Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 21:29:49 (2079)

2000-11-21 21:29:49# 126. lþ. 28.8 fundur 242. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[21:29]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Til umræðu er viðamikið frv. sem er þess eðlis að örlagaríkt getur reynst hvernig til tekst um framkvæmdina ef það á annað borð verður að lögum. Hér vísa ég að sjálfsögðu til flutnings á málefnum fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga.

[21:30]

Hverjar eru ástæður þess að menn hyggjast flytja þennan málaflokk frá ríki til sveitarfélaga? Að mínum dómi eru þær tvær. Í fyrsta lagi er þetta þróun sem á sér víða stað, á Norðurlöndum og víðar í Evrópu. Menn horfa til þessarar þróunar, menn sjá að sjálfsögðu kostina, annars væru menn ekki að ráðast í þessar breytingar í öðrum löndum og fólk okkar sækir ráðstefnur og hrífst með straumnum. Hin ástæðan er sú að menn sjá kosti þess að færa ábyrgð og alla ákvarðanatöku nær þeim sem vinna verkin. Það er vissulega ótvíræður kostur við að færa málaflokkinn frá ríki til sveitarfélaga.

Hverjir kunna hins vegar að vera ókostirnir og hvaða hættum gætum við staðið frammi fyrir? Það er mjög mikilvægt að við reynum að sjá fyrir hverjar hætturnar eru.

Í fyrsta lagi held ég að við ættum að vara okkur á samanburði. Við eigum að vara okkur í samanburðarfræðunum við aðrar þjóðir vegna þess að aðstæður hér á landi eru mjög frábrugðnar því sem gerist með öðrum þjóðum um margt og þá ekki síst með tilliti til fjölda. Þegar sænska ríkið færir verkefni frá ríki til héraða eru þessi héruð iðulega margfalt fjölmennari en íslenska ríkið, margfalt fjölmennari en íslenska þjóðin og margfalt öflugri fjárhagseiningar en íslenska ríkið. Þetta á við um flest þau ríki sem við erum að bera okkur saman við.

Hér erum við komin að hættunum. Það er peningaþátturinn, það er fjármögnunin á þessum málaflokki. Hér hræðir sagan svolítið vegna þess að þótt menn teldu sig hafa náð ásættanlegu samkomulagi, a.m.k. töldu sveitarfélögin sig hafa náð ásættanlegu peningalegu samkomulagi þegar grunnskólinn var fluttur frá ríki til sveitarfélaga, þá reyndist það ekki vera svo, a.m.k. eru víða uppi mjög háværar gagnrýnisraddir og margir sem telja að sveitarfélögunum hafi ekki verið séð fyrir tekjustofnum til að standa straum af tilkostnaði við þau verkefni sem þeim var ætlað að leysa. Þetta er nokkuð sem við þurfum að íhuga mjög svo rækilega.

Hæstv. félmrh. sagði í framsöguræðu sinni að hann mundi ekki láta sér detta í hug að fara fram með þessa lagabreytingu í óþökk tveggja aðila, í óþökk sveitarfélaganna og í óþökk hagsmunasamtaka fatlaðra, ef ég skildi hann rétt.

Nú er það svo þegar greinargerðin með þessu frv. er skoðuð kemur fram bæði frá Þroskahjálp og aðilum, sem voru þarna á vegum Öryrkjabandalagsins, skilyrtur stuðningur við þetta frv. Menn vildu sjá fyrir endann á peningaþættinum og hver endanlegur búningur væri en heldur var þetta jákvætt þótt skilyrt væri.

