Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 22:30:17 (2087)

2000-11-21 22:30:17# 126. lþ. 28.8 fundur 242. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[22:30]

Arnbjörg Sveinsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi aðeins taka fram vegna þeirrar spurningar sem hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir beindi til mín um hvort frumvörpin yrðu send út aftur til umsagnar, að ég tel að félmn. muni gera það þó ekki væri nema vegna þeirrar stefnubreytingar sem fram kemur í umsögn Öryrkjabandalags Íslands frá því að fulltrúi hennar, Helgi Seljan, skrifaði undir nál. þann 20. október 1999 og þar til að ný umsögn kemur frá Öryrkjabandalaginu 27. september nú í ár. Ég tel rétt að kanna hvort fleiri en Öryrkjabandalagið hafi skipt um skoðun. Ef það er ekki (ÖJ: Umsögnin var alltaf skilyrt.) geta samtök og þeir sem vilja koma að athugasemdum auðvitað bara sent staðfestingu á fyrri umsögnum. En vegna frammíkalls er kannski rétt að lesa upp úr athugasemd Helga Seljans frá því að nefndin lauk störfum en þá segir hann einmitt hér, með leyfi forseta:

,,Og styður undirritaður þær í heild sinni en hlýtur þó að hafa nokkra fyrirvara.``

Þeir fyrirvarar lúta að m.a. fjármagnsþættinum, um að Öryrkjabandalagið geti komið með umsagnir um frumvarp að lögum um vinnumarkaðsaðgerðir, um aðgengismál og skyldustyrki vegna náms og tækjakaupa og að þeir fái að fylgjast með yfirfærslunni og um sérlög um réttindagæslu.

Þetta eru svona almennir fyrirvarar, hæstv. forseti.