Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 21:01:37 (2071)

2000-11-21 21:01:37# 126. lþ. 28.8 fundur 242. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., ArnbS
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[21:01]

Arnbjörg Sveinsdóttir:

Hæstv. forseti. Á vorþinginu voru lögð fram þau frv. sem ætlað er að takast á við það verkefni að færa málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna. Þau eru nú aftur komin til umfjöllunar í hv. Alþingi. Frv. voru send út til umsagnar til hagsmunaaðila í sumar. Þær umsagnir sem bárust voru yfirfarnar og tekið var tillit til ýmissa þeirra atriða sem fram komu í umsögnunum í þeirri útgáfu sem nú hefur verið lögð fyrir Alþingi. Að öðru leyti mun félmn. vinna úr þeim umsögnum við yfirferð sína á frumvörpunum í vetur.

Það fer ekkert á milli mála að hér er um mikið verkefni að ræða. Þetta er yfirgripsmikill málaflokkur og ekki sjálfgefið að menn nái yfirsýn yfir hann á skömmum tíma. Því er það skoðun mín að nauðsynlegt hafi verið að gefa þennan tíma til umfjöllunar hjá hagsmunaaðilum. Umræðan hefur þá náð að þroskast betur. Fyrir mig, sem þó hef setið nokkuð lengi í sveitarstjórn og heilmikið fjallað um þennan málaflokk sem hér um ræðir, var það mikil lexía að sitja í laganefndinni sem samdi félagsþjónustufrv. Ég verð þó að segja að ég tel mig langt í frá vera fullnuma í þeim fræðum sem hér um ræðir.

Gert hefur verið ráð fyrir því allt frá gildistöku laganna um málefni fatlaðra frá 1991 að málefni fatlaðra færðust yfir til sveitarfélaganna. Eins hefur sá málaflokkur ávallt verið nefndur þegar talað hefur verið um yfirfærslu fleiri málefna til sveitarfélaganna. Sjálfri hefur mér orðið það æ betur ljóst eftir að hafa kynnt mér þennan málaflokk, að þjónusta við fatlaða á að vera og getur verið eðlilegur þáttur félagsþjónustu. Samþætting þjónustu við fatlaða inn í aðra opinbera þjónustu er mjög eðlileg og byggist á þeim jafnræðissjónarmiðum sem annars gilda í okkar nútímasamfélagi. Það er hins vegar augljóst mál að þeir sem eiga að veita þjónustuna verða að hafa til þess fjármagn og við yfirfærsluna verður augljóslega gert ráð fyrir því að sveitarfélögin fái til ráðstöfunar fjármagn með málaflokknum. Það hefur því verið hlutverk kostnaðarnefndar að komast að niðurstöðu um hversu mikið, hvernig og með hvaða hætti það fjármagn verður fært yfir til sveitarfélaganna.

Þær niðurstöður liggja nú fyrir í skýrsluformi eins og hæstv. félmrh. fór yfir hér áðan. Mín skoðun er sú að sveitarfélögin geti veitt betri og ódýrari þjónustu við fatlaða. Mikið af þeirri velferðarþjónustu sem sveitarfélögin veita nú þegar mun nýtast betur eftir þennan flutning heldur en raunin er nú.

Það er einnig augljóst mál að það tvöfalda kerfi sem nú er við lýði í þjónustu við fatlaða er neikvætt. Það hlýtur að vera erfitt fyrir hina fötluðu og aðstandendur þeirra að átta sig á þeim réttindum og þjónustu sem er fyrir hendi. Það getur ekki verið vilji okkar að byggja upp þannig kerfi að það sé einungis fyrir þá sem eru nógu klárir og nógu duglegir að verða sér úti um upplýsingar eftir afar torsóttum leiðum og að stundum verði það niðurstaðan að sú þjónusta sem í boði er sé þá sundurslitin og nái alls ekki að uppfylla þær þarfir sem fyrir hendi eru.

Einstakingsbundin félagsþjónusta á einum stað hlýtur að vera það sem við stefnum að. Það hlýtur einnig að skipta máli að sú þjónusta sé í nærumhverfi þess sem eftir henni leitar. Það er einnig eitt af grundvallarsjónarmiðunum í frv. sem gengið er út frá að forðast beri sérgreiningu þeirra sem njóta félagslegrar þjónustu.

Segja má að með nýrri húsnæðislöggjöf hafi verið stigið mikilvægt skref í átt að þessum sjónarmiðum með því að breyta félagslegri aðstoð við húsnæðisöflun þannig að hún er nú einstaklingsbundin en ekki bundin við ákveðna tegund húsnæðis. Þeir sem aðstoðar þurfa að njóta við húsnæðisöflun velja sér sjálfir þá íbúð sem þeir kjósa að búa í. En áður voru byggðar sérstakar íbúðir fyrir þá og þeir þannig sérgreindir.

