Umferðaröryggismál

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 13:51:13 (2133)

2000-11-22 13:51:13# 126. lþ. 30.1 fundur 84. mál: #A umferðaröryggismál# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[13:51]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Það er eflaust alltaf hægt að bæta við lögreglumönnum. En út af þeim orðum sem féllu frá hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur að allir á Reykjanesi væru óánægðir með löggæsluna, þá er það ekki rétt. Grindvíkingar sem voru óánægðir fyrir ári eru yfir höfuð ánægðir með löggæsluna eins og hún er í dag og lýstu því einmitt yfir á fundi með okkur þingmönnum að þeir væru ánægðir með þá lausn sem hefði fundist með sýslumanninum í Keflavík um það hvernig löggæslumálum yrði háttað í Grindavík.

Það eru önnur svæði á Suðurnesjum sem eru ekki ánægð með sinn hlut. Ég geri ráð fyrir að reynt verði að semja við þau um svipaðar aðgerðir og gert var við Grindvíkinga sem menn yrðu ánægðir með.

Ég vil að það komi fram að slíkar fullyrðingar eiga ekki alltaf við. Auðvitað vilja menn standa vel að löggæslumálum, gæta öryggis í umferðinni og allt það. En rétt skal vera rétt í þessum efnum.