Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 23:40:42 (2109)

2000-11-21 23:40:42# 126. lþ. 28.13 fundur 215. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (gildistími) frv., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[23:40]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Ég ætla einungis að segja örfá orð um þetta mál. Hæstv. ráðherra sagði í andsvari áðan að hann vonaði innilega að nefndin sem vinnur að tillögum um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða skilaði verkefni sínu sem fyrst svo hægt væri að taka þær tillögur fyrir hér í vetur. Hins vegar telur hann greinilega ástæðu til að gera ráð fyrir því að það muni ekki ganga. Hann sér a.m.k. ástæðu til að flytja þetta frv. og það segir auðvitað sína sögu um að hæstv. ráðherra telur ekki að þetta sé alveg öruggt.

Ég ætla svo sem ekkert að segja annað en vil minna á að við í Samfylkingunni vorum ósammála þeim tillögum sem samþykktar voru hér í fyrra og eru í þessu frv. Við erum jafnósammála þeim niðurstöðum sem eru í þessu máli í dag og við vorum þá. Við lögðum þá til að menn fengju almennan aðgang að þessum veiðiheimildum með útleigu veiðiheimildanna á opnum markaði. Auðvitað er það stefna sem verður ofan á að lokum. Menn munu auðvitað opna fyrir þennan atvinnuveg að lokum með jafnræði í huga, þannig að þeir sem þar koma að því að stofna ný fyrirtæki og hefja rekstur fái sömu tækifæri og aðrir sem fyrir eru í útgerð á Íslandi. Einhvern tímann í framtíðinni gerist þetta. Spurningin er hvað þeir sem nú ráða málum hanga lengi á þeim sérréttindum sem hafa verið í gildi og barist er fyrir að verði í gildi áfram.

Þetta er auðvitað hluti af því. Við í Samfylkingunni munum ekki samþykkja þessa breytingu á lögunum. Ég vil hér eingöngu minna á afstöðu okkar í málinu og ætla ekki að segja meira um það.