Nú er hins vegar að koma í ljós, og þá sérstaklega hvað Öryrkjabandalagið snertir, því hjá þessum aðilum heyrist mér vera mismunandi áherslur, að Öryrkjabandalagið er að leggjast gegn þessum flutningi. Það kemur mjög greinilega fram, m.a. í grein sem formaður Öryrkjabandalagsins, Garðar Sverrisson, ritar í síðasta fréttabréf Öryrkjabandalagsins. Ég ætla að leyfa mér að vitna í þá grein, með leyfi forseta. Hér segir:

,,Frá því stjórnvöld tóku þá ákvörðun að fresta fyrirhuguðum flutningi málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga hafa tvær grímur verið að renna á ýmsa þá sem áður voru málinu hlynntir og jafnvel mjög eindregið fylgjandi flutningnum. Raunar má segja að það hafi einmitt verið þessar vaxandi efasemdarraddir sem urðu til þess að stjórnvöld ákváðu að slá á frest þessu viðamikla og mjög svo viðkvæma máli --- máli sem, þótt kostnaðarminna sé, er fjarri því að vera eins einfalt og flutningur grunnskólans, þótt sumum kunni að finnast þar nóg um og ekki séð fyrir endann á þeim margvíslega vanda sem þar er við að glíma.

Hvað málaflokk okkar snertir er mikilvægt að skýrt komi fram að Öryrkjabandalag Íslands átti ekki þátt í þeirri ákvörðun að slá yfirfærslunni á frest. Þvert á móti hafði bandalagið verið málinu fremur hlynnt, ekki hvað síst vegna þess eindregna áhuga sem sveitarstjórnarmenn virtust hafa á málinu, sömu menn og nú eru hver af öðrum (að hluta vegna reynslunnar af grunnskólanum) að vakna til vitundar um að þótt atvinnu megi hafa af þjónustu við fatlaða þá útheimtir það umfangsmikla þekkingu og gríðarlega ábyrgð að taka við þessum málaflokki. Þá efast þeir um að það verði í öllum tilfellum uppgrip að fá ,,þetta fólk`` eins og ráðamenn hafa tilhneigingu til að kalla okkur og jafnvel þótt svo kunni að verða hugnast ýmsum þeirra ekki byggðastefna sem byggir á því að senda fatlaða til staða sem ættingja þeirra og vini fýsir ekki að búa á.``

Ég er að vitna í grein eftir Garðar Sverrisson, formann Öryrkjabandalags Íslands, í síðasta fréttabréfi Öryrkjabandalagsins. Og hann heldur áfram, með leyfi forseta:

,,Innan Öryrkjabandalagsins hafa alltaf verið nokkuð skiptar skoðanir um það meginmál hvort rétt sé yfirhöfuð að flytja málefni fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Í dag er hins vegar svo komið að allflestir þeirra sem áður voru flutningnum fylgjandi telja hann annaðhvort ótímabæran eða hreint óráð, vara jafnvel hvað eindregnast við honum og bera í því efni fram margvíslegar röksemdir sem hvorki er auðvelt að hrekja né leiða hjá sér.``

Og enn heldur Garðar Sverrisson, formaður Öryrkjabandalags Íslands áfram, með leyfi forseta:

,,Áður en vikið verður að þeim áhyggjuefnum sem orðið hafa til þess að Öryrkjabandalag Íslands treystir sér ekki til að styðja yfirfærsluna, er e.t.v. gagnlegt að leiða hugann lítillega að tildrögum sjálfrar hugmyndarinnar. En auk svokallaðrar samþættingar (,,integration``), sem lengi hefur verið eitt helsta baráttumál fatlaðra um allan heim, á hún rót sína í þeirri hugmyndafræði valddreifingar sem á árunum upp úr 1970 fór eins og eldur í sinu um milljónaþjóðfélög Vesturlanda og þótti slík töfralausn á flestum mannlegum vanda að fulltrúar ólíkustu stjórnmálaafla kepptust við að eigna sér þessa allsherjarlausn, þótt e.t.v. megi segja að sósíaldemókratar hafi gengið hvað lengst í að gera hana að trúarsetningu. Með yfirfærslu verkefna til smærri stjórnsýslueininga var draumurinn að færa ákvarðanirnar nær fólkinu sjálfu svo það hefði meira um líf sitt að segja. Kjörorðin voru: ,,Valdið til fólksins!`` Þessu fylgdi sú röksemd að með aukinni kostnaðarvitund mundi fólkið sjálft veita það aðhald sem nauðsynlegt væri til að lágmarka allan kostnað. En hverjir voru ,,fólkið sjálft`` og hverjir áttu fyrst og fremst að njóta þess að kostnaði yrði haldið í lágmarki?

