Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 23:18:59 (2101)

2000-11-21 23:18:59# 126. lþ. 28.8 fundur 242. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[23:18]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson) (andsvar):

Herra forseti. Það eru ekki nema nokkrir dagar síðan, örstutt síðan við ræddum þetta atriði, ég og hv. þm. Ég vil rifja upp að á biðlista eftir búsetu eru þrír einstaklingar í þyngsta fötlunarflokknum eldri en 21 árs. Í fötlunarflokki nr. sex, þ.e. næstþyngsta flokknum, eru sjö einstaklingar eldri en 21 árs. Í tveimur þyngstu flokkunum sem bíða tíu.

Síðan eru 18 einstaklingar í fimmta flokki eldri en 21 árs sem bíða. Í Reykjavík eru 29 án dagþjónustu en þar af búa 14 á sambýlum. Það er að því komið að við getum skaffað öllum í Reykjavík sem þurfa dagþjónustu.

Á Reykjanesi eru 11 án dagþjónustu en þar af eru fjórir á sambýlum. Án þjónustu á þessum svæðum eru þó ekki nema 22 einstaklingar.