Félagsþjónusta sveitarfélaga

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 23:20:38 (2102)

2000-11-21 23:20:38# 126. lþ. 28.8 fundur 242. mál: #A félagsþjónusta sveitarfélaga# (heildarlög) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[23:20]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hæstv. félmrh. brást þannig við því sem ég taldi tiltölulega málefnalegt innlegg af minni hálfu, þar sem ég lýsti bæði þeim kostum sem ég sæi við yfirfærslu málefna fatlaðra til sveitarfélaganna og þeim efasemdum sem ég hefði um það mál, með þeim hætti að helst er hægt að flokka það undir úrillsku. Hæstv. ráðherra er út af fyrir sig nokkur vorkunn, það er áliðið kvölds og hæstv. ráðherra langar e.t.v. mest heim í bólið sitt. En úr því að hann kýs að bjóða upp á frekari umræður um þetta mál með þessu svari sínu þá er alveg sjálfsagt að verða við óskum hæstv. félmrh. og eiga aðeins orðastað við hann um þetta. Ég ætla að vísu ekki að láta hæstv. félmrh. og geðvonsku hans hrekja mig út af sporinu við að ræða þetta málefnalega sem ég tel mig hafa gert og mun halda áfram að gera. Þaðan af síður ætla ég að hvika frá gagnrýni minni á það sem ég tel gagnrýnivert, þó að félmrh. í anda formanns síns færi þau efnismiklu rök í svörum sínum að maður eigi ekki að vera á móti af því sé ekki fínt og ekki skynsamlegt að vera mjög mikið á móti hlutunum.

Ég hef áttað mig á því að Framsfl. hefur myndað sér ákveðna aðferð til að réttlæta afstöðu sína til ýmissa mála, þ.e. að segja já og amen við ýmsu sem kannski er ekki svo kræsilegt, með þeirri ákaflega einföldu röksemdafærslu að menn eigi ekki að vera mikið á móti hlutunum, það sé ekki nógu gott að vera svona neikvæður, menn eigi að samþykkja svona helminginn af öllu sem að þeim ber án þess að vera of kræsnir á innihaldið.

Þetta hefur nú lengi verið verklag Framsóknar. Ég held að við verðum, herra forseti, að hafa á þessu fullan skilning og sýna Framsfl. umburðarlyndi. Á þessum grunni byggir hann tilveru sína, að setja sig ekki of mikið á móti hlutunum, það sé vesen og ekki endilega vel til vinsælda fallið. Þá sé bara um að gera að samþykkja það.

Kannski er þetta þannig niðri í herberginu neðar í húsinu, sem mest var nú eftirspurnin eftir í fyrrahaust og lá hér við átökum og gott ef ekki öðru meiru á þingi, svo mikil var löngunin til að fá að gista þetta herbergi og ráða þar ráðum sínum. Kannski er þar bara teningur með tveimur hliðum, á annarri stendur já og hinni nei og svo er bara kastað upp. Í svona u.þ.b. í helmingi tilvika þýðir þetta að Framsókn segir já við hverju sem að henni ber. Það mundi náttúrlega skýra ýmislegt fyrir okkur sem höfum á köflum undrast geðleysi þessa flokks sem á einhverjum tíma hafði skap en lætur nú troða flestu ofan í kokið á sér, enda orðið ærið vítt.

Ég hef, herra forseti, ekki miklar efasemdir um að velflest stærri og öflugri sveitarfélög í landinu mundu ráða prýðilega við að taka við þessum málaflokki, málefnum fatlaðra. Í þeirra tilvikum eru kostirnir fleiri en gallarnir að mörgu leyti, það liggur nokkuð ljóst fyrir. Fyrir öfluga kaupstaði með tiltölulega vel uppbyggðri félagsþjónustu liggur það að mörgu leyti beint við að samhæfa þjónustu við fatlaðra þjónustunni sem fyrir er og það getur gefist ágætlega. Í þeim tilvikum snúa efasemdir mínar meira að grundvelli þessara samskipta og spurningunni um með hvaða hætti við komum svona málaflokki fyrir í stjórnkerfinu. Þar eiga menn að mínu mati ekki að gefa sér fyrir fram í einhverjum kaþólskum stíl, hreintrúnað á að þetta skuli annaðhvort alfarið vera hjá ríkinu eða alfarið hjá sveitarfélögunum. Ég held að það sé ekki rétt nálgun hjá okkur.

Varðandi minni sveitarfélögin og strjálbýli landsins þá er þar algjörlega gjörólíku saman að jafna. Einu geld ég varhug við, þ.e. að einblína bara á íbúatölur sveitarfélaganna og halda að þetta leysist allt saman með því að slá þeim saman eða að þau gangi til samstarfs sem taki yfir stærra svæði og þar með hverfi þessi mismunandi aðstaða sveitarfélaganna í landinu. Hún gerir það ekki. Hún verður að einhverju leyti í öðru samhengi ef menn safna kröftum með því að sameinast en aðstæðurnar til að veita þessa þjónustu verða áfram gjörólíkar. Dalasýsla er og verður Dalasýsla með sínum fáu íbúum, dreifðum á stórt svæði, þó að hún sé eitt sveitarfélag kannski jafnstór og Hvammstangi eða eitthvað því um líkt. Aðstæðurnar til að sinna þjónustunni annars vegar í 1.500 manna Norður-Þingeyjarsýslu og hins vegar í Borgarnesi, þó að íbúafjöldinn sé kannski svipaður, eru gjörólíkar. Þessu mega menn ekki gleyma.