Þeir sem ákafast hafa gengið fram í þeim boðskap að færa beri flestalla málaflokka til smærri stjórnsýslueininga hafa haft tilhneigingu til að vanmeta þær margvíslegu hættur, þversagnir og vandamál sem innbyggð eru sjálfu lýðræðinu, svo öruggt og gott sem okkur kann að finnast það. Augljósust er einfaldlega sú hætta að meiri hlutinn misbeiti valdinu í sína þágu og taki ekki nægt tillit til minni hlutans, jafnvel þó hann samanstandi af nærri helmingi kjósenda, að ekki sé talað um þegar ákvörðun er varðar heill og hamingju jafnörlítils minni hluta og þeirra sem fatlaðir eru. Og vitaskuld verður þessi hætta stórum meiri þegar í hlut á minnihlutahópur sem vegna vanþekkingar og hleypidóma nýtur ekki þeirrar virðingar sem honum ber. Þetta hljóta allir að sjá og skilja.``

Og enn ætla ég að vitna í nokkrar setningar í grein Garðars Sverrissonar, formanns Öryrkjabandalagsins, með leyfi forseta:

,,Önnur meinsemd, þessari tengd, lýtur að því hve návígið getur oft orðið kalt og grimmt í hinum fámennari samfélögum þar sem fólk er jafnvel enn í dag kennt við fötlun sína, hve umtal og framkoma í garð fatlaðra einkennist um of af lítilli aðgát, svo vægt sé til orða tekið. Staðreynd er að á þeim stöðum þar sem dugnaður og starfsorka eru talin æðst og mest allra mannlegra dyggða, líður okkar fólk oft hreinar sálarkvalir, jafnvel gagnvart sínum eigin ættingjum og venslafólki. Kenningar okkar um hið guðdómlega ,,nærsamfélag`` og ,,nærþjónustu`` eru gjarnan til þess eins fallnar að vekja þessum félögum okkar nístandi hroll sem snúist getur í hreina martröð ef sú hugmynd gengur eftir að vega og meta hvern þeirra í krónum og aurum, svo sveitungarnir viti nú örugglega hvað ,,ómaginn`` kostar. Með aukinni kostnaðarvitund er síðan viðbúið að farið verði að huga að því hvað annað mætti nú gera fyrir hluta fjárins, eitthvað sem gæti komið fleirum til góða. Svo mikið er a.m.k. víst að þótt ráðuneytin kunni að vera erfið viðureignar, er veruleg hætta á að okkar fólki fallist algerlega hendur ef við setjum það í þá stöðu að sækja rétt sinn gagnvart sveitungum sínum.``

Ég lýk hér tilvitnun í grein Garðars Sverrissonar, formanns Öryrkjabandalags Íslands, sem hann skrifar í síðasta hefti fréttabréfs Öryrkjabandalagsins þar sem hann leggst eindregið gegn þessum flutningi og talar þar fyrir hönd Öryrkjabandalagsins.

Mönnum kann að finnast þetta nokkuð þung orð þegar rætt er um kostnaðarvitundina og útreikning á því hvað hinn fatlaði eða sjúki kostar. Ég held að e.t.v. sé ekki mikill munur á því hvað mannfólkið gerir hvort það er hjá ríki eða sveitarfélögum, hitt er rétt að þessi hugsun er nokkuð sterk í nútímanum. Menn kunna að minnast lítils bæklings sem síðasta ríkisstjórn gaf út, í raun sú sama og nú situr, eða eins samansett. Það voru vasafjárlögin, vasaútgáfa fjárlaga, og þar var reiknað út hvað hver fatlaður einstaklingur kostaði samfélagið. Þar var reiknað út hvað öryrkinn kostaði. Það var settur á hann prís. Ég held að þetta sé staðreynd sem við þurfum að horfa mjög kalt og yfirvegað á.

