Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 21:53:40 (2082)

2000-11-21 21:53:40# 126. lþ. 28.8 fundur 242. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[21:53]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. byrjaði á því að vitna til þess hvernig við í þessu húsi færum með aldraða og öryrkja. Það er alveg rétt. Kannski er það vegna þess að það er miklu auðveldara að vera vondur við fólk ef þú þarft ekki að horfa á það á meðan. Ef þú þarft ekki einu sinni að vita hvað það er, hvað það heitir eða við hvaða aðstæður það býr. Ef þetta er ópersónulegt þá er það auðveldara. Sé hins vegar um er að ræða fjölskyldur eða aðila sem þú þekkir aðstæðurnar hjá þá er ekki eins auðvelt að segja nei, ekki eins auðvelt að líta undan. Þess vegna hafa ýmis réttindamál frekar gengið fram þegar sveitarfélögin hafa tekið við málaflokkunum en þegar ríkið hefur séð um þau.

Mér finnst allt í lagi að menn hafi í huga að um það leyti sem grunnskólinn fór yfir til sveitarfélaganna þá var breytt einhliða í menntmrn. skilgreiningum á tiltekinni fötlun hjá leikskólabörnum. Þetta setti svona ákveðinn keng í það mál. Ráðist var í að breyta þessari skilgreiningu þannig að ráðuneytið hætti að greiða fyrir tiltekna þjónustu. Ekki leiddi það til þess að hætt væri að veita þjónustuna. Ónei, sveitarfélögin tóku hana yfir af því þau þekktu sinn vitjunartíma og sáu að þjónustunnar var þörf.

Þess vegna finnst mér, herra forseti, að menn eigi að horfa til þess hver reynslan er af flutningi verkefna áður en þeir tala eins og sjálfgefið sé að betur sé stýrt og skammtað að sunnan. Reynslan er nefnilega sú að það er verra, einfaldlega vegna þess að nálægðin gerir menn eru tilbúnari og viljugri til að mæta óskum þess fólks sem við reglur og lög á að búa.

Hitt er svo annað mál að það er sjálfsagt að fara vandlega yfir lögin og reyna að gera þau eins vel úr garði og hægt er til að engin hætta sé á misfellum.