Þarna verða áfram fyrir hendi ólíkar aðstæður sem taka þarf tillit til. Hver á að gera það? Á Jöfnunarsjóður sveitarfélaga að vera hin milda hönd sem yfirtekur þá skyldu Alþingis, löggjafar- og framkvæmdarvalds, að tryggja að landsmenn standi jafnir að vígi gagnvart þessari þjónustu? Er það endilega rétta fyrirkomulagið? Væri kannski betra að segja: Nei, ábyrgðin á að vera hjá framkvæmdarvaldinu og löggjafanum á því að allir landsmenn, án tillits til búsetu og hvernig þeir eru í sveit settir eigi þennan rétt, innan þeirra marka sem hið mögulega setur okkur að sjálfsögðu. Við erum auðvitað ekki að tala um endanlega fullkomna möguleika á að tryggja þetta en við gerum eins vel og við getum í þeim efnum, er það ekki? Er ekki sæmileg samstaða um það? Það er sá grunnur sem þetta frv. byggir á.

Eitt í viðbót, herra forseti, vil ég gagnrýna hér í framsetningu hæstv. félmrh. Í raun og veru fannst mér það hneykslanlegt að hæstv. ráðherra skuli í andsvörum sínum reyna til hins ýtrasta að stilla dæminu þannig upp að þetta sé bara annaðhvort eða. Að gildistakan skuli vera 1. janúar 2002 eða bara málið verði slegið af í heild sinni. Á mannamáli þýðir þetta að stilla mönnum upp við vegg og segja: Takið þetta eða ekkert, takið þið við þessu eins og þetta er og ekkert múður eða málið verður bara slegið af í heild. Ef menn fara fram á meiri tíma, lengri aðlögunartíma, meiri undirbúningsvinnu, nei, þá býður félmrh. ekki upp á það. Hann segir nei, þá skulum við bara hætta við þetta.

Þetta er fremur ógeðfellt. Ég legg til að menn láti hæstv. félmrh. ekki komast upp með að skilgreina kostina með þessum hætti. Þeir eru ekki og þurfa ekki að vera svona. Það má að sjálfsögðu ákveða, ef til þessarar tilfærslu kemur að einhverju eða öllu leyti, að hún með öðrum skilmálum eða á öðrum grundvelli en hér er lagður til ef um það getur orðið betra samkomulag. Þetta getur einnig gerst á lengri tíma ef menn telja sig þurfa lengri tíma til undirbúnings o.s.frv. Þessu ræður hæstv. félmrh. ekki með því að stilla hér upp við 1. umr. málsins þeim afarkostum að annaðhvort taki menn pakkann svona eins og hann er að mönnum réttur af hálfu hæstv. ráðherra eða ekki neitt.

Ég vil segja, vegna þess sem hér var sagt um afstöðu og aðkomu samtaka fatlaðra og aðstandenda þeirra að þessu máli í gegnum tíðina, að þar þýðir ekki að vitna sex ár aftur í tímann og segja að þá hafi Öryrkjabandalagið og Þroskahjálp verið upphafsmenn þessa máls og síðan hafi sveitarfélögin gengið í lið með þeim til að ýta þessari vinnu af stað.

Afstaða þessara aðila eins og hún liggur fyrir nú er á grundvelli mats á þeim aðstæðum sem liggja fyrir í málinu. Sú afstaða hefur myndast í ljósi reynslunnar, í ljósi reynslunnar af öðrum ,,sambærilegum tilvikum`` og hún tekur mið af því sem drifið hefur á dagana í millitíðinni. Ég hygg að menn verði líka að sýna því sanngirni að þegar þessi stefna var uppi af hálfu samtaka fatlaðra fyrir sex, sjö árum bjuggu þau við mjög erfiða sambúð við ríkisvaldið sem hafði skorið niður í málaflokknum, skert Framkvæmdasjóð fatlaðra og með ýmsum fleiri ráðstöfunum staðið þannig að framkvæmd mála að eðlilegt var að menn byndu vonir við að þessum hlutum væri betur fyrir komið hjá sveitarfélögunum við þáverandi aðstæður. Þá bundu menn líka vonir við að þar væri farvegur fyrir nýjar hugmyndir og nýja hugsun á þessu sviði, sem vel kann að vera að gæti að einhverju leyti verið. Hins vegar er það út frá núverandi aðstæðum í málinu sem þessir aðilar hafa endurmetið afstöðu sína og þeir hafa fullan rétt til þess að gera það. Það þýðir ekkert að reyna að flækja menn í því að þeir hafi einhvern tíma, við allt aðrar aðstæður, haft aðrar meiningar en með fullum fyrirvörum þó, eins og reyndar hefur þegar komið fram.

[23:30]

Um húsnæðismálin er þannig búið að í löggjöf stendur að það eigi að vera skylda sveitarfélaganna að leitast við að tryggja nægjanlegt framboð af leiguhúsnæði í sínum sveitarfélögum. Hvernig í ósköpunum eiga sveitarfélögin að fara að því þegar búið er að leggja niður félagslega íbúðakerfið, þegar fyrir dyrum stendur vaxtahækkun á lánunum sem eftir eru og þegar enginn hvati er fyrir hendi til þess að ýta undir að tryggja þetta framboð? Enda virðist ekki unnið því og biðlistar eftir leiguhúsnæði lengjast dag frá degi hjá sveitarfélögunum um þessar mundir. Þar er á ferðinni ákvæði sem óhjákvæmilegt er að taka sömuleiðis til mjög rækilegrar skoðunar.