Þegar við erum að tala um að nauðsynlegt sé að færa verkefni nær þeim sem eiga að vinna verkin er ég í sjálfu sér fylgjandi þeirri hugsun. Ég held að það geti verið til góðs en ég sé líka hætturnar, sérstaklega í fámennum sveitarfélögum. Í fjárhagslega vanmegna sveitarfélögum held ég að það sé ekki mjög þægilegt að vera mikið fatlaður einstaklingur eða foreldri með fjölfatlað eða þroskaheft barn sem þarf á mikilli aðstoð að halda. Ég held að það sé ekkert mjög þægilegt, ég held að það sé ekki gott. Jafnvel þótt starfsfólkið og þeir sem sinna þessum verkefnum kunni að hrópa húrra og þetta hljómi fallega og vel í pólitíkinni líka þá er ég ekkert viss um að ég vildi vera þessi einstaklingur. Ég held að ég vildi alveg eins eiga rétt minn í landslögum og eiga það komið undir hinu, mér liggur við að segja ópersónulega valdi, hvernig mannréttindi mín eru tryggð, en eiga það undir fámennu, vanmegna sveitarfélagi.

[21:45]

Ég efast ekki um að full meining sé á bak við þá yfirlýsingu hæstv. félmrh. að hann vilji ekki gangast fyrir þessum flutningi nema tryggt sé að nægilegt fjármagn fylgi. Ég efast ekki um heilindi hans í því. En hér spilar inn í stærra pólitískt samhengi. Við erum að upplifa, t.d. bara þessa dagana, að deilt er um hvernig eigi að fara með félagslegt leiguhúsnæði, þar á meðal stuðning við leiguhúsnæði fatlaðra, stuðning við Sjálfsbjörg og stuðning við Öryrkjabandalagið. Þó að hæstv. félmrh. kunni að vera eindregið á því að hafa þennan stuðning sem mestan þá er tekist á um fjármagnið, það er staðreynd. Það er tekist á um krónurnar og eins verður tekist á um þessar krónur. Við stöndum einfaldlega frammi fyrir spurningunni: Hvar eiga þessi átök að fara fram? Eiga þau að fara fram hér í umfjöllun um ríkisfjármálin eða eiga þau að fara fram innan sveitarfélaganna? Í því samhengi þurfum við að hyggja að varnaðarorðum formanns Öryrkjabandalagsins.

Við stöndum frammi fyrir því líka að það er ekki einungis svo að menn deili um hvernig eigi að haga stuðningi við félagslegt leiguhúsnæði. Hæstv. félmrh. hefur talað um þann möguleika að gera það í gegnum vexti, þótt hann hafi ekki lokað neinum dyrum í þeim efnum hefur hann talað um þann möguleika. Hæstv. fjmrh. hefur algerlega vísað þeirri lausn á bug og hefur talað um styrkveitingar til þessa húsnæðis. En burt séð frá þessum deilum þá stendur sú staðreynd eftir að stuðningur við félagslegt leiguhúsnæði, þar á meðal til öryrkja, hefur minnkað. Hann hefur verið í formi lægri vaxta, á sínum tíma voru þeir 1%. Nú er boðið upp á tvo lánaflokka, 2,4% lán sem eru aðallega til sveitarfélaganna og 3,2% sem eru til samtaka á borð við Öryrkjabandalagið og Sjálfsbjörg. Menn hafa dregið úr þessum stuðningi.

Er ég þá ekki að tala gegn sjálfum mér í reynd þegar ég hleð hér upp spurningarmerkjum gagnvart hinu vafasama ríkisvaldi, að það sé ekkert tryggt á stjórnarheimilinu í þeim efnum? Ég held einfaldlega að það sé meiri trygging fyrir því að ríkið standi vörð um réttindi fatlaðra en vanmegna og fámenn sveitarfélög. Ég hef ekki miklar áhyggjur af burðugum sveitarfélögum. Það hef ég ekki. Það hafa verið gerðar tilraunir í þessum efnum sem hafa tekist mjög vel, gengið mjög vel upp. Fyrir norðan, á Höfn og víðar hafa þær tekist prýðisvel. En við þurfum að horfa til landsins alls og allra sveitarfélaga. Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort ekki sé til einhver millileið í þessu, þar sem við sameinum þessar tvær leiðir, tryggjum fjármagn úr ríkissjóði en stuðlum að því að færa ábyrgðina og ákvarðanatökuna og framkvæmdina til sveitarfélaganna.