Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 20:54:48 (2067)

2000-11-21 20:54:48# 126. lþ. 28.8 fundur 242. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[20:54]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Mig langar til að spyrja hæstv. félmrh. aðeins út í ástæður fyrir því að réttindagæslufrv. er ekki til umræðu með þessu máli. Ég tók eftir því að alls staðar í grg. með þessu frv. er talað um þrjú fylgifrumvörp en þau eru aðeins tvö. Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra talaði um að það væri fyrir mistök. Ég vil fá skýringu á þessu og spyr hæstv. ráðherra hvort ekki hefði verið ástæða til þess að ræða þessi mál saman.

Síðan langar mig líka að spyrja hæstv. ráðherra þar sem það kemur fram í grg. með þessu frv. að samtök fatlaðra séu sammála yfirfærslunni. Þar eru nefnd bæði Þroskahjálp og Öryrkjabandalag Íslands að þá veit ég að í upphafi umsagnar frá Öryrkjabandalaginu, sem barst í lok ágúst, segir:

,,Öryrkjabandalag Íslands hefur miklar og vaxandi efasemdir um réttmæti þess að flytja málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Öryrkjabandalag Íslands hvetur stjórnvöld því til að falla frá frumvarpi þar um.``

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur hann ekki verulegar áhyggjur af því þegar heildarsamtök fatlaðra, þar sem Öryrkjabandalag Íslands er, tekur svona afgerandi afstöðu á móti þessu frv.? Hefur hann ekki áhyggjur af því að það muni ganga erfiðlega ef þetta frv. á að ganga í gegn í andstöðu við heildarsamtök fatlaðra í landinu?