástæða til að halda að menn komist upp í langan tíma með að sniðganga lögin. Ég spyr: Hefði ekki verið hægt að breyta þar ákvæðum til þess að tryggja að þetta kæmi einhvern veginn til baka til ríkissjóðs?