Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 23:46:55 (2114)

2000-11-21 23:46:55# 126. lþ. 28.13 fundur 215. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (gildistími) frv., ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[23:46]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Ég vil að það komi fram að ég og hv. fulltrúi Frjálslynda flokksins, Guðjón A. Kristjánsson, vorum sammála um það í sjútvn. á síðasta ári að ekki ætti að taka ákvörðun um neina bindingu. Við töldum að það ætti að vera óbreytt ástand varðandi veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum og bárum fram þau rök að til stæði að endurskoða sjávarútvegsstefnuna og búið væri að setja á laggirnar nefnd til þess að endurskoða hana. Við töldum að það væri ekki rétt á því stigi málsins að gera breytingar.

Nú er beðið um framlengingu og ég vil bara að það komi fram að við vorum andvígir þessu og lögðum fram nál. sér, þó að ég hafi ekki verið formlega á nál. þar sem ég er áheyrnarfulltrúi í sjútvn. En í nál. frá síðasta ári, sem ég var algjörlega sammála, sagði:

,,Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Þorstein Geirsson og Jón B. Jónasson frá sjútvrn., Friðrik J. Arngrímsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Sævar Gunnarsson og Hólmgeir Jónsson frá Sjómannasambandi Íslands, Helga Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands og Grétar Mar Jónsson og Benedikt Valsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Umsagnir um málið bárust frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Sjómannasambandi Íslands, Vélstjórafélagi Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands.``

Í nál. sagði jafnframt, og eins og áður sagði studdi ég það:

,,Með hliðsjón af því að samkvæmt gildandi lögum skal sjútvrh. fyrir 1. nóvember nk. leggja fyrir Alþingi frv. um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum eftir árið 2000 má vænta þess að breytingar verði á lögunum sem hafi áhrif á veiðistjórnunina þegar á næsta ári. Því telur 1. minni hluti ekki þörf á þessari lagabreytingu og leggur til að frv. verði vísað til ríkisstjórnarinnar.``

Síðan segir í nál.: ,,Árni Steinar Jóhannsson sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu.``

Ég vil bara að það komi skýrt fram að við töldum og teljum enn að það hafi verið frumhlaup að setja reglur um þennan stofn þegar svo stutt var í tillögur um endurskoðun á sjávarútvegsstefnunni og vonandi koma þær fyrr en seinna. Ég vildi bara að þetta kæmi fram í umræðunni.