Stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 23:57:57 (2117)

2000-11-21 23:57:57# 126. lþ. 28.13 fundur 215. mál: #A stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum# (gildistími) frv., SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[23:57]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er svo skemmtilegt að rifja þetta upp að ég stenst ekki mátið að halda því áfram. Þetta er alveg hárrétt hjá hv. þm. en auðvitað mætti nefna fleiri dæmi. Það mætti einnig fjalla um þá skrýtnu ráðstöfun á sínum tíma, að setja þak á aflareynslu í úthafsrækju sem kom mjög illa við ýmsar útgerðir sem fyrst og fremst höfðu aflað sér mikillar reynslu á því sviði á Norðurlandi og flutti frá þeim umtalsverðar aflaheimildir. Mig minnir að þetta þak hafi verið sett við 500 tonn á sínum tíma sem var auðvitað afar skrýtin ráðstöfun.

Allt þetta, herra forseti, finnst mér frekar vera rök sem mæla gegn og ættu að fæla menn frá því að ýta til hliðar eða upphefja hinar almennu leikreglur með sértækum ráðstöfunum, reglur sem menn hafa þó reynt að setja um meðferð mála á þessu sviði. Ég vildi fyrst og fremst draga athyglina að því hér að nú liggur fyrir reynslan af þessum sérráðstöfunum eða hringli með norsk-íslensku síldina, sem er ekkert einsdæmi eins og hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson nefndi.

Ég ætlaði svo sem ekki að kveikja almennar umræður um það hvort menn teldu að þau lagaákvæði um meðferð þessara mála, hin almennu sem sæmilegt samkomulag varð þó um að lokum í svonefndri úthafsveiðinefnd og hér flutt sem frv. og lögfest á sínum tíma, væru nákvæmlega eins og þau ættu helst að vera. Það er annað mál, það er í raun og veru önnur umræða. Ég er að reyna að draga athyglina að því og vara við því, svona fordæmisins vegna, að menn réttlæti endalaust sérráðstafanir og inngrip af þessu tagi, ljúgi því að sjálfum sér og öðrum að um sé að ræða tímabundna ráðstöfun í eitt skipti eða tvö. Svo sitja menn uppi með að framlengja þetta aftur og aftur og að lokum verður þetta hinn endanlegi grundvöllur mála, oft og tíðum engan veginn ígrundaður eins og æskilegt hefði verið.