Eins og við þekkjum hafa orðið til heilu hverfin, t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu, sem byggð voru í þessum tilgangi. Slík sérgreining er óheppileg og frá henni hefur verið horfið. Það er í samræmi við þessi viðhorf að nú verða stigin skref varðandi fatlaða.

Í frv. sem við fjöllum um hér er skerpt á skyldum sveitarfélaga til að veita íbúum sínum félagsþjónustu. Tilgangurinn er sá að félagsþjónusta verði jafnvíg annarri velferðarþjónustu, svo sem heilbrigðisþjónustu og menntakerfi. Virða ber sjálfstæði sveitarfélaga þannig að þau ákveði hvernig þau veita þjónustuna, en skylda þeirra til að veita þá þjónustu er ótvíræð.

Gengið hefur verið út frá því að hin siðferðislega undirstaða framkvæmdar félagsþjónustunnar verði að borin verði virðing fyrir þörfum einstaklingsins og sjónarmiðum hans. Það á við um fatlaða sem og aðra er þurfa á félagsþjónustu að halda að þjónustuþörf þeirra verður metin einstaklingsbundið þannig að hver og einn á að fá þá þjónustu sem hæfir hans persónulegu þörfum.

Það er ákaflega mikilvægt að sveitarfélögin fari að undirbúa sig af fullum krafti undir yfirtökuna á málefnum fatlaðra. Í þeim efnum er hægt að læra mikið af þeim sveitarfélögum sem þegar hafa tekið málaflokkinn yfir. Augljóst er að sum minni sveitarfélög munu ekki geta sinnt málaflokknum án samstarfs við önnur sveitarfélög. Mörg hver hafa þegar tekið upp samvinnu um félagsþjónustuna. Sú samvinna er með ýmsum hætti. Bæði er um að ræða samstarfssamninga og þjónustusamninga. Það er augljóst mál að nauðsynlegt er að fara yfir skipan þessara mála hjá sveitarfélögunum við þessi tímamót og betra að huga að því fyrr en síðar.

Ég má einnig til með að nefna það að dýrmæt reynsla hefur fengist við framkvæmd félagsþjónustu í dreifbýli, m.a. með þeirri faglegu félagsþjónustu sem veitt er t.d. í Þingeyjarsýslum. Þar hefur verið þróað starf sem ég veit að á eftir að vera fyrirmynd annarra sveitarfélaga um framkvæmd þjónustunnar og hvernig sveitarfélög geta unnið saman að framkvæmd erfiðra og krefjandi verkefna.

Ég hef einnig grun um að sveitarfélögin sum hver eigi eftir talsvert starf í að þróa innra eftirlit í sínum þjónustugeirum. Slíkt eftirlit er forsenda þess að við treystum þeirri þjónustu sem við leggjum skattpeningana í. Allt eru þetta áhugaverð verkefni fyrir sveitarstjórnarfólk að takast á við og ákaflega mikilvægt að vel takist til.

Ég hef þá bjargföstu skoðun að hér sé um málaflokk að ræða sem skiptir máli í ljósi byggðamála. Að mínu viti skiptir mjög miklu máli að allir landsmenn, hvar í sveit sem þeir eru settir, eigi aðgang að góðri félagsþjónustu og þjónustu við fatlaða. Þá er ég ekki að segja að hún eigi alls staðar að vera byggð eins upp, heldur að grundvallarþættir hennar séu sambærilegir að gæðum, en hún geti verið framkvæmd á mismunandi hátt eftir aðstæðum.

Hæstv. forseti. Félmn. hefur farið í tvær vinnuferðir út á land þar sem við höfum kynnt okkur ýmsa þætti félagsþjónustunnar og málefni fatlaðra. Einnig standa fyrir dyrum kynnisferðir á höfuðborgarsvæðinu og á Reykjanesi. Ég hef talið það afar mikilvægt til að nefndarmenn væru sem best í stakk búnir að fjalla um frumvörpin sem við eigum eftir að fjalla um nú í vetur. Það er ljóst að taka þarf tillit til margra og að samræma þarf mörg sjónarmið.

Ég vil taka fram að það er afdráttarlaus skoðun mín að sveitarfélögin séu almennt betur til þess fallin að veita borgurunum samfélagslega þjónustu en ríkisvaldið. Rökstuðningur við þá skoðun mína er best fenginn með þeirri reynslu sem hefur fengist hjá reynslusveitarfélögunum og þeim sveitarfélögum sem gert hafa þjónustusamninga við ríkið um einstaka þætti þjónustu við fatlaða og t.d. heimaþjónustu við aldraða.

Hæstv. forseti. Ég vil að lokum óska eftir góðu samstarfi hér eftir sem hingað til í félmn. við yfirferð og vinnslu þeirra fjögurra frv. sem hér um ræðir.