Vegagerðarmenn í umferðareftirliti

Miðvikudaginn 22. nóvember 2000, kl. 13:57:47 (2137)

2000-11-22 13:57:47# 126. lþ. 30.2 fundur 85. mál: #A vegagerðarmenn í umferðareftirliti# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 30. fundur, 126. lþ.

[13:57]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Í umferðarátaki því sem ráðherra kynnti í júlí og var til umræðu í fyrri fyrirspurn var gert ráð fyrir að vegagerðarbifreiðar, sem sinnt hafa eftirliti með þungaskatti og ökuritum, mundu fá aukið hlutverk eins og kom reyndar fram hjá hæstv. ráðherra áðan í svari við fyrirspurn minni hér á undan. Þar er gert ráð fyrir að vegagerðarmenn fái aukið hlutverk og verði nokkurs konar lögreglueftirlitsmenn eða muni sinna löggæslu.

Í þessum vegaeftirlitsbifreiðum eru einn lögreglumaður og einn vegagerðarmaður eins og hefur þegar komið fram. Nú langar mig að vita hjá hæstv. ráðherra hver er staða vegagerðarmanna sem eiga að fara að sinna löggæslustörfum. Þeir eru ekki menntaðir lögreglumenn með þá þekkingu og reynslu sem lögreglumenn búa yfir, án þess að ég sé að gera lítið úr hæfni þeirra, en ég spyr hæstv. ráðherra: Hver er réttarstaða þeirra vegagerðarmanna við þau störf ef t.d. til átaka kemur? Er hún sú sama og lögreglumanna? Eru þeir með sömu tryggingar og lögreglumennirnir og verða þeir bundnir þagnarskyldu til jafns við lögregluna sem hefur undirritað eiðstaf um þagnarskyldu?

Nú hafa lögreglumenn hlotið þjálfun og menntun til að sinna þessum störfum. Munu vegagerðarmennirnir hljóta sambærilega þjálfun, svo sem þjálfun í verndun slysavettvangs, í skyndi- og neyðarhjálp á slysstað, í þjálfun í neyðarakstri, handtökum, sjálfsvarnaræfingum og svo síðast en ekki síst þekkingu á fíkniefnum og áhrifum þeirra?

Mikilvægt er að fá fram þessar upplýsingar þegar vegagerðarmenn ganga inn í störf lögreglunnar við umferðareftirlit eins og ráðherra hefur boðað og lýst bæði í ræðu sinni og einnig á blaðamannafundi í júlí í